Max 1
Max 1

Íþróttir

Við þurfum starfið nær iðkendum
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
mánudaginn 21. október 2024 kl. 09:49

Við þurfum starfið nær iðkendum

– segir Hámundur Örn Helgason, framkvæmdastjóri Ungmennafélagsins Njarðvíkur. Það hefur nú gerst með nýju og glæsilegu íþróttahúsi þeirra Njarðvíkinga sem var formlega tekið í notkun um síðustu helgi. Víkurfréttir hittu Hámund í IceMar-höllinni og spjölluðu við hann um breytingarnar.

Hámundur, nú erum við staddir hérna í þessu glæsilega mannvirki, nýja íþróttahúsi Njarðvíkinga. Hvernig finnst þér þetta koma út?

„Bara langt umfram vonir, ef ég á að vera alveg hreinskilinn,“ segir Hámundur. „Þetta mannvirki er mjög vel heppnað, nær einhvern veginn að halda sögunni og er smá gryfja, sem kom flestum á óvart – þannig að þetta er bara glæsilegt.“

Bílakjarninn
Bílakjarninn

Það var rífandi stemmning á fyrsta heimaleik Njarðvíkinga í Bónusdeild karla um þarsíðustu helgi og Hámundur segir að hamborgararnir hafi verið fljótir að seljast upp og unglingaráð hafi klárað allt sælgæti í sjoppunni. Hann vonar eðlilega að þetta sé það sem koma skal.

Og hverjar eru væntingar ykkar Njarðvíkinga með framhaldið, varðandi uppbyggingastarf og annað?

„Ég hef alltaf talað um það að við þurfum starfið nær iðkendum. Náttúrulega eru frístundabíll og annað sem hjálpar rosalega til en við erum orðinn mjög langur bær – og þetta hverfi er bara nýr markhópur. Bæði áhorfendur á leiki og svo iðkendur fyrst og fremst.“

IceMar-höllin opnuð á áttatíu ára afmælisári UMFN

Njarðvík er áttatíu ára í ár og þó afhending íþróttahússins hafi dregist þá má segja að það sé skemmtileg tímasetning að taka það í notkun á afmælisárinu.

„Já, ekki spurning. Það stóð alltaf til að halda afmælishátíð hérna þegar við vissum að þetta yrði á þessu ári, auðvitað hefði verið frábært ef það hefði verið nær afmælisdeginum.“

Þið gáfuð út sérstakt afmælismerki, útfærslu á merki Njarðvíkur. Hvernig hafa viðbrögð verið við þessu nýja merki?

„Þau hafa verið fjölbreytt, það er alveg óhætt að segja það – en ekkert sem kemur á óvart. Þetta er náttúrulega nær fólki. Sama er með litinn, það er enginn sammála um hver hinn rétti Njarðvíkurgræni er. Það skiptir bara máli hvenær þú ert fæddur og hversu lengi þú hefur búið hérna. Ég myndi samt segja að viðtökurnar hafi verið betri en ég bjóst við.“

Það eru náttúrulega miklar tilfinningar sem spila inn í þegar svona merki um ræðir.

„Það er bara svoleiðis og íslensk félög eru lítið í að breyta merkjunum mikið. Merki sem hefur breyst lítið í gegnum tíðina tekur kannski stærra stökk þegar loksins er farið í þá vinnu,“ segir Hámundur en lengri útgáfa viðtalsins má sjá í spilaranum hér að neðan.