Til leigu (Skólamatur)
Til leigu (Skólamatur)

Íþróttir

Hólmar Örn og félagar segjast eiga harma að hefna
Hólmar Örn telur þá félaga ekki hafa fengið réttmæta meðferð eftir allt sem þeir gerðu fyrir Keflavík á sínum tíma.
Myndir úr safni Víkurfrétta/myndskeið úr Keflavíkurannálum
Þriðjudagur 24. maí 2022 kl. 00:09

Hólmar Örn og félagar segjast eiga harma að hefna

Víkurfréttir ræddu við Hólmar Örn Rúnarsson, þjálfara Njarðvíkinga og fyrrum leikmann Keflavíkur, en Hólmar Örn er ómyrkur í máli gagnvart stjórn knattspyrnudeildar Keflavíkur og vill meina að framkoma deildarinnar í sinn garð og annarra leikmanna liðsins á sínum tíma hafi verið fyrir neðan allar hellur.

„Það verður bara að segjast eins og er að þáverandi formaður og varaformaður deildarinnar hefðu getað staðið betur að verki þegar kom að starfslokum okkar; mín, Einars Orra [Einarssonar] og Hödda [Harðar Sveinssonar] hjá Keflavík,“ segir Hólmar sem lék á sínum ferli yfir 200 leiki fyrir Keflavík.

„Eftir slakt tímabil var skuldinni skellt á okkur félagana og okkur beinlínis hent í ruslið í orðsins fyllstu merkingu – eftir allt sem við höfðum gert fyrir félagið.“

Keflavík lék í efstu deild árið 2018 og gekk vægast sagt ekki sem skyldi. Liðið hafnaði í neðsta sæti og féll um deild. Vill Hólmar Örn meina að hann, Einar Orri og Hörður hafi verið látnir líta út sem sökudólgarnir og skuldinni hafi verið skellt á þá.

Einar Orri, hér í leik með Keflavík, tekur undir gagnrýni Hólmars.

„Viðskilnaðurinn við Keflavík var sár og maður jafnar sig ekki svo auðveldlega eftir svona spark – en nú er kominn tími til að jafna um sakirnar,“ segir Hólmar Örn og hitnar augljóslega í hamsi. „Við munum gefa okkur alla í leikinn og sjá til þess að Keflavík komist ekki lengra í bikarkeppninni þetta árið. Það verður enginn afsláttur veittur á komandi miðvikudag,“ segir Hólmar Örn í vígaham en hann, Einar Orri Einarsson og Hörður Sveinsson eru allir í Njarðvík í dag. Svipaða sögu er að segja af fyrrum fyrirliða Keflavíkur, Marc McAusland, sem segir að sér hafi verið sýnd lítilsvirðing af hálfu stjórnar deildarinnar eftir að hann lék eitt tímabil í efstu deild með Grindavík.

Marc McAusland er nú fyrirliði Njarðvíkinga.

Hér að neðan má sjá myndskeið þar sem sést berlega sú framkoma sem formaður og varaformaður knattspyrnudeildar Keflavíkur sýndu þeim Hólmari Erni, Einari Orra og Herði Sveinssyni og Hólmar er að vitna í.

Keflavík og Njarðvík mætast í 32 liða úrslitum Mjólkurbikars karla á miðvikudag.