Mannlíf

… og svo leið tíminn
Föstudagur 15. maí 2020 kl. 09:19

… og svo leið tíminn

Matti Óla gefur út nýtt en samt gamalt efni

Það var á óveðurskvöldi í nóvember 2006 sem Matti Óla gekk inn í Hvalsneskirkju með gítarinn sinn ásamt nokkrum félögum sínum. Undir morgun hélt mannskapurinn til baka og var þá búinn að taka upp fjögur ný lög úr smiðju Matta. Nú fjórtán árum síðar eru þau lokins að koma út á stuttskífunni …og svo leið tíminn sem verður aðgengileg á steymisveitum föstudaginn 15. maí 2020.

Með Matta á þessu töfrakvöldi í gömlu kirkjunni var upptökumaðurinn Ingi Þór Ingibergsson og nokkrir tónlistarmenn sem allir lögðu örlítið af sál sinni í lögin. Harður diskur sem hrundi ásamt ýmsum lífsins verkefnum urðu hins vegar til þess að það náðist ekki að ganga frá upptökunum og svo leið tíminn alla leið til vorsins 2020. Þá var Ingi Þór að fara yfir gamalt dót í upptökuverinu sínu Lubba Pís og datt niður á hljóðskrárnar frá þessu blauta nóvemberkvöldi 2006. Í samstarfi við útgáfufélagið Smástirni var drifið í að ganga frá lögunum til útgáfu.

Sem fyrr segir var það Ingi Þór Ingibergsson sem tók upp tónlistina í Hvalsneskirkju og honum til aðstoðar var Smári Guðmundsson. Ingi sá svo um að hljóðblanda upptökurnar og Smári masteraði. Matti sjálfur syngur og spilar á klassíska gítarinn sinn. Hlynur Þór Valsson spilar á kassagítar og raddar, Ólafur Þór Ólafsson spilar á rafmagnsgítar og raddar, Pálmar Guðmundsson spilar á bassa og Ingi Þór slær taktinn á einum stað. Ef vel er hlustað má á sumum stöðum heyra í vindinum sem lemur kirkjuna og skapar bakgrunninn fyrir þessa einlægu tónlist. Myndlistarkonan Gunna Lísa gerði svo teikninguna sem prýðir útgáfuna, sem er einföld, hrá og falleg eins og tónarnir á plötunni.

Matti Óla er einstakur tónlistamaður sem kemur til dyranna eins og hann er klæddur. Hann hefur fengið að reyna ýmislegt á lífsins leið sem skilar sér textum sem eru í senn einlægir og mannlegir og tónlistin ber skýr merki höfundarins. Matti byrjaði ekki að fást við tónlist fyrr en hann var kominn á fertugsaldurinn og það voru aðeins fjögur ár liðin frá því að hann spilaði sínu fyrstu tóna á gítar þar til að hann var búinn að gefa út plötuna Nakinn árið 2005. Upptökurnar sem er að finna á …og svo leið tíminn eru teknar upp ári síðar og eru lágstemmdari enda fanga þær einstakt augnablik á einstökum stað.

Matti Óla er sannarlega ekki hættur að búa til tónlist. Það má segja að fundurinn á þessum gömlu upptökum hafi ýtt honum aftur í gang því þessa dagana er hann að vinna að upptökum á nýju efni með Smára Guðmundssyni í Smástirni. Stefnt er að því að sú tónlist komi út síðar á þessu ári, en fram að því verður hægt að njóta þess að hlusta á lögin sem voru töfruð fram í Hvalsneskirkju fyrir 14 árum.