Íþróttir

Pálmi skrifar undir atvinnumannasamning hjá Úlfunum
Njarðvíkingurinn er í markinu hjá hinu þekkta liði Wolves í Englandi.
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
fimmtudaginn 3. desember 2020 kl. 16:54

Pálmi skrifar undir atvinnumannasamning hjá Úlfunum

Pálmi Rafn Arnbjörnsson hefur skrifað undir atvinnumannasamning við efstu deildarlið Úlfanna í Englandi. Hann fór til liðsins rétt áður en hann varð 16 ára haustið 2019 og hefur æft og keppt með yngri liðum liðsins. Ekki er hægt að skrifa undir atvinnumannasamning við leikmenn fyrr en þeir verða 17 ára en það hefur nú verið gert en Pálmi varð 17 ára í lok nóvember.

„Þetta er bara gaman hérna úti. Ég spilaði í síðasta leik gegn Middlesbrough þar sem við unnum 2:1. Ég hef misst af nokkrum leikjum vegna meiðsla en er orðinn góður,“ sagði Pálmi þegar VF hafði samband við hann. 

Forráðamenn Úlfanna segjast hafa vitað af hæfileikum Pálma Rafns og þótt hann hafi þurft að glíma við meiðsli um tíma hafi hann komið sterkari eftir þau. „Honum gekk mjög vel í upphafi og stóð sig vel en vegna meiðsla fékk hann samkeppni frá öðrum markverði um baráttuna um markvarðastöðuna. Það gerði þeim báðum gott. Pálmi þarf að halda áfram á sinni vegferð til að tryggja sér fyrsta val í markinu en samkeppnin er góð. Við erum mjög ánægðir með framfarir Íslendingsins og vonandi verður samningurinn til að hjálpa honum til að verða betri,“ segir á heimsíðu liðsins.

Víkurfréttir ræddu við Pálma fyrr í haust þar  sem hann segist stefna hátt í markinu hjá þessu fornfræga félagi. Pálmi gerði samning við Úlfana í lok nóvember 2019, þá aðeins fimmtán ára gamall og hefur nú í haust æft með átján ára liði félagsins. 

Pálmi Rafn hafði fyrir utanferð til Úlfanna stundað knattspyrnu hjá Njarðvík frá því hann var ungur strákur og hefur síðustu ár verið valinn í yngri landslið Íslands, hann á að baki ellefu landsleiki með yngri landsliðum Íslands. Hann hefur mest æft með U18 liðinu en fljótlega eftir að hann kom æfði hann líka með U16 og keppti með því. Í spjalli við Pálma snemma á þessu ári sagðist hann hafa fengið að fara á nokkrar æfingar með U23 og það væri skemmtilegt því þar væru leikmenn sem æfðu og kepptu með úrvalsdeildarliði Wolves.

Wolves er stór klúbbur og liðinu hefur gengið vel í efstu deild síðustu tvö árin og stóri draumurinn segir Pálmi að komast í úrvalsdeildarliðið hjá þeim. Einnig vil ég halda áfram að vera valinn í landsliðshópa og komast í A-landsliðið,“ sagði Pálmi Rafn sem þakkar mest markvarðaþjálfara sínum, Sævari Júlíussyni, fyrir að hafa haft trú á sér. 

Pálmi hefur dvalið í Wolves með móður sinni í Wolverhamton og stundað samhliða knattspyrnunni nám. Hann sagðist koma heim til Íslands í stutt frí fyrir jólin og hlakkaði til.