Íþróttir

Njarðvík vann „El clasico“
Rúnar Ingi, þjálfari Njarðvíkur, var kátur í leikslok
Fimmtudagur 16. janúar 2025 kl. 22:30

Njarðvík vann „El clasico“

Ef ekki hefði verið fyrir mínustölu á hitamælinum og myrkur hefði mátt halda að vorboðinn ljúfi, úrslitakeppnin, hefði verður mættur í Icemar-Höll Njarðvíkinga í kvöld en þá mættust nágrannarnir úr Reykjanesbæ, Njarðvík og Keflavík í Bónusdeild karla.
Njarðvíkingar unnu tiltölulega öruggan sigur en leikurinn var í járnum fram í miðjan fjórða leikhluta þegar heimamönnum tókst að slíta sig frá grönnum sínum, lokatölur 107-96, eftir að staðan í hálfleik hafði verið 54-54.

Ef að byrjun leiksins átti að gefa fyrirheit um hvað var í vændum, var ljóst að hjartaveikir þyrftu að fá sér hjartastyrkjandi, stemningin algerlega rafmögnuð í þéttsetinni glæsilegri Icemar-Höllinni. Njarðvíkingar aðeins á undan til að byrja með en Keflvíkingar fljótir að koma til baka og eftir rúmar fimm mínútur tók Rúnar Ingi, þjálfari Njarðvíkur, leikhlé og staðan 14-14. Það virkaði betur á gestina, þrír þristar frá Keflavík, frá Ty-Shon, Remi og Jarrel, Njarðvíkingar á sama tíma í mestu vandræðum með að finna körfuna. Stíflan brást loksins þegar Khalil setti þrist og brotið á honum og annar fylgdi svo í kjölfarið en Njarðvíkingar voru ekki nógu vel vakandi í fráköstunum, tvisvar hirtu Keflvíkingar frákastið og skoruðu í kjölfarið. Staðan eftir frábæran opnunarfjórðung, 23-29. Even „Krummi“ (Raven) Ganapamo var sjóðandi heitur fyrir heimamenn, kominn með 12 stig og Khalil Shabazz sömuleiðis heitur, kominn 9 stig. Hjá Keflvíkingum var stigaskorið dreifðara, Jaka Brodnik með 9 stig tveir með 6 stig, einn með 5 og einn með 3 stig.

Eftir að Jaka Brodnik opnaði annan leikhlutann með þristi var sviðið Njarðvíkinga, næstu körfur voru þeirra og allt í einu var leikurinn orðinn jafn aftur og panta þurfti aukaskammt af hjartastyrkjandi! Liðin skiptust á litlum áhlaupum þar til leikhlé var tekið en eftir komu Keflvíkingar grimmari og allt í einu var munurinn kominn upp í 9 stig, 42-51. Njarðvíkingar værukærir í sóknaraðgerðum sínum á þessum tímapunkti en öll él stytta upp um síðir, Hrafninn setti þrist og annar fylgdi í kjölfarið frá Milka, sá þriðji frá Hrafninum og leikurinn allt í einu orðinn jafn og þannig gengu liðin til búningsherbergja, 54-54, þvílíkur leikur í gangi! Títtnefndur Hrafn Ganapamo, algerlega óstöðvandi og kominn með 25 stig í hálfleik! Khalil kominn með 11, aðrir minna. Hjá Keflavík var áfram mun dreifðara, Jaka með 12 stig, Ty-Shon og Remi með 10, Jarrel og Sigurður Péturs með 8 og Igor með 6 stig.

Jafnt fram í fjórða

Áfram héldust liðin hönd í hönd í byrjun seinni hálfleiks, Njarðvíkingar hænuskrefi á undan en Keflvíkinga rkomust svo yfir þegar rúmar fjórar mínútur lifðu þriðja leikhluta, 70-71, tveggja stiga karfa bættist við en Khalil jafnaði með þristi, alerlega magnaður leikur í gangi! Njarðvíkingar settu svo í næsta gír og áttu betri lokasprett úr þriðja leikhlutann og leiddu að honum loknum, 82-76. Evans Ganapamo var við sama heygarðshornið, var kominn með 34 stig! Khalil með 19 og enginn annar kominn í tveggja stafa tölu, á meðan fjórir Keflvíkingar voru komnir þangað, einn með 9 og einn með 8, skiptu keflvísku stigunum á milli sín.

Liðin skiptust á körfum fyrstu tvær mínúturnar en í stað þess að leikar jöfnuðust aftur eins og saga leiksins hafði verið, bættu Njarðvíkingar við og áður en varði var munurinn kominn upp í 11 stig, Siggi Péturs lá í gólfinu eftir að hans mati, hrindingu frá Milka, kvartaði sáran og uppskar tæknivillu og pabbi hans fylgdi syni sínum með annarri og Njarðvíkingar með tvö tæknivíti! Þeir nýttu aðeins annað og Ty-Shon svaraði með þristi, ljóst að þessi leikur var hvergi nærri búinn og hann átti svo aðra körfu. Augnablikið virtist ætla snúast með Keflvíkingum en allt í einu hættu skot Ty-Shon að detta og Njarðvíkingar voru fljótir að nýta sér það með hröðum körfum og án þess að hægt væri að depla auga, var munurinn kominn í 15 stig, 102-87 og 3:35 eftir þegar Pétur þjálfari tók leikhlé. Nauðsynlegar heilladísir ákváðu hins vegar að mæta ekki á band Keflvíkinga og þeir ógnuðu öruggum sigri Njarðvíkinga ekki teljandi og lokatölur 107-98.

Það er ekki á neinn hallað ef Evans Raven Ganapamo, Hrafninn, fái nafnbótina „Maður leiksins!“ Þvílík hittni hefur ekki sést í langan tíma, hann setti 8/12 í þristum og sama í tvistum, 44 stig! Khalil Shabazz sömuleiðis mjög góður og endaði með 28 stig. Kannski athyglisvert að enginn annar Njarðvíkingur braut 10 stiga múrinn en hverjum er ekki sama á meðan W mætir í töfluna.

Keflvíkingar voru jafn góðir og Njarðvík í rúma þrjá leikhluta en kannski hertu þeir ekki vörnina eins og heimamenn síðustu mínúturnar og þar lá munurinn. Stigaskor þeirra dreifðist betur en heimamanna en aftur, þeir hefðu væntanlega fórnað því fyrir W. Ty-Shon var stigahæstur með 22 stig, Sigurður Pétursson og Jaka Brodnik með 18, Remu Raitanen með 15, Jarrel Reischell með 13 og Igor Maric með 12 stig.

Bikarinn næstur hjá þessum liðum, Njarðvíkingar fara í vesturbæ Reykjavíkur og mæta KR og Keflvíkingar mæta fyrrum þjálfara kvennaliðs síns, Friðriki Inga Rúnarssyni og lærisveinum hans í Haukum á heimavelli sínum á Sunnubrautinni.

Rúnar Ingi Erlingsson, þjálfari Njarðvíkur: Mario Matusovic, fyrirliði Njarðvíkur: Pétur Ingvarsson, þjálfari Keflavíkur: Halldór Hermann Garðarsson, fyrirliði Keflavíkur: