AHA
AHA

Mannlíf

Fagna 40 árum í Holti
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
þriðjudaginn 25. mars 2025 kl. 08:10

Fagna 40 árum í Holti

Leita að leikskólastjóranum frá 1988 til 1990 til að hafa með í sögu Holts

Það var gleði og gaman á leikskólanum Holti í Innri Njarðvík síðasta föstudag þegar þar var fagnað 40 ára afmæli. Boðið var í opið hús þar sem afmæliskaka var í boði og til sýnis voru verkefni sem börnin hafa unnið að. Þá voru sýndar myndir úr sögu skólans þar sem gestir gátu kynnt sér sögu skólans í gegnum myndir og minningar. Leikskólinn var fallega skreyttur á afmælisdaginn og auðvitað fengu börnin ís í tilefni dagsins.

Frá stofnun árið 1985 hefur Leikskólinn Holt vaxið og dafnað, og í dag er hann sex deilda leikskóli með rými fyrir 105 börn. Holt er einn af þrettán leikskólum Reykjanesbæjar og sinnir fjölbreyttu og skapandi starfi með börnum bæjarins

VF Krossmói
VF Krossmói

Leikskólinn Holt er staðsettur við Stapagötu 10 í Innri-Njarðvík og var formlega opnaður 15. mars 1985 og voru deildirnar tvær, Kot og Hlíð. Þann 2. janúar 2004 áttu sér stað endurbætur og stækkaður skóli með tveimur nýjum deildum, Laut og Lundi, tekinn í notkun. Árið 2022 var leikskólinn stækkaður um tvær deildir til viðbótar, Móa og Þúfu og er í dag sex deilda leikskóli með rými fyrir 105 börn. Stöðugildi við skólann eru 33, tónlistarkennari starfar við skólann og sér um tónlistarkennslu einn dag í viku.

Systrafélag Njarðvíkurkirkju stóð að byggingu leikskólans í samvinnu við Njarðvíkurbæ. Leikskólinn stendur í landi jarðarinnar Holts og þaðan kemur nafnið. Leikskólinn er Grænfánaskóli, Heilsueflandi skóli og starfar eftir hugmyndafræði Reggio Emilia, þar sem áherslan er á barnið, hæfileika þess og áhuga, leikinn og umhverfið sem þriðja kennarann.

Leikskólastjóri er Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir og aðstoðarleikskólastjóri er Sigurbjört Kristjánsdóttir. Í anddyri Holts eru myndir uppi á vegg sem sýna andlit tíu leikskólastjóra sem hafa starfað við Holt. Hins vegar er smá gat í þessari sögu þar sem upplýsingar um hver var leikskólastjóri frá 1988 til 1990 liggja ekki á lausu. Því er leitað til lesenda Víkurfrétta með ábendingar um hver stýrði Holti á þessum tíma.

Ótal börn sótt sér þekkingu og gleði

„Hingað hafa ótal börn sótt sér þekkingu og gleði og þroskast í hóp með jafningjum í skjóli fullorðinna. Það er dýrmætt. Í veggjum Holts situr nefnilega ótrúlega mikil þekking og reynsla já og gæska og virðing. Hér er barnið í brennidepli, áhugi þess, hæfileikar og áskoranir. Hér vöxum við saman í takt við hugmyndafræði skólans sem er einstaklega barnvæn og í skjóli kennaranna okkar yndislegu. Börni á Holti eru afskaplega heppin, heppin með umhverfi sem er styðjandi og hvetjandi til þroska og góðra verka og allt okkar yndilega fólk sem kemur hingað á hverjum degi tilbúið að gera sitt besta, sitt allra besta fyrir börnin okkar allra. Takk fyrir ykkur elsku börn, takk fyrir ykkur kæra starfsfólk og takk fyrir ykkur góðu foreldrar. Höldum áfram saman að hlúa að og byggja upp gott skólastarf í leikskólum Reykjanesbæjar því börn eiga það besta skilið,” sagði Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir, leikskólastjóri á þessum tímamótum.

Þau hafa verið leikskólastjórar á Holti:

Sigríður Sigurðardóttir 1985-1986

Díana Sigurðardóttir 1986-1988

????? 1988-1990

Sigríður Hólmsteinsdóttir 1990-1992

Anna Sveinsdóttir 1992-1993

Kristín Helgadóttir 1993-2019

María P. Berg 2019-2024

Hólmfríður J. Árnadóttir núverandi

Sigríður Sigurðardóttir 1997-1998

Elín B. Einarsdóttir 2002-2003

Heiða Ingólfsdóttir 2016-2017