„Skemmtilegur afmælisdagur hjá drengnum“
Fyrsta barn ársins fæddist á þrettándanum
Fyrsta barn ársins á Suðurnesjum fæddist á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja á þrettándanum, 6. janúar. „Þetta verður skemmtilegur afmælisdagur hjá drengnum í framtíðinni,“ sögðu ungu foreldrarnir, þau Marín Hrund Jónsdóttir og Jón Aðalgeir Ólafsson, en þau áttu fyrir eina dóttur, Glódísi Lind, þriggja ára. Hún fæddist sama dag og þegar Ísland vann England á EM í knattspyrnu. Það var því tvöfaldur fögnuður þann daginn.
Fæðingin núna gekk vel hjá Marín sem fór á fæðingardeildina í Keflavík um kl. 18 og stráksi var kominn í heiminn um fjórum klukkustundum síðar.
Hún vildi koma þakklæti á framfæri til fæðingardeildarinnar. „Það var yndislegt að fæða í Keflavík og svo eru konurnar frábærar eins og allir vita,“ sagði Marín Hrund.