Þróttur í 2. deild eftir glæstan sigur á Reyni
Þróttur í Vogum vann sannfærandi sigur á Reyni Sandgerði á Vogabæjarvellinum í Vogum í dag. Með sigrinum tryggði Þróttur sér sæti í 2. deild að ári og fengu afhent silfurverðlaun Knattspyrnusambands Íslands í leikslok. Reynismenn eru hins vegar fallnir úr þriðju deildinni.
Þróttur vann leikinn gegn Reyni með fimm mörkum gegn engu. Markaskorarar Þróttar voru þeir Marteinn Pétur Urbancic með mark á 4. mínútu, Shane Haleymeð mark á 11. mínútu, Garðar Benediktsson með mark á 72. mínútu, Tómas Ingi Urbancic með mark á 88. mínútu og Anton Ingi Sigurðarson með mark á 90. mínútu leiksins.
Mikið var fagnað í leikslok, flugeldum skotið á loft og sungið hástöfum, enda Þróttur Vogum að ná sínum besta árangri og tryggja sér sæti í 2. deild að ári. Þar munu þeir mæta Víði úr Garði en vonir Víðismanna um hreinan úrslitaleik gegn Magna frá Grenivík urðu að engu í dag. Magni tapaði viðureign sinni gegn Vestra í dag en með sigri Víðis á Aftureldingu hefðu Víðir og Magni keppt um sæti í Inkasso-deildinni um næstu helgi. Víðismenn töpuðu hins vegar stórt, 5-1 gegn Aftureldingu og sitja sem fastast í 2. deildinni.
Garðar Benediktsson með glæsilegt mark á 72. mínútu fyrir Þrótt. Boltinn small í stönginni rétt neðan við samskeytin og fór þaðan í markið. VF-myndir: Hilmar Bragi
Þróttur Vogum hafði ástæðu til að fagna í dag. Sæti í 2. deild að ári er staðreynd.