Íþróttir

DansKompaní náði sögulegum árangri á heimsmeistaramótinu
Frá verðlaunaafhendingu á heimsmeistaramótinu í Prag. Mynd af Facebook-síðu Dance World Cup
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
fimmtudaginn 11. júlí 2024 kl. 09:14

DansKompaní náði sögulegum árangri á heimsmeistaramótinu

Team DansKompaní toppar árangur sinn ár eftir ár

Team DansKompaní náði frábærum árangri á heimsmeistaramótinu í dansi, Dance World Cup, sem fram fór í Prag og lauk fyrir nokkrum dögum. Heimsmeistaramótið er stærsta alþjóðlega danskeppnin fyrir börn og ungmenni sem koma alls staðar að úr heiminum og Team DansKompaní skaraði fram úr í keppninni.

Team DansKompaní sankaði að sér átta heimsmeistaratitlum, þrennum silfurverðlaunum og einum bronsverðlaunum. Þar að auki vann Team DansKompaní þrjá galatitla og öll gullverðlaunaatriði skólans tóku þátt í galakeppninni en aðeins stigahæstu heimsmeisturunum er boðin þátttaka. DansKompaní var t.a.m. eini skólinn sem átti sex atriði í keppni í eldri hópnum.

Bílakjarninn
Bílakjarninn

Árlegar taka yfir 120.000 börn og ungmenni þátt í forkeppnum sem eru haldnar í heimalöndum þeirra og reyna að tryggja sér sæti á mótinu.

Keppendur Team DansKompaní töldu um fimmtíu manns á aldrinum átta til 23 ára og voru þau hluti af yfir tvö hundruð keppendum frá Íslandi.

Helga Ásta Ólafsdóttir, skólastjóri DansKompaní, með Emelíu dóttur sinni. VF/JPK

Í næsta tölublaði Víkurfrétta verður viðtal við Helgu Ástu Ólafsdóttur, danshöfund, eiganda og skólastjóra DansKompaní, þar sem hún rekur sögu dansskólans og segir frá þeirri miklu vinnu sem dansarar og aðstandendur þeirra leggja á sig til að ná þessum frábæra árangri.