Sjálfstæðisflokkurinn
Sjálfstæðisflokkurinn

Íþróttir

Elvar samdi við skóla í Brooklyn
Mánudagur 18. nóvember 2013 kl. 23:12

Elvar samdi við skóla í Brooklyn

Fer utan næsta haust

Njarðvíkingurinn Elvar Már Friðriksson er á leið á háskólaboltann í Bandaríkjunum næsta haust. Nú er það orðið ljóst að Elvar mun leika með Long Island University (LIU) skólanum í Brooklyn hverfi New York borgar, en skólinn leikur í efstu deild háskólaboltans. Elvar kom heim í dag eftir heimsókn til Bandaríkjanna og gekk frá samingum við skólann nú fyrir stundu.

Elvar sagðist í samtali við Víkurfréttir vera í skýjunum enda hafi það verið draumur hans lengi að spila í háskólaboltanum vestanhafs. Elvar segir að skólinn hafi verið að leitast eftir leikstjórnanda en sá sem leikur þá stöðu með skólanum fyrir er nú að útskrifast. Sá leikstjórnandi var með flestar stoðsendingar allra í háskólaboltanum í fyrra og Elvar hefur því stóra skó að fylla. „Þeim fannst ég vera svipaður leikmaður og hann. Þeir sáu myndband með mér og buðu mér í raun skólastyrk strax í kjölfarið,“ sagði Elvar en þjálfari annars skóla sem kom til Íslands til þess að fylgjast með Elvari benti Long Island skólanum á Njarðvíkinginn unga.

SSS
SSS

Í skólanum eru 10.000 nemendur og er mikil hefð fyrir körfubolta í skólanum. Síðustu þrjú ár hefur skólinn komist í úrslitakeppni háskólaboltans (March Madness) og mætt þar öflugum liðum á borð við North Carolina og Michigan State.

„Ég er ofsalega ánægður með þetta. Ég tel að þetta eigi eftir að henta mér vel þar sem þeir spila evrópskan körfubolta, sem er mjög hraður. Aðstæðan er líka til fyrirmyndar í skólanum.“

Aðrir skólar voru búnir að vera í myndinni en það gekk ekki alveg upp. Long Island skólinn bauð Elvari fullan skólastyrk eftir að hafa séð svipmyndir frá leik hans hér heima í Domino´s deildinni eins og áður segir. Njarðvíkingurinn og fyrrum New York-búinn Brenton Birmingham var Elvari innan handar en hann aðstoðaði mikið við ferlið. „Þetta er bara atvinnumennska í raun og veru. Íþróttahúsið er opið hvenær sem er ef maður vill æfa.“ Elvar hefur verið þekktur fyrir að æfa vel og mikið. Hann sér þarna tækifæri til þess til þess að koma leik sínum á næsta stig.

„Þetta leggst bara vel í mig og það er spennandi að flytja í þessa stórborg, New York er að heilla mig mikið,“ sagði Elvar.

Elvar mun klára tímabilið með Njarðvíkingum og halda til New York næsta sumar. Hann hefur leikið betur en flestir aðrir í deildinni og virðist vera í feikilega góðu formi.
„Með aukinni reynslu hef ég öðlast meiri yfirvegun og undanfarin tvö ár hafa verið ómetanleg. Ég lagði líka gríðarlega á mig í sumar við æfingar. Það skilar sér líka ásamt reynslunni.“

Elvar er með langtímamarkmið varðandi körfuboltann. „Ég veit hvað ég vil. Ég hafði planað að fara í háskólaboltann í fjögur ár til þess að koma leik mínum á næsta „level“. Draumurinn er svo að vinna við að spila körfubolta. Ég tel að með þessu skrefi þá ætti ég að geta bætt mig mikið.“

 

[email protected]