Langbest - velkomin
Langbest - velkomin

Íþróttir

Boltaíþróttir hafa fangað minn hug
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
laugardaginn 25. janúar 2025 kl. 06:48

Boltaíþróttir hafa fangað minn hug

– segir íþróttafréttamaðurinn Andri Már Eggertsson

Þó Andri Már Eggertsson hafi aldrei búið í Keflavík þá rennur blátt Keflavíkurblóð um æðar hans en foreldrar Andra og ættingjar eru Keflvíkingar. Andra kannast flestir íþróttaáhugamenn við en hann er duglegur að fjalla um hina ýmsu íþróttaviðburði á fleiri en einum vettvangi. Víkurfréttir heyrðu í Andra og ræddu við hann um íþróttaáhugann.
„Þó ég hafi ekki búið í Keflavík sem slíkt þá er öll fjölskyldan mín þaðan – og þó maður búi sjálfur í Kópavogi þá hef ég alltaf verið með annan fótinn í Keflavík,“ segir Andri Már í upphafi spjalls okkar en allir ættingjar hans eru úr Keflavík. „Mamma og pabbi eru alin þar upp en amma og afi og bræður mömmu og pabba búa þar ennþá.“
Andri með foreldrum sínum, Eggerti Jónssyni og Unu Hafdísi Hauksdóttur, sem eru fæddir og uppaldir Keflvíkingar.

Þú hefur verið ótrúlega duglegur við umfjöllun um íþróttir og þá allskonar íþróttir.

„Já, algjörlega. Maður hefur bara gríðarlegan áhuga á þessu og finnst mjög gaman að fá að taka þátt í umfjölluninni. Sérstaklega í þessum boltagreinum eins og körfubolta, fótbolta og handbolta líka.

Það heldur manni svolítið inni í íþróttinni þó maður sé ekki sjálfur að spila þá finnst manni maður vera svolítið viðloðandi íþróttir í þessu hlutverki,“ segir hann en Andri æfði sjálfur fótbolta og handbolta.

„Ég var lengi með HK-ingum í handboltanum og svo æfði ég eitthvað aðeins fótbolta með Breiðablik. Ég var mestmegnis með HK og kem úr þessu HK-hverfi í efri byggðum Kópavogs.“

Hvernig gastu þá verið að spila fótbolta með Breiðablik?

„Málið er að HK og Breiðablik voru í rauninni ekki búin að ákveða hverfaskiptinguna sem er þarna. Þannig að maður var á æfingum í Kórnum bæði með Breiðablik og HK, maður verður í rauninni meiri HK-ingur þegar HK tekur við þessum efri byggðum og missir svolítið tengslin við Breiðablik.“

Viðtal tekið við Rúnar Inga Erlingsson í Ljónagryfjunni.

Tenging við körfuboltann

„Verandi með alla fjölskylduna í Keflavík þá kemur allur minn körfuboltaáhugi þaðan – og þegar ég var yngri var maður alltaf að fara með pabba í Sláturhúsið til að horfa á leiki með Keflavík. Þó körfuboltaáhuginn hafi ekki verið mikill hjá jafnöldrum mínum í Kópavogi þá fékk ég hann beint í æð með Keflavíkublóðinu og var duglegur að mæta á leiki þó ég hafi ekki beinlínis búið í hverfinu.“

Þannig að þú er Keflvíkingur í körfunni.

„Já, algjörlega. HK er náttúrulega ekki með neitt körfuboltalið, þannig að karfan kemur algjörlega úr Keflavík og ég er búinn að fylgjast með þeim mjög lengi.“

Andri hefur undanfarið verið að fjalla um handbolta með Hjörvari Hafliðasyni á YouTube-rás Dr. Football og við spjöllum um það hvernig handboltinn virðist heltaka landsmenn þessa dagana og það hefur áhrif á aðsóknina á aðra íþróttaviðburði, t.d. leiki í körfunni.

„Það var samt rosalega gaman að sjá hve margir mættu á Öllaleikinn, það var fullt hús í IceMar-höllinni þrátt fyrir að það væri fullt annað í gangi,“ segir hann. „Vonandi er þetta bara það sem koma skal í úrslitakeppninni.

Það er einmitt eitt það skemmtilegasta sem maður gerir sem fjölmiðlamaður, það er úrslitakeppnin í körfubolta. Maður er svolítið eins og leikmennirnir hvað það varðar, notar deildarkeppnina svolítið til að undirbúa sig fyrir úrslitakeppnina. Manni hlakkar alltaf jafnmikið til úrslitakeppninnar, það er stórviðburður.“

Hvernig spáir þú að þetta fari? Hverjir standa uppi sem Íslandsmeistarar karla og kvenna?

„Ég hef mikla trú á að Keflavík verði Íslandsmeistarar kvennamegin eftir að Siggi Ingimundar og Jón Halldór tóku við liðinu. Þó það hafi tekið langan tíma að ráða einhvern í staðinn fyrir Friðrik þá held ég að það hafi verið mjög farsæl lausn að fá þá tvo inn í þetta og ég held að þeir verði ekki í vandræðum með að fá bæinn með sér.

Karlamegin verður þetta aðeins flóknara. Stjarnan lítur mjög vel út og Tindastóll, Njarðvík og Keflavík. Keflvíkingarnir hafa svolítið verið að dala en það er spurning hvort þeir bæti einhverju við sig áður en glugginn lokast. Mér finnst erfiðara að spá karlamegin en kvennamegin. Ég hef mikla trú á að stelpurnar í Keflavík nái að verja titilinn. Það verður erfitt að spá fyrir úrslitakeppninni karlamegin og það gefur okkur vonandi fleiri leiki og meiri spennu,“ segir Andri fullur tilhlökkunar.

Ertu algjör alæta á íþróttir? Nú þykist ég vita að þú bíður spenntur eftir úrslitaleiknum í ameríska fótboltanum.

„Heldur betur. Ég er t.d. búinn að fylgjast mikið með amerískum íþróttum, ameríska fótboltanum sérstaklega og NBA-deildinni. Núna styttist í hátíðina 9. febrúar þegar Superbowl fer fram, þá er ég alltaf með mitt partí og það á tíu ára afmæli núna í ár. Þannig að það verður heljarinnar veisla, stærsta veislan hingað til og rúmlega það. Það verður eitthvað!

Um íþróttaáhugann hjá mér þá er þetta svolítið boltamiðað. Ég vil helst hafa bolta í íþróttinni, eins og körfubolti, fótbolti, handbolti og amerískur fótbolti. Síðan hef ég farið á þrjá leiki í hafnaboltanum og mér finnst mjög gaman á leikjum í „baseball“-inu og ég mæli hiklaust með því að fólk fari á svoleiðis. Ég skil að það sé svolítið erfiðara að horfa á svona leiki í sjónvarpinu en það að fara á leiki er mjög skemmtilegt og skemmtilegt að segja frá því að einmitt fyrsta Vísisfréttin sem ég skrifaði sem íþróttafréttamaður var um að sonur Jonathan Bow, Kristófer Bow, hafi verið „draftaður“ í nýliðavalinu hjá New York Yankees,“ segir hann og hlær. „Fyrsti Íslendingurinn til að vera valinn í nýliðavalinu og það stóð neðst í fréttinni að þó hann hafi verið tekinn í nýliðavalinu þá væri ansi langur vegur í að hann spilaði í þessari deild.“

Andri segir að þó boltaíþróttir hafi fangað hug hans þá sé hann ekki ennþá kominn í golfið. „Boltaíþróttirnar hafa svolítið fangað minn hug. Samt hef ég sjálfur ekki komist inn í golfið þótt margir í kringum mann, sérstaklega Suðurnesjamenn, séu miklir golfarar þá hef ég einhvern veginn ekki séð tíma í dagskránni til að byrja í golfi.“

Andri í ansi góðum félagsskap.

Þú ert hvað, tuttugu og ...

„Ég er tuttugu og sex ára, fæddur 1998.“

Ertu bara einn, ungur og leikur þér? Hefur allan tímann í heiminum til að fylgjast með íþróttum.

„Já, það má segja það. Maður er einstæður og íþróttir eiga tíma manns allan. Ég vinn fulla vinnu á leikskóla á daginn og síðan nýtir maður tímann eftir fjögur til að fjalla um íþróttir. Maður eyðir í rauninni miklum tíma í vinnu og áhugamálið í leiðinni. Ég skrifa um leiki fyrir Vísir.is og tek viðtöl fyrir Stöð 2 Sport – og hef líka verið að gera innslög fyrir Stöð 2 Sport og þessa þætti sem hafa verið á Stöð 2 Sport, eins og Körfuboltakvöld og Körfuboltakvöld extra. Þar höfum við verið að gera innslög þar sem ég fer á leiki og í þessi körfuboltahús þar sem ég hef fengið að vera svolítið einn og fengið að gera þetta eftir mínu höfði, sem hefur verið mjög gaman. Svo hef ég verið svolítið í hlaðvarpinu með Hjörvari Hafliða og verið með honum líka á YouTube, bæði á laugardögum í „doc zone“ þar sem horft er á leikina í enska boltanum klukkan þrjú. Síðan hef ég verið að taka sambærilegt með heimsmeistaramótið í handbolta þar sem ég hef verið að horfa á leikina og greina þá ásamt góðum hópi. Verið svona „HM zone“ á YouTube-rás.“

Hefur gaman af því að vera ósammála öðrum

Ert þú einn af þeim sem hefur svona límheila? Manst allt um hvern einasta leikmann og þar fram eftir götunum.

„Þetta svona kemur og fer. Þegar maður er í stuði og finnst gaman að þrasa við aðra um íþróttir, svona leiðrétta og vera ósammála öðrum um íþróttir. Það er eitt af áhugamálunum,“ segir Andri og hlær.

„Með því skemmtilegasta sem maður gerir er að finna einhvern til að vera ósammála um íþróttirnar.“

Og hvort er Messi eða Ronaldo meiri geit?

„Ég er Ronaldo-maður. Það hefur farið góður tími í að rökstyðja það.“

Þú hlýtur nú að eiga einhver uppáhaldsfélög fyrst þú ert að fylgjast með íþróttum um allan heim. Ef þú segir mér t.d. í ameríska fótboltanum, hvað er uppáhaldsfélagið þitt þar?

„Ég er algjörlega Boston-maður út í gegn, þannig að í ameríska fótboltanum er það New England Patriots. Ég hef farið á tvo leiki með New England Patriots, náði sem betur fer að sjá leik með Tom Brady áður en hann fór. Hann er auðvitað goðsögn og einn af bestu íþróttamönnum allra tíma.

Ég er mikill Boston Celtics-maður og Keflvíkingarnir í kringum mig hafa svolítið ýtt mér þangað. Það er fyrsta liðið sem maður fór að halda með í Bandaríkjunum og ég fór á fyrsta leikinn minn með Boston Celtics þegar ég var tíu ára, hef farið á átta leiki með þeim eftir það. Ég hef verið duglegur að heimsækja Boston Garden,“ segir Andri en pabbi hans, Eggert Jónsson, og föðurbræður, Aðalgeir og Ingimundur, eru allir Boston Celtics-aðdáendur og Andri eignaðist ungur Boston-treyju. „Maður hlýddi þeim þá ólíkt enska boltanum en þar held ég með Manchester United á meðan þeir eru allir harðir stuðningsmenn Liverpool.“

Góð saga í lokin

„Ég held að ég sé sá eini sem hefur afrekað það í Sláturhúsinu að skora handboltamark og setja niður þriggjastigakörfu í úrslitakeppninni. Sem leikmaður skoraði ég mark þegar við vorum að spila á móti HKR [Handknattleiksfélag Reykjanesbæjar] í Blue-höllinni. Vinum mínum og liðsfélögum var alveg drullusama um að koma til Keflavíkur og spila einhvern handboltaleik en mér fannst þetta alveg geðveikt, þarna var maður búinn að fara á alla þessa körfuboltaleiki og fannst frábært að spila í þessu sögufræga húsi. Enginn í kringum mig tengdi við þessar tilfinningar sem ég var að finna þarna en mér fannst algjör snilld að skora á Sunnubrautinni.

Síðan var það í úrslitakeppninni í körfubolta, á leik Keflavíkur og Álftaness. Þá voru liðin komin inn í klefa, þetta var rétt fyrir leik, og stuðningsmenn Álftaness voru að kalla á mig og biðja mig um að taka þriggjastigaskot – sem ég gerði og setti hann ofan í. Þannig að þarna hef ég sett hann niður fyrir fullu húsi í úrslitakeppninni og skorað í handboltaleik. Það eru ekki margir sem hafa náð þessu,“ sagði Andri að lokum en körfuna góðu sem hann setti niður fyrir stuðningsmenn Álftaness má sjá í spilaranum hér að neðan.