Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Keflavík kjöldró topplið Tindastóls
Ty-Shon Alexander setti skotsýningu á svið í kvöld í Blue-höllinni.
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
föstudaginn 6. desember 2024 kl. 22:16

Keflavík kjöldró topplið Tindastóls

Keflvíkingar tóku á móti toppliði Tindastóls í níundu umferð Bónusdeildar karla í kvöld í Blue-höllinni. Keflvíkingar kjöldrógu Stólana og settu á svið skotsýningu sem líklega verður seint toppuð, lokatölur 120-93 eftir að staðan í hálfleik hafði verið 59-50.

Þessi lið stefna ávallt í hæstu hæðir og eru þannig upp sett. Keflvíkingar hafa aðeins verið að ströggla á þessu tímabili, gerðu breytingar á Bandaríkjamanni sínum og hafa auk þess bætt við finnskum landsliðsmiðherja. Eftir tap á móti nýliðum KR í fyrstu umferð og eftir að hafa verið sautján stigum undir í næsta leik á móti hinum nýliðunum, ÍR, hafa Stólarnir heldur betur snúið blaðinu við og hafa unnið alla leiki sína eftir tapið gegn KR.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Benedikt Guðmundsson sem þjálfaði lið Njarðvíkur í fyrra, tók við stjórnartaumunum í Skagafirðinum en hann var ekki sáttur við dómarana í síðasta leik á móti Álftanesi og uppskar tvær tæknivillur sem þýddi veru uppi í stúku í Blue-höllinni í kvöld. Pétur Ingvarsson er á sínu öðru tímabili með Keflavík.

Í lið Keflvíkinga vantaði báða syni Péturs, Hilmar fór nýverið í liðþófaaðgerð og verður frá fram til áramóta og bróðir hans, Sigurður kom ekkert við sögu þrátt fyrir að vera í búning, hann vildi kanna stöðuna en ákveðið að hvíla hann. Hjá Tindastóli er Pétur Birgisson meiddur og þeir misstu Frakkann Sadio Doucoure út af meiddan í fyrsta leikhluta.

Leikurinn átti að hefjast kl. 19:30 en hófst ekki fyrr en tæpum klukkutíma of seint þar sem leikklukkan neitaði að fara í gang. Til að bæta gráu ofan á svart neyddust dómararnir til að skoða atvik eftir tæpa mínútu þar sem Adomas Drungilas sveiflaði olnboga sínum full frjálslega og var dæmd ásetningsvilla í kjölfarið. Þetta stefndi í langt kvöld fyrir alla, ekki síst Stólana þar sem Keflvíkingar voru fljótari upp úr blokkunum og voru vel heitir fyrir utan þriggja stiga línuna. Staðan eftir fyrsta fjórðung, 28-20.

Keflvíkingar voru áfram sterkari í byrjun annars leikhluta og voru áfram heitir fyrir utan þriggja stiga línuna, voru að skjóta 50% þannig og Ty-Shon Alexander setti t.d. tvo glæsilega og var á þeim tímapunkti með ¾ í þriggja stiga skotum. Munurinn rokkaði frá 8-12 stigum og var staðan í hálfleik 59-50.

Stigaskor Keflvíkinga dreifðist nokkuð jafnt, þrír komnir yfir tíu stigin, m.a. nýi Finninn sem leit mjög vel út, hann var kominn með 11 stig og fráköst eftir að hafa komið inn af bekknum. Hjá Tindastóli var Sigtryggur Arnar Björnsson atkvæðamestur, sjóðandi heitur fyrir utan þriggja stiga línuna og var kominn með 14 stig í hálfleik, með 4/8 í þriggja stiga. Dedrick Basile var kominn með 10 stig og 6 stoðsendingar.

Keflvíkingar eru með mjög marga leikmenn sem geta ógnað fyrir utan þriggja stiga línuna og voru fimm leikmenn búnir að setja einn þrist eða fleiri eftir rúmar fjórar mínútur í seinni hálfleik. Þegar munurinn var kominn upp í 18 stig tóku Stólarnir leikhlé en þá var Igor Maric búinn að setja tvo þrista í röð og búinn að nýta öll þrjú skotin sín fyrir utan þriggja stiga línuna. Nýting Keflvíkinga á þessum tímapunkti var 52%! Keflvíkingar bættu bara í og það var dæmigert fyrir leikinn að Ty-Shon setti flautuþrist í lok leikhlutans, bolti sem skrúfaðist ofan í en þá var kappinn kominn með 24 stig og búinn að hitta úr 6/8 fyrir utan þriggja stiga línuna! Staðan 91-69 fyrir lokaleikhlutann.

Það var ljóst að Stólarnir þyrftu flugstart í fjórða leikhuta en Keflavík byrjaði með boltann og títtnefndur Ty-Shon keyrði upp að körfu, skoraði og brotið á honum, vítið sömuleiðis niður og munurinn kominn upp í 25 stig og leikurinn í raun búinn. Flugeldasýningin hélt áfram fyrir utan þriggja stiga línuna og var síðasti þristur Ty-Shon nær miðlínu en þriggja stiga línunni, kappinn þá kominn með 33 stig og settist á bekkinn en leikurinn búinn, staðan 105-75 og Stólarnir tóku leikhlé. Minni spámenn týndust inn á völlinn og luku leiknum, sem endaði 120-93.

Það hallar ekki á neinn í frábæru Keflavíkurliði sem endaði með 54% þriggja stiga nýtingu, ef Ty-Shon Alexander, er tekinn út fyrir sviga. Kappinn hitti úr 8/10 þriggja stiga skotum sínum, skoraði 33 stig, tók 7 fráköst og gaf 4 stoðsendingar, 40 framlagspunktar! Remu Emil Raitanen skoraði 20 stig og tók 8 fráköst, hörku leikmaður þarna á ferðinni. Einfalt mál, allir leikmenn Keflavíkur skiluðu sínu og vel það.

Tindastólsmenn vilja eflaust gleyma þessum leik sem fyrst og eins gott að þeir geri það því næsti leikur er líka á móti Keflavík, í 16-liða úrslitum VÍS bikarins á mánudagskvöld.


Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, var á leiknum og tók meðfylgjandi myndir sem má sjá í myndasafni neðst á síðunni.

Magnús Gunnarsson, aðstoðarþjálfari Keflavíkur: Halldór Garðar Hermannsson, fyrirliði Tindastóls.

Keflavík - Tindastóll (120:94) | Bónusdeild karla 6. desember 2024