Mannlíf

„Ungt fólk er ekki bara framtíðin – við erum hér núna“
Dagný Halla, Karín Óla og Júlíus Viggó eru ungt fólk á Suðurnesjum sem reynir að efla samfélagið.
Sólborg Guðbrandsdóttir
Sólborg Guðbrandsdóttir skrifar
fimmtudaginn 30. maí 2019 kl. 06:00

„Ungt fólk er ekki bara framtíðin – við erum hér núna“

-Voru gestir þáttarins Suður með sjó, nýrrar þáttaraðar Víkurfrétta

„Það er ekki algengt að mjög ungt fólk fari í pólitík. Ég byrjaði sextán ára og svo bauð ég mig fram í sveitarstjórnarkosningum þegar ég var átján. Mörgum finnst maður ekki vera nógu gamall til að skilja pólitík ef maður er ekki kominn með kosningaaldur og að maður eigi ekki erindi í pólitík en það er bara ekki rétt.“

Svona lýsir hin nítján ára gamla Dagný Halla Ágústsdóttir upplifun sinni á því að fara ung í stjórnmál en hún bauð sig fram í 10. sæti á lista Pírata í Reykjanesbæ í síðustu sveitarstjórnarkosningum. Margar ástæður lágu þar að baki en henni þótti meðal annars mikilvægt að efla kosningaþátttöku ungs fólks og bæta hagsmuni ungra kvenna á Íslandi.

Flestir hugsa um pólitík
„Það er gott fyrir konur að búa á Íslandi en það má alltaf bæta. Það var það sem ég hafði að leiðarljósi þegar ég fór í pólitík. Mér var vel tekið innan flokksins og fólkið þar var opið og vildi hjálpa mér að móta mér mína eigin stefnu. En svo var hópur fólks sem hlustaði ekki á mann og ég fann fyrir miklum aldursfordómum í bland við kynjafordóma. Ég byrjaði mjög ung að hugsa um pólitík og flestir gera það, hvort sem fólk fattar það eða ekki. Ef þú hugsar um málefni skólans þíns þá er það pólitík. Ef þú vilt breyta heimanámi eða klukkunni þá er það pólitík,“ segir hún.


Dagný Halla Ágústsdóttir.

Dagný Halla, ásamt þeim átján ára gamla Júlíusi Viggó Ólafssyni og nítján ára gömlu Karín Ólu Eiríksdóttur, var gestur þar síðasta þáttar af Suður með sjó, nýrrar sjónvarpsþáttaraðar Víkurfrétta, sem sýndur var á Hringbraut.

Þau Dagný, Júlíus og Karín eiga það sameiginlegt að vera með sterkar skoðanir á stjórnmálum og hafa reynt að hafa áhrif á samfélagið með ýmsum hætti þrátt fyrir ungan aldur. Í þættinum ræddu þau meðal annars skólakerfið á Íslandi, félagslífið og mikilvægi þess að ungu fólki sé treyst til þess að taka ákvarðanir varðandi líf sitt.

Ungt fólk næst stærst í Grindavík
Það vakti athygli í síðustu sveitarstjórnarkosningum í Grindavík þegar nýr listi óflokksbundinna einstaklinga í bænum tilkynnti um framboð sitt, Rödd unga fólksins. Karín Óla var í þeim flokki.

„Okkur fannst tími til kominn að heyra meira í röddum ungs fólks. Okkur var mjög vel tekið í Grindavík þó svo það hafi líka heyrst frá einhverjum sem töldu okkur unga fólkið ekki búa yfir nægilegri reynslu til að bjóða okkur fram. En þetta hefur hins vegar farið vel af stað og gengur vel,“ segir Karín.

Rödd unga fólksins náði gríðarlegum árangri í kosningunum og stóð uppi sem næst stærsta framboðið í sveitarfélaginu. „Ungt fólk er ekkert bara framtíðin. Við erum hérna núna.“


Karín Óla Eiríksdóttir.

Stefna að skipulagðri breytingu NFS
Júlíus Viggó er sá eini af þremenningunum sem hefur ekki boðið sig fram til sveitarstjórnarkosninga en hann sinnir þó ýmsu pólitísku starfi frá mismunandi vígstöðum.
„Ég gekk í Unga Sjálfstæðismenn nýlega en ég held það hafi haldist í hendur við það að ég hef mikið verið í starfi sem tengist markaðshugmyndum og hugmyndum um einstaklingsfrelsi. Ég er til dæmis formaður Samtaka frjálslyndra framhaldsskólanema. Ég hef verið að taka þann pólinn svolítið meira til hægri en ég er oft sammála fólki og hef setið með í umræðum þegar verið er að kvarta undan Sjálfstæðisflokknum. Það vantar ekkert upp á ósætti við flokkinn. En þetta er eini flokkurinn á landinu, fyrir utan kannski Viðreisn, sem er flokkur sem að einhverju leyti stuðlar að markaðsfrelsi. Það er eflaust ein af þeim ástæðum fyrir því að ég er einmitt núna í því starfi.“

Fyrir utan þá vinnu er Júlíus Viggó nýkjörinn formaður Nemendafélags Fjölbrautaskóla Suðurnesja og tekur við stjórninni næstkomandi haust. „Nemendafélagið er núna á einum versta stað sem það hefur verið í mörg ár. Ég vildi komast inn í félagið með skipulagða breytingu að markmiði og mun leggja mig fram við það með fólki sem ég treysti til að snúa hlutunum við.“

Úr kompu í 300 fermetra félagsrými
Félagslíf í skólum skiptir miklu máli að sögn ungmennanna þriggja en Víkurfréttir greindu frá því í lok apríl að skrifað hefði verið undir samkomulag um fyrirhugaða stækkun Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Viðbyggingin kemur til með að hýsa félagsrými nemenda og bæta mjög aðstöðu þeirra en um er að ræða byggingaráfanga sem verður um 300 fermetrar að stærð. Nemendur við skólann eru nú rúmlega 830 talsins.

„Þetta er bygging sem á að vera löngu byrjuð. Ég held að þetta verði klárlega betra fyrir nemendafélagið. Núna er eina aðstaðan sem nemendafélagið hefur lítil kompa í matsalnum. Ég held það muni gera helling og minnka þá skiptingu sem er í FS,“ segir Júlíus Viggó.


Júlíus Viggó Ólafsson.

Frábærir námsmenn en falla á mætingu
Dagný Halla, Júlíus Viggó og Karín Óla stunda öll nám við FS og þar þykir þeim gott að vera, námið segja þau gott og starfsfólkið tilbúið að gera hvað sem er fyrir nemendur sína. Þau eru hins vegar gagnrýnin á mætingakerfi skólans sem þau telja letjandi fyrir námsmenn að mörgu leyti.

„Mér finnst mætingakerfið í skólanum fáránlegt. Maður er orðinn stressaður yfir því hversu oft maður verður veikur á önninni,“ segir Dagný en þau lýsa kerfinu á þá vegu að ef nemandi er veikur tvo daga í röð fái hann einungis annan daginn skráðan sem veikindi. Restin verði að fjarvistum. „Þú þarft að vera fjarverandi í þrjá daga til að fá þennan helming til baka sem gefur þér í rauninni ástæðu fyrir því, ef þú ert veikur í tvo daga, að vera heima þriðja daginn líka. Nú þekki ég fólk sem náði öllum prófum, kláraði öll verkefni en það var fellt í náminu vegna of margra fjarvista. Þessu þarf að breyta,“ bætir Júlíus Viggó við. Þá leggur Karín áherslu á það að nám í framhaldsskóla sé val.

„Mér finnst við klárlega eiga að fá meira svigrúm varðandi mætingu. Það er á okkar ábyrgð að sinna náminu og okkur ætti að vera treyst til þess,“ segir hún. „Ég hef farið á nokkrar ráðstefnur á skólatíma og þá hef ég fengið fjarvistir. Reyndar „útskýrða fjarvist“ en hún kemur út á það sama og maður fær fjarvistina skráða sem er fáránlegt. Er ekki mikilvægt að ungt fólk sé að reyna að efla samfélagið?“

Þau segja mun á því að hanga heima hjá sér og að fara til dæmis á ráðstefnur eða annað sambærilegt. „Þú ert kannski að fá einhver tækifæri til að gera eitthvað sem gefur þér mun meira en einn dagur sem þú missir af í skólanum. Þetta mætingakerfi er ekki beint beittasti hnífurinn í skúffunni,“ bætir Júlíus Viggó við.

Varðandi skólakerfi landsins almennt þykir þeim námið ekki alltaf koma til móts við nemendur. „Það þarf að komast í takt við samtímann.“

Grindavíkurvegur hættulegur öllum
Karín Óla hefur setið í ungmennaráði Grindavíkur síðastliðin fimm ár og þar af sem formaður í rúmt ár. Í fyrra stóð ungmennaráðið fyrir málþingi um umferðaröryggi þar sem ungmennum á suðvesturhorninu og á Reykjavíkursvæðinu var boðið til Grindavíkur til að taka þátt.

„Við búum við einn hættulegasta veg landsins og þurfum að fara hann á hverjum degi til og frá skóla og í vinnu. Okkur fannst kominn tími til að sjá einhverjar úrbætur. Umferðaröryggi er málefni sem snertir alla,“ segir Karín og Dagný bætir því við að það sé til skammar að ekki meira sé gert á veginum til að bæta hann. „Það þarf svo margt að laga. Ég get ekki ímyndað mér að keyra þennan veg á hverjum degi en það er fullt af krökkum í Fjölbrautaskóla Suðurnesja sem neyðast til þess.“

Skiptinám mögnuð upplifun
Þrátt fyrir ungan aldur hafa þremenningarnir ferðast mikið en þær Dagný og Karín hafa báðar farið í skiptinám erlendis.

„Mig hafði alltaf langað að fara í skiptinám til Asíu en hætti við og fór í Fjölbrautaskólann. Ég sá svo auglýsingu á Instagram varðandi stutt skiptinám sem heitir Peace og er friðarfræðsla fyrir krakka á aldrinum fimmtán til nítján ára. Ég sótti um og komst inn á styrk því þetta var fyrsta skiptinámið mitt og ég fór í þrjá mánuði til Kína sem endaði svo á einni viku í Malasíu þar sem við kynntum niðurstöður okkar,“ segir Dagný en rannsóknarverkefnið hennar, á meðan dvölinni stóð, voru kvenréttindi og munur þeirra á Íslandi og í Kína. „Þetta var mikið menningarsjokk en þetta var mjög áhugavert. Mér fannst ég þroskast heilmikið á þessum þremur mánuðum. Þetta er allt annar heimur þarna úti,“ segir Dagný.

Karín tekur undir það að upplifunin sé þroskandi en hún flutti til Færeyja í hálft ár. „Þetta er svo gott tækifæri fyrir mann, að standa á eigin fótum og vera í allt öðru umhverfi með nýju fólki. Ég elska Færeyjar. Þetta kom bara allt í einu upp í hendurnar á mér og ég flutti út með þrettán daga fyrirvara. Þetta var æðislegt.“

Þó Júlíus Viggó hafi ekki farið í skiptinám líkt og stelpurnar þá hefur hann ferðast á ráðstefnur víðs vegar um heiminn síðustu ár og fór til að mynda á Liberty Con, aðalráðstefnu samtakanna Students for Liberty, sem haldin var í Washington í Bandaríkjunum í janúar. „Ég fór svo til Serbíu í síðasta mánuði og fékk þann heiður að taka þátt í þjálfun hjá Atlas Network. Á þessum ráðstefnum eru alls konar fyrirlesarar sem koma saman og það er magnað að hitta fólk sem maður hefur verið að hlusta á lengi.“


Frumkvöðlastarf og geimfarar framtíðarinnar
Aðspurð um það hvað þau ætli sér að verða þegar þau verði stór er greinilegt að ungmennin þrjú stefna í mismunandi áttir.

„Ég ætla í læknisfræði í haust. Ef það tekst ekki ætla ég bara að verða geimfari,“ segir Dagný kímin en hún stefnir að því að sérhæfa sig í kvenlækningum.

Karín Ólu hefur lengi dreymt um það að verða lögreglukona. Það er planið hjá henni núna en það getur þó vel breyst. „Kannski langar mig svo bara að gera eitthvað allt annað. Maður veit aldrei hvað gerist.“

Júlíus Viggó tekur undir það. „Þegar það kemur að námi vil ég afla mér reynslu sem getur hjálpað mér að skapa mér minn eigin veg, hvort sem það er frumkvöðlavinna eða eitthvað annað.“