Mannlíf

Framtíðin verður að vera umhverfisvæn
Sunnudagur 13. janúar 2019 kl. 09:00

Framtíðin verður að vera umhverfisvæn

~ Fálkaorðuhafinn Tómas Knútsson hefur marga fjöruna sopið ~

Ellefta stundin er runnin upp og hlutirnir verða að breytast hratt. Umhverfið öskrar á okkur sem aldrei fyrr um að við breytum umgengni okkar við náttúruna. Veðurfarið sýnir okkur þetta glöggt þessa dagana. Náttúruvernd þolir enga bið segja sérfræðingar.
 
Það má líklega kalla Tomma hermann hafsins því hann er þekktur fyrir ákafa sinn og eldmóð í hreinsun hafsins. Hann er óþreytandi að breiða út fagnaðarerindið um að við verðum öll að taka ábyrgð á ruslinu sem fundist hefur bæði á hafsbotni og við strendur landsins frá árinu 1995, þegar hann ásamt nemendum sínum í Sportköfunarskóla Íslands ákváðu að stofna Bláa herinn til að hreinsa upp allt ruslið sem þau fundu þegar þau voru að kafa í sjónum við strendur landsins. Þvílíkt rusl sem hafði safnast þarna í gegnum árin. Þeim var misboðið að sjá allt mannanna rusl og tóku til sinna ráða. Síðan þá hefur Blái herinn barist fyrir hreinsun hafsins við misjafnar vinsældir í upphafi en sem tíminn hefur nú leitt í ljós að ekki var vanþörf á að taka til hendinni.
 
Tómas Júlían Knútsson heitir maðurinn en hann naut þess heiðurs á nýársdag að vera krýndur riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu af herra Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands, fyrir framlag sitt til umhverfisverndar á Íslandi. Tómas er vel að þessum heiðri kominn.

 

Ólst upp í Keflavík

 
Við hittum Tomma á notalegu Ráðhúskaffi í Reykjanesbæ og spurðum hann spjörunum úr enda af miklu að taka í ævi þessa manns sem hefur marga fjöruna sopið.
 
„Ég var einmitt að koma úr sundi núna og hitti nokkra Túnvillinga í heita pottinum í morgun, þær ólust upp á Sóltúni en ég ólst upp í Hrauntúni, aðeins ofar. Við vorum að rifja upp Keflavík í gamla daga og hvað lífið var þá yndislega einfalt. Þegar ég var að alast upp var mamma mín heimavinnandi húsmóðir eins og flestar konur á þeim tíma. Ég kom heim þegar ég var svangur eða þegar nestið mitt var búið, sem mamma hafði útbúið fyrir mig um morguninn, áður en ég fór út að leika en þá var maður úti allan daginn og kom ekki heim fyrr en maður var svangur. Nestið var yfirleitt það sama, franskbrauð og rúgbrauð skellt saman með miklu smjöri á milli. Mjólk í glerflösku með smellutappa. Þetta át maður einhvern tímann yfir daginn. Þá var ekkert verið að hafa áhyggjur af manni þótt maður væri á hjólinu úti allan daginn. Við hjóluðum jafnvel meðfram Reykjanesbrautinni út að Snorrastaðatjörnum en auðvitað var bílaumferð miklu minni þá en núna. Það var samt alltaf þetta traust til manns og við vorum skapandi og fundum upp á ýmsu til að gera. Maður lærði að bjarga sér. Við krakkarnir vorum að þvælast um bæinn, sveifluðum okkur í fiskitrönum og átum harðfisk þar ef við vorum svangir en þá slógum við fiskinum fyrst í stein svo fiskurinn losnaði frá beininu. Svo fórum við að fylgjast með niðri á bryggju eða fórum upp á vötn sem eru nálægt Leifsstöð í dag. Fyrst þurfti ég samt að læra heima og svo mátti ég fara út og þá var maður burtu í nokkra klukkutíma. Það var engin að hafa áhyggjur af okkur. Þetta var árstíðabundið, aðrir leikir á sumrin en á veturna. Á sumrin vorum við að byggja kofa eða búa til bátafleka úr síldartunnum sem við fórum ofan í og settum á flot á vötnin uppfrá. Við vorum ekkert í vestum eða neitt svoleiðis, slógum fjórum tunnum saman og vorum að róa þessu. Það var langt að fara þá upp á vötn en þarna var líka skautað á veturna. Svo var maður að skríða undir girðinguna til að komast upp á Völl í vinnuna til pabba sem vann hjá Esso,“ segir Tommi.

Alltaf verið fullur af krafti

 
„Ég væri eflaust greindur sem ofvirkur í dag ef ég væri barn en ég hef alltaf haft þennan kraft í mér og nýtt hann til góðs. Þegar ég var krakki þá var maður úti allan daginn að leika og það þótti eðlilegt að vera hress krakki og strákar voru kannski aðeins fyrirferðameiri en stelpur. Fyrir ofan heimilið okkar í Hrauntúni var mói og klettar sem við lékum okkur í en þarna vorum við að keyra bíla sem voru heimasmíðaðir úr tré með fjöðrun úr gúmmíslöngum. Þar voru heilu vegirnir sem var gaman að keyra eftir en við vorum einnig með Tonka-bíla úr járni og ég á nú ennþá svoleiðis eintök heima. Svo vorum við að hjóla í móanum og ég stóð fyrir fyrstu torffæruhjólakeppninni þarna, þar sem verðlaunin voru 25 króna bláleitur peningaseðill sem dugði fyrir pulsu og kók í Brautarnesti við Hringbraut. Við lékum okkur þarna alla daga man ég. Mamma sagði alltaf þegar ég kom heim: „Hvað segir buxnabaninn minn?“ Ósjaldan var maður með einhver teygjubindi á líkamanum. Svo var maður að klifra í nýbyggingum eins og í húsinu hans Árna Sam og fjölskyldu sem verið var að byggja. Þá kom maður heim með nagla í fætinum og mamma setti á sárið joð og fimmaur sem var teipað fast því þetta átti að hreinsa sárið svo maður fengi ekki blóðeitrun. Svo vorum við alltaf í Tarzan-leik. Kanasjónvarpið gaf okkur alls konar hugmyndir og við áttum móann allt í kring til að láta ævintýrin gerast. Svona var lífið hjá okkur krökkunum. Maður var ekki með neitt plan um morguninn og endaði jafnvel á Snorrastaðatjörn eða í Höfnunum sem þótti mjög langt að fara einnig. Við fórum þetta allt á reiðhjóli.“
 

Skilnaður foreldra breytti ýmsu

 
Foreldrar Tomma voru Knútur Høiriis sem var danskur og Anna Nikulásdóttir en þau skildu þegar hann var þrettán ára.
 
„Þegar mamma og pabbi skildu urðum við bræðurnir, Bóbó og ég, eftir hjá pabba. Mamma og Mambý systir fluttu fyrst til Reykjavíkur en svo þaðan til Svíþjóðar þar sem systir mín býr enn. Foreldrar mínir eru núna báðir látnir. Við bræðurnir ólumst upp hjá pabba sem fékk til sín ráðskonu í eitt ár en svo kynnist hann Elínu Guðmannsdóttur og þau fóru að búa saman. Þá flutti hún ásamt börnum sínum heim til okkar í Hrauntúnið og svo eignuðust þau seinna saman Möggu systur mína.“
 
Á uppvaxtarárum Tomma var Keflavík suðupottur fyrir allskonar tónlist og áhrifa gætti einnig frá kanasjónvarpinu. Hann horfði á allskonar sjónvarpsþætti sem höfðu áhrif á leiki hans. Það var einn sjónvarpsþáttur sem Tommi minnist sérstaklega að hafi haft áhrif á hann í átt til köfunar en það var Voyage to the Bottom of the Sea.
 
„Það small eitthvað innra með mér þegar ég var að horfa á þessa þætti, þarna kviknaði kafaraáhuginn. Ég man ég sagði við pabba að þetta ætlaði að ég að læra. Ég vildi læra að kafa. Það liðu einhver ár en svo lærði ég að kafa átján ára. Maður byrjaði ungur að vinna. Pabbi gaf mér í fermingargjöf að fara til skyldfólks á Jótlandi en ég ferðaðist með skipi og fargjaldið var að ég átti að hjálpa til um borð á leið til Danmerkur. Ég var þarna fjórtán ára strákur og fór einnig heim aftur á þennan máta, sigldi með skipi eftir sex sjö vikur í Danmörku. Fjölskylda mín í Danmörku á feikistórt svínabú og þarna var ég að vinna sem unglingur allt sumarið. Ég hafði ekkert fyrir því að læra dönsku því við pabbi töluðum stundum dönsku og amma talaði einnig dönsku við mig. Þetta lá vel fyrir mér. Eftir þetta örlagaríka sumar breyttist allt og ég fullorðnaðist hratt. Pabbi sagði við mig: „Þetta geturðu og þetta er það besta sem ég get gefið þér til að þroskast en það er að senda þig burt.“ Næstu tvo vetur var ég sendur í skóla að Núpi í Dýrafirði og svo fór ég á sjó á sumrin og eftir Núp. Ég var háseti eða messagutti um borð í skipi og var að þvælast í þessu frá fjórtán til nítján ára aldurs. Þetta var alveg rétt ákvörðun hjá pabba því ég varð maður af því að vera hent út í djúpu laugina má segja. Ég var á fullu að vinna og þurfti að redda mér. Ég á ennþá dagbækur frá þessum tíma sem gaman er að lesa. Ég sigldi með skipinu til Englands, Hollands, Danmerkur, Finnlands og Rússlands. Þegar ég er nítján ára ákvað ég að fara í Iðnskólann og læra almenna vélvirkjun. Svo kynnist ég keflvískri stúlku og hún verður ófrísk, við skildum eftir rúm tíu ár en eigum í dag tvær yndislegar, uppkomnar dætur og barnabörn.“

 

Stofnaði Sportköfunarskóla Íslands

 
Lífshlaup Tomma er ævintýri líkast en eftir að hann varð einhleypur þá ákvað hann að fara til Noregs og starfa á olíuborpöllum en hann hefur komið víða við. Loðnusjómennska er á ferilskránni hans, vélsmiður hjá Keflavíkurverktökum og svo endaði hann formlegan starfsferil sinn hjá Slökkviliði Keflavíkurflugvallar sem var þá undir stjórn varnarliðsins.
 
„Í slökkviliðinu fór ég að búa til köfunarbatterí í kringum mig. Ég var búin að vera að kafa fyrir björgunarsveitirnar, að leita fyrir þá. Ég hafði eignast fyrsta kafarabúninginn minn um tvítugt og var að prófa mig áfram. Svo ákvað ég seinna að mennta mig á þessu sviði og náði í öll þau réttindi sem þarf til að reka köfunarskóla. Það var þegar ég fór að kafa að ég sá allt ruslið á hafsbotni svo mér blöskraði. Ég var samt búinn að vera þátttakandi sjálfur í þessu þegar ég var gutti á sjó en þá var maður látinn kasta öllu rusli úr skipinu ofan í sjó og mér sárnaði að þurfa að gera þetta. Öllu var hent í sjóinn og það kom sorg í mig við þetta. Svo einu sinni lentu þeir illa í því þegar þeir hentu rusli of nálægt ströndum Danmerkur og allt ruslið fór að koma í fjörurnar þar og var jafnvel merkt skipinu, þá fengu þeir háar sektir og ég var ánægður með það man ég.“

 

Mikil þörf fyrir Bláa herinn

 
Tommi stofnaði Sportköfunarskóla Íslands og útskrifaði nemendur sem fyllast sama eldmóði og hann þegar þeir vilja stofna með honum Bláa herinn.
 
„Um leið og þú stingur höfðinu ofan í sjó og ferð að kafa þá sérðu ævintýraheim. Þú vilt ekki sjá rusl neðansjávar. Nemendur mínir voru sama sinnis og vildu stofna með mér Bláa herinn. Við sóttum um styrki og vorum með viðburði til að sýna almenningi allt ruslið sem við fundum á hafsbotni. Þetta vakti athygli. Við vildum vera hermenn hafsins og þannig hófst ævintýrið um Bláa herinn. Ég var búinn að kafa um allar jarðir og vissi hvernig ástandið var í kringum landið og þegar ég fór að fara með túrista í skemmtiköfun þá vildi ég heldur ekki sýna þeim allt ruslið okkar. Mér fannst þessi umgengni okkar algjör vanvirðing við náttúruna. Hvernig gat þjóð auglýst ferskan fisk úti í heimi sem var með svona skítugt haf í kringum landið sitt. Ég tók þetta inn á mig og ég veit að ég var kallaður í þetta starf,“ segir Tommi og maður finnur eldinn loga í honum fyrir þessari hugsjón um að hreinsa haf og strendur landsins.
 

Andlát vinar örlagaríkt

 
Lífið hefur ekki alltaf verið dans á rósum. Tommi upplifði mikla sorg þegar einn nemandi hans lét lífið við köfun undir umsjón hans sjálfs.
 
„Ég var svo miður mín eftir að hafa misst nemanda minn, Rúnar Bárð Ólafsson, að ég fór einn í sumarbústað að Flúðum til að finna innri ró. Mér leið hræðilega. Svo ákvað ég að fara í Skálholtskirkju á fund skapara míns. Þar fékk ég skilaboð „Tómas ég legg þetta á þínar herðar að vera talsmaður hafsins því þú getur þetta.“ Svo þegar ég kom aftur út í bíl sá ég að kílómetramælirinn stóð akkúrat á fæðingardegi mínum 220357 og sá Geysi gjósa einnig þennan dag en hann hafði ekki gosið af sjálfsdáðum lengi. Þetta fannst mér allt eitthvað svo skrítið og táknrænt. Eftir þessa upplifun þarna í Skálholti, fannst mér andlát Rúnars gefa mér kraft til þess að snúa þessu slysi í eitthvað jákvætt. Ég fékk einnig áfallahjálp á þessum tíma sem gaf mér sálarró. Foreldrar Rúnars voru mér ómetanlegur stuðningur en þau ásökuðu mig aldrei. Þau voru mér ótrúleg stoð og stytta og hvöttu mig áfram í þessu nýja hlutverki mínu.“
 
Það var ekki nóg með að Tommi lenti í þessu áfalli með nemanda sinn heldur ætluðu yfirvöld að kæra hann fyrir manndráp af gáleysi. Þá var honum öllum lokið en ákvað að taka til ráða sinna.
 
„Þegar yfirvöld vildu kæra mig fyrir manndráp af gáleysi þá varð ég að fella kerfið. Ég lét þau falla frá ákærunni vegna vanrækslu þeirra á sviði lagaramma sportköfunar hér landi sem ég hafði margoft beðið um en ekki verið svarað. Eftir þetta urðum við viðurkenndir atvinnumenn í sportköfunarkennslu.“

 

Margir hafa hjálpað Bláa hernum

 
Tommi segist geta þakkað svo mörgum fyrir hjálpina í Bláa hernum í gegnum árin. Einn þeirra er Guðni Ingimundarson sem er nýlátinn.
 
„Guðni heitinn var með mér í upphafi og kom á trukknum, á kranabílnum sínum, og tók ruslið upp úr fjörunni sem við höfðum safnað saman. Öðlingur hann Guðni og merkilegur maður. Ég á sjálfur kranabíl sem ég er að gera upp í annað sinn, gamall hertrukkur sem ég ætla að nota í sumar en þá verður Blái herinn öflugur.“
 
Íslendingar eiga allt undir að hafið í kringum landið haldist hreint. Í sjónum eru verðmæti þjóðarinnar. „Því miður hefur Ísland engan gæðastimpil vegna fiskafurða í heiminum í dag, ekkert frekar en Rússar. Íslendingar hafa setið eftir með gæðamálin.“


Áfengisneysla á ekki við Tomma

 
Tommi fór í áfengismeðferð fyrir 27 árum því honum fannst áfengi farið að há honum.
„Ég hætti að drekka áfengi því mér fannst ég alltaf svo ónýtur eftir áfengisdrykkju. Ég fór í tíu daga meðferð hjá SÁÁ og hef ekki drukkið síðan og er mjög þakklátur fyrir það. Ég bið bænir mínar á hverjum degi og er þakklátur fyrir að vera laus við áfengi. Áfengi hindrar framfarir í lífi manns.“
Í dag má segja að framfarirnar séu miklar í lífi Tomma því hann er loks að uppskera margra ára starf. Á nýársdag var hann sæmdur fálkaorðunni. Í október var hann tilnefndur til umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs og vegna þess fór hann til Noregs. Tommi var þar á meðal kóngafólks í Osló og annarra sem höfðu einnig verið kallaðir til þennan dag. Hvernig líður Tomma í dag? Þarf hann að klípa sig í handarbökin?

 

Heiður sem ég vil deila með fleirum

 
„Innst inni er ég bæði glaður og auðmjúkur. Ég varð meyr í gegn þegar ég hlustaði á forsetann okkar segja: „Herra Tómas Knútsson, vélvirkjameistari og stofnandi Bláa hersins, ég veiti þér riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu fyrir framlag þitt til umhverfisverndar á Íslandi. Svo  kemur þú í vor og tekur mig með þér í fjöruhreinsun,“ sem mér þótti alveg ofboðslega vænt um en hann vill að Ísland verði leiðandi í umhverfisvernd varðandi plast í hafinu þar sem við eigum svo mikið undir varðandi hreinleika hafsins. En fálkaorðuna á ég ekki einn því það hefur fólk þurft að þola mig í tíma og ótíma í þessari baráttu minni. Hlusta á mig fullan af eldmóði. Konan mín Magga Hrönn á mikinn þátt í þessu og henni er ég mjög þakklátur. Ég vil deila fálkaorðunni með henni og öllum þeim sem hafa komið að málefnum Bláa hersins. Tilnefningin til Norðurlandaráðs var einnig mikill heiður en þangað fórum við Magga í lok október. Við sátum við sama borð og Benedikt Erlingsson sem fékk verðlaun fyrir bíómyndina sína Kona fer í stríð. Þarna voru samankomnar stórar kanónur í hinum ýmsu geirum og kepptu um titla Norðurlandaráðs.“
 

Blái herinn er að stækka 

 
Framundan eru breytingar hjá bæði Tomma og Bláa hernum. Nú eru stór tímamót sem hann vonar að sé upphafið að einhverju enn stærra, því ekki veitir af meiri umhverfisvitund almennings. „Ég stóð á sviðinu í Osló og tók ákvörðun um það að hætta að vera sjálfboðaliði fyrir Bláa herinn því að þörfin fyrir verkefni hans og hugmyndafræði eru alls staðar. Blái herinn þarf að stækka enda mikil eftirspurn eftir störfum hans. Í dag finn ég fyrir miklu þakklæti í stjórnsýslunni að ég skyldi aldrei hætta og gefast upp. Ég vil alltaf vera lausnamiðaður og læt verkin tala. Ég hlusta, ég tala og svo framkvæmi ég. Það er áríðandi. Nú er ég framkvæmdastjóri nýja Bláa hersins og nú geta fyrirtæki og einstaklingar gerst styrktaraðilar. Það verður unnið í verkum eftir því sem fjármunir leyfa. Ef það er til nægilegt fé þá virkja ég samfélagið með mér til góðra verka fyrir náttúruna, Móður Jörð,“ segir Tómas Júlían Knútsson að lokum og gengur hægt um gleðinnar dyr. Við óskum honum velfarnaðar og vonum að hann ylji sér lengi við minningar ársins 2018.



Viðtal: Marta Eiríksdóttir // [email protected]