HS Orka
HS Orka

Íþróttir

Suðurnesjaliðunum gengur misvel að fóta sig á knattspyrnuvöllunum
Stefán Ljubicic skoraði mark Keflavíkur úr víti þegar liðið tapaði stórt fyrir Fram í gær. Mynd úr safni Víkurfrétta/JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
laugardaginn 3. júní 2023 kl. 12:17

Suðurnesjaliðunum gengur misvel að fóta sig á knattspyrnuvöllunum

Nokkur knattspyrnulið af Suðurnesjum léku í gær og má segja að þeim hafi vegnað misvel. Vandræði Keflvíkinga halda áfram í Bestu deild karla en þeir verma nú botnsæti deildarinnar eftir stórt tap fyrir Fram. Grindvíkingar töpuðu óvænt fyrir KR sem hafði tapað öllum sínum leikjum í Lengjudeild kvenna. Þróttur vann þriðja leikinn í röð þegar þeir tóku á móti toppliði ÍR í 2. deild og í 3. deild töpuðu Víðismenn sínum fyrsta leik á tímabilinu á meðan Reynismenn unnu.

Fram - Keflavík 4:1

Leikur Fram og Keflavíkur var bragðdaufur framan af og fátt markvert gerðist í fyrri hálfleik að undanskildu einu veigamiklu atriði. Það var þegar Framarinn Frederico Bello Saraiva átti þvílíka þrumuskotið sem small í samskeytunum og koma heimamönnum yfir í uppbótartíma fyrri hálfleiks (45'+1). Stórkostlegt mark sem átti eftir að virka sem vítamínsprauta á leik Framara.

Bílakjarninn
Bílakjarninn

Seinni hálfleikur var algerlega eign Framara og Keflvíkingar máttu sín lítils gegn leikgleði þeirra. Aron Jóhannsson tvöfaldaði forystuna með marki á 57. mínútu en Keflvíkingar fengu líflínu þegar brotið var á Sindra Þór Guðmundssyni á 70. mínútu og vítaspyrna dæmd. Stefán Ljubicic fór á vítapunktinn og skoraði af öryggi, staðan orðin 2:1.

Heimamenn svöruðu þessu með tveimur mörkum til viðbótar (83' og 90') og gerðu þar með út um leikinn og sendu Keflavík á botninn.


KR - Grindavík 2:1

Grindavík mátti þola tap í Vesturbænum þegar KR-ingar unnu sinn fyrsta leik í Lengjudeild kvenna á tímabilinu. KR komst yfir snemma í leiknum (6') og leiddu með einu marki í hálfleik.

KR skoraði annað mark á 56. mínútu en Grindvíkingar minnkuðu muninn skömmu síðar (63') með marki frá Arianna Lynn Veland.

Grindavík er um miðja deild, í sjötta sæti með fimm stig eins og Afturelding sem er í því fimmta.


Þróttur - ÍR 3:0

Þróttarar jöfnuðu topplið ÍR að stigum með frábærum sigri á Vogaídýfuvellinum í 2. deild karla í gær. Það leit út fyrir að fyrri hálfleikur ætlaði að vera markalaus en Guðni Sigþórsson kom heimamönnum yfir rétt áður en flautað var til hálfleiks (45'+4).

Kári Sigfússon kom Þrótti í 2:0 með marki á 62. mínútu og fyrirliðinn, Adam Árni Róbertsson, rak svo endahnútinn á góðan sigur heimamanna með þriðja markinu tólf mínútum fyrir leikslok (78').

Þróttur og ÍR er jöfn að stigum í efstu sætum deildarinnar en markatala ÍR er töluvert betri en Þróttar.


Árbær - Víðir 3:2

Efsta lið 3. deildar, Víðir, þurfti að þola sitt fyrsta tap á tímabilinu í gær þegar Árbæingar höfðu sigur á Víðismönnum.

Víðismenn komu tvisvar til baka eftir að Árbær náði forystu en þriðja mark Árbæinga rak síðasta naglann í kistu Víðis.

Árbær náði forystu á 10. mínútu en Jordan Chase Tyler skoraði svo sjálfsmark á þeirri 27. Tyler svaraði fyrir það með marki á 60. mínútu en Jón Gunnar Sæmundsson jafnaði á nýjan leik fyrir Víði (72').

Það gekk svo heilmikið á í uppbótartíma, Árbæingar misstu mann af velli með rautt spjald (90'+1) en Víðismenn fengu svo þriðja markið á sig mínútu síðar (90'+2). Þar við sat og fyrsta tapið staðreynd.


Reynir - Elliði 4:1

Reynismenn komust í þriðja sæti 3. deildar með góðum sigri á Elliða.

Julio Cesar Fernandes kom Reyni yfir á 14. mínútu en gestirnir jöfnuðu stundarfjórðungi síðar (29'). Benedikt Jónsson, fyrirliði Reynismanna, náði forystunnni á nýjan leik rétt fyrir hálfleik (40').

Strahinja Pajic skoraði þriðja mark Reynis 857') og í uppbótartíma setti Elfar Máni Bragason boltann í fjórða sinn í mark Elliða (90'+3).

Reynismenn eru með tíu stig í þriðja sæti en Víðir vermir toppinn með tólf stig.