Til leigu (Skólamatur)
Til leigu (Skólamatur)

Mannlíf

Forseti Íslands heiðraði Gerðaskóla á stórafmæli
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
laugardaginn 15. október 2022 kl. 08:02

Forseti Íslands heiðraði Gerðaskóla á stórafmæli

Óperusöngvararnir Una María Bergmann og Bjarni Thor Kristinsson eru bæði gamlir nemendur Gerðaskóla. Þau sungu fyrir gesti afmælishátíðar í tilefni af 150 ára afmæli Gerðaskóla við undirleik Sigrúnar Gróu Magnúsdóttur. Yngra söngfólk úr Gerðaskóla söng einnig fyrir gesti við undirleik nemenda Tónlistarskólans í Garði.

Fjölmennt var í Gerðaskóla í Garði síðasta föstudag þegar afmæli skólans var fagnað. Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, þekktist boð skólans og var á meðal gesta á þessari hátíðlegu stund í skólanum. Eiríkur Hermannsson, sem var skólastjóri Gerðaskóla í tíu ár seint á síðustu öld, hefur kíkt í kirkjubækur og tekið saman sögu Gerðaskóla. Hann flutti brot úr þeirri sögu á hátíðinni.

Gerðaskóla bárust góðar gjafir í tilefni tímamótanna. Meðal annars gaf Suðurnesjabær skólanum leir- og glerbrennsluofn. Einar Jón Pálsson, forseti bæjarstjórnar, afhenti gjöfina í forföllum Magnúsar Stefánssonar, bæjarstjóra. Þá barst skólanum vegleg gjöf frá Kvenfélaginu Gefn. Þegar formlegri dagskrá lauk á sal skólans var gestum boðið upp á veitingar og að skoða sýningar sem unnið hefur verið að í tilefni tímamótanna. Nemendur hafa unnið með sögu skólans og þá voru gamlar myndir úr skólastarfi til sýnis sem gestir sýndu mikinn áhuga.

Forseti Íslands sýndi afmælinu mikinn áhuga og var tvær klukkustundir í afmælisveislunni, skoðaði sýningar og ræddi við gesti. Nemendur Gerðaskóla voru t.a.m. duglegir að taka af sér svokallaðar „sjálfur“ með forsetanum. Guðni lauk svo heimsókn sinni í Gerðaskóla með því að skoða nýtt listaverk sem nemendur hafa unnið að og er sólarlagsmynd frá Garðskaga sem gerð er úr plasttöppum.