Til leigu (Skólamatur)
Til leigu (Skólamatur)

Íþróttir

Keflavík enn ósigrað
Daniela Wallen fer framhjá af Amanda Okodugha í leiknum í gær. VF-myndir: JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
mánudaginn 24. október 2022 kl. 10:08

Keflavík enn ósigrað

Fyrirfram var búist búið frekar ójöfnum leik þegar Keflavík tók á móti Grindvíkingum í Subway-deild kvenna í gær, Keflavík enn með fullt hús stiga en Grindavík hafði tapað fjórum leikjum í röð. Raunin varð önnur og Grindavík reyndist sýnd veiði en ekki gefin. Leikurinn var hörkuspennandi og það var ekki fyrr en í lokin að Keflavík tókst að sýna mátt sinn og megin og sigla enn einum sigri í höfn, 84:74.
Njarðvíkingar sóttu Hauka heim og höfðu fimm stiga forystu eftir jafnan fyrri hálfleik – hins vegar fór allt í baklás hjá Njarðvík í þriðja leikhluta og má segja að þar hafi þær kastað frá sér öllum vonum um sigur en Haukar unnu leikhlutann 27:8, nítján stiga viðsnúningur sem ekki var hægt að bjarga og lokatölur urðu 79:64.

Keflavík - Grindavík 84:74

(19:17, 20:23, 17:11, 28:23)

Suðurnesjaslagur gærkvöldsins, Keflavík Grindavík, varð að hörkurimmu og fyrri hálfleikur var hnífjafn en gestirnir þó yfirleitt skrefinu á undan. Grindavík leiddi með einu stigi þegar blásið var til loka annars leikhluta (39:40) en með hörku og seiglu sneru Keflvíkingar dæminu við í þriðja leikhluta og höfðu náð fimm stiga forskoti fyrir lokakaflann (56:51). Keflavík gerði svo út um leikinn í fjórða leikhluta og stóð að lokum uppi með tíu stiga sigur (84:74).

Grindavík hefur verið að vaxa í síðustu leikjum en mesti munurinn í gær var breiddin í liðshópunum. Á meðan langmest mæðir á tveimur leikmönnum hjá Grindavík, sérstaklega Danielle Rodriguez sem fékk að hvíla í 24 sekúndur í leiknum, þá keyrði Keflavík á miklu fleiri leikmönnum. Örar skiptingar og að hafa alltaf ferska fætur inn á skipti öllu þegar á heildina var litið og Keflavík kláraði leikinn í fjórða leikhluta, lykilleikmenn Grindvíkinga voru hreinlega búnar á því.

Birna Valgerður Benónýsdóttir lét heldur betur til sín taka undir körfunni fyrir Keflavík í gær en hún var með 24 stig og fjögur fráköst, Daniela Wallen kom næst með 21 stig, sjö fáköst og fimm stolna bolta en hún var framlagshæst Keflvíkinga með 28 framlagspunkta. Hjá Grindavík var Danielle Rodriguez allt í öllu, hún var með 30 framlagspunkta, 25 stig, fimm fráköst og sjö stolna bolta. Elma Dautovic skoraði 22 stig og tók tólf fráköst.

Rodriguez var orðin lúin og svekkt í lokaleikhlutanum þegar Keflavík sigldi fram úr Grindavík.

Keflavík: Birna Valgerður Benónýsdóttir 24/4 fráköst, Daniela Wallen Morillo 21/7 fráköst/5 stolnir, Anna Ingunn Svansdóttir 12, Anna Lára Vignisdóttir 7, Agnes María Svansdóttir 5, Katla Rún Garðarsdóttir 5, Karina Denislavova Konstantinova 5/4 fráköst/7 stoðsendingar/5 stolnir, Ólöf Rún Óladóttir 4/4 fráköst, Hjördís Lilja Traustadóttir 1, Ásthildur Eva H. Olsen 0, Gígja Guðjónsdóttir 0, Eygló Kristín Óskarsdóttir 0.
Grindavík: Danielle Victoria Rodriguez 25/5 fráköst/7 stolnir, Elma Dautovic 22/12 fráköst, Amanda Akalu Iluabeshan Okodugha 9/7 fráköst, Thea Ólafía Lucic Jónsdóttir 7, Hulda Björk Ólafsdóttir 6, Hekla Eik Nökkvadóttir 5/4 fráköst, Ólöf María Bergvinsdóttir 0, Helga Rut Hallgrímsdóttir 0, Aþena Þórdís Ásgeirsdóttir 0, Edda Geirdal 0, Hjörtfrídur Óðinsdóttir 0, Elsa Katrín Eiríksdóttir 0.

Nánar um leikinn

Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, var í Blue-höllinni í gær og má sjá fleiri myndir frá leiknum í myndasafni neðst á síðunni.


Haukar - Njarðvík 79:64

(15:19, 15:16, 27:8, 22:21)
Aliyah Collier var með 26 stig, átján fráköst og sex stoðsendingar. Hún var með 38 framlagspunkta en það dugði ekki til.

Það er ekki margt hægt að segja um frammistöðu Njarðvíkinga í leiknum gegn Haukum í gær en þær byrjuðu leikinn af krafti og náðu mest tólf stiga forskoti í fyrsta leikhluta. Leikurinn jafnaðist út og um miðjan annan leikhluta var staðan 26:26 en Njarðvík náði með góðu áhlaupi að fara inn í hálfleikinn með fimm stig í farteskinu (30:35).

Þriðji leikhluti varð hins vegar að hreinustu martröð fyrir þær grænklæddu, Haukakonur mættu með offorsi og hreinlega völtuðu yfir Njarðvíkinga. Haukar skoruðu tólf fyrstu stigin og voru skyndilega komnar með sjö stiga forskot sem átti eftir að aukast því þegar þriðja leikhluta lauk var staðan orðin 57:43 – nítján stiga viðsnúningur og Haukar með fjórtán stiga forskot fyrir lokaleikhlutann.

Njarðvík: Aliyah A'taeya Collier 26/18 fráköst/6 stoðsendingar, Raquel De Lima Viegas Laneiro 16/5 fráköst/8 stoðsendingar, Erna Hákonardóttir 5/5 stolnir, Anna Lilja Ásgeirsdóttir 5, Kamilla Sól Viktorsdóttir 5, Krista Gló Magnúsdóttir 4, Lovísa Bylgja Sverrisdóttir 3, Þuríður Birna Björnsdóttir Debes 0, Dzana Crnac 0, Andrea Dögg Einarsdóttir 0, Bríet Sif Hinriksdóttir 0/5 fráköst, Ása Böðvarsdóttir-Taylor 0.

Nánar um leikinn

Keflavík - Grindavík | Subway-deild kvenna 23. október 2022