Mannlíf

„Eitís“ stemmningin í aðalhlutverki í næsta Bliki- Manstu eftir Eydísi
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
miðvikudaginn 14. ágúst 2019 kl. 10:43

„Eitís“ stemmningin í aðalhlutverki í næsta Bliki- Manstu eftir Eydísi

Miðasala er í fullum gangi á hátíðarsýningu Ljósanætur, Manstu eftir Eydísi sem er níunda sýning Með blik í auga en að þessu sinni fara sýningar fram í Hljómahöll.

Að þessu sinni er eitís stemmningin í aðalhlutverki og boðið verður í tímaferðalag aftur á bak til áranna þegar Eydís var ung. Að sögn skipuleggjenda geta tónleikagestir átt von á því að heyra tónlist með Duran Duran, Wham, Simple minds, Bruce Springsteen og Blondie svo ekki sé minnst á ballöður foreignar.

Æfingar með hljómsveit eru hafnar og fljótlega bætast söngvarar sýningarinnar við, þau Jón Jósep, Jogvan, Jóhanna Guðrún og Hera Björk.

Kristján Jóhannsson kynnir og einn skipuleggjanda sýningarinnar hvetur fólk til þess að tryggja sér miða í tíma því færri miðar séu í boði. „Hljómahöllin tekur færri í sæti og þótt við munum nýta salinn vel komast færri að en í Andrews theatre þar sem við höfum verið undanfarin ár. Þannig að til að fyrirbyggja vonbrigði hvetjum við fólk til þess að festa sér miða fyrr en seinna. Því hver vill missa af þessari tónlistarveislu?" 
En hver er þessi Eydís?
„Manstu ekki eftir Eydísi? Hún færði þér Hensongalla og Don Cano! Tab og Sinalco. Allar frábæru bíómyndirnar og kvikmyndastjörnur eins og Stallone, Svartsennaggerinn, Michel J. Fox, Molly Ringvald og Demi Moore. Þetta verður sannkölluð nostalgía eitis tónlistarinnar þegar stelpur voru með vængi og túberaða toppa og strákarnir með strípur og möllet.“
Hægt er að nálgast miða á sýninguna á hljomaholl.is og tix.is.