Harpixið dugði Einari gegn trommuleikaranum
Svo bregðast krosstré sem önnur, það hlaut að koma að því að einhverjum tækist að hægja á trommutakti Jóhanns D Bianco. Einar Skaftason heitir hetjan, hann vann 9-8 og ef eitthvað er að marka orð Joey í síðasta pistli, getur Einar átt von á ilmandi president snuff-dós. Ákveðið var að yngja aðeins upp í áskorendahópnum og mun Jón Ragnar Magnússon næstur mæta á vettvang. Hann svaraði kalli Víkurfrétta þar sem auglýst var eftir áhugasömum tippurum.
Jón Ragnar er hálfur Grindvíkingur og hinn helmingurinn er grænn, hann ólst upp og hefur alla sína hunds- og kattartíð búið í Njarðvíkurhluta Reykjanesbæjar.
„Ég æfði körfubolta upp að sautján ára aldri en minna fór fyrir hæfileikunum inni á knattspyrnuvellinum en ég æfði þó eitthvað. Ég ætlaði mér frama í körfubolta, gerði ráð fyrir að fá hæð föður míns en hann er um tveir metrar á hæð eins og bróðir minn en ég stækkaði ekkert eftir fermingu, fékk í staðinn hæð móður minnar. Áhuginn minnkaði, hugsanlega vegna aukins fjölda atvinnumanna en ég gerði einmitt rannsókn þegar ég nam fjölmiðlafræði í Háskóla Íslands. Hún fjallaði um áhrif erlendra atvinnumanna í íslenskum körfuknattleik. Ég er smeykur við þessa þróun ef ég á að segja alveg eins og er.
Ég hafði áhuga á fjölmiðlafræði, skrifaði meira að segja einhverjar greinar fyrir Víkurfréttir á námsárunum en svo réði ég mig í kennslu upp í Ásbrú, var svo beðinn um að koma að félagsmiðstöðinni þar en í dag er það 100% starf og ég forstöðumaður Brúarinnar, sem er félagsmiðstöðin uppi á Ásbrú. Mig grunar að svona félagsmiðstöðvum muni fjölga hér í Reykjanesbæ, það yrði mikið heillaspor fyrir ungmennin okkar að mínu mati.
Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á enska boltanum og er pabba innilega þakklátur fyrir að láta mig sjá ljósið árið 2005 þegar ég var fimm ára og hans menn í Liverpool unnu Meistaradeildina. Ég var í Guðjohnsen Chelsea-treyju og pabbi reif mig úr henni og setti mig í rauða Liverpool-búninginn og í honum hef ég nánast verið síðan þá.
Um leið og ég hafði aldur til stofnaði ég reikning á Bet365 og hef verið nokkuð duglegur þar og gengið vel en er með það á smá ís í bili og ákvað í staðinn að skella mér í tippleik Víkurfrétta. Ég sé fyrir mér frábæra ferð þegar við Grindvíkingarnir mætum á Wembley og sjáum mína menn í Liverpool og þína í Manchester United, bítast um þennan elsta bikar í heimsfótboltanum. Ég er til í auka-bet við þig þá,“ sagði Jón Ragnar við blaðamann VF.
Eftir bókinni
Einari komu úrslitin í leik sínum á móti Joey Drummer ekki á óvart.
„Þetta var eftir bókinni, Joey var orðinn full glaður í sínum yfirlýsingum og því kominn tími til að slökkva í honum eins og vindli. Hann getur samt vel við unað, hann hélt velli fimm sinnum og ég ætla mér að vera svipað lengi en alla vega mun ég ekki slaka á fyrr en ég hef hirt af honum toppsætið í heildarleiknum,“ segir Einar.