Mannlíf

Árgangagangan mínus 20 – Allir færa sig niður um 20 húsnúmer
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
föstudaginn 6. september 2019 kl. 20:44

Árgangagangan mínus 20 – Allir færa sig niður um 20 húsnúmer

Frá því Ljósanótt var fyrst haldin árið 2000 eru nú liðin 20 ár. Á þeim tíma hafa 20 nýir árgangar bæst í fullorðinna manna tölu auk þess sem elstu íbúar bæjarins frá þeim tíma hafa nú verið kvaddir til annarra verkefna. Það er því svo komið að Hafnargata 2–20 standa mannlausar á Ljósanótt og við Hafnargötu 88 þar sem yngsta fólkið okkar og framtíðin safnast saman er nú fólk sem náð hefur fertugsaldri og á e.t.v. orðið skilið sinn eigin „prívat“ stað við Hafnargötu.

Til að bregðast við þessari þróun var ákveðið að nýta 20 ára afmælisárið til að færa alla niður um 20 húsnúmer. Það merkir að sá sem er fæddur 1950 mætir nú fyrir framan Hafnargötu 30 en ekki Hafnargötu 50 eins og hingað til og þannig koll af kolli. Með þessu móti styttum við gönguna fyrir okkar elstu íbúa um leið og við veitum yngsta „fullorðna“ fólkinu okkar tilhlýðilegan sess.

Nú þurfum við bara öll að hjálpast að við að meðtaka þessa breytingu og upplýsa hvert annað um hana. Þetta er ekki flókið. Það eina sem við þurfum að muna er „mínus 20“.