Mannlíf

Vilja gera bæinn  sinn flottan
Magnús Guðmundsson og Sigurgeir Jóhannsson hjá Reykjanes investment.
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
laugardaginn 29. mars 2025 kl. 06:00

Vilja gera bæinn sinn flottan

Fjórmenningar í byggingafyrirtækinu Reykjanes Investment í Reykjanesbæ eru með nokkra bolta og byggingakrana á lofti. Byggja nærri 300 íbúðir á þremur stöðum í Keflavík á nokkrum árum við sjóinn eða nálægt honum.

„Það er fullt af boltum á lofti og þetta getur alveg verið stressandi en það verður að hafa nóg fyrir stafni. Verkefnin á Hafnargötu og í Gróf eru umbótaverkefni í sveitarfélaginu og hópurinn okkar brennur fyrir því að gera hlutina fallega og vel,“ segja þeir Magnús Guðmundsson og Sigurgeir Jóhannsson hjá fyrirtækinu Reykjanes Investment. Þeir félagar eru tveir af fjórum eigendum fyrirtækisins sem er aðeins fjögurra ára gamalt. Með þeim eru feðginin Viktoría Hrund Kjartansdóttir innanhúsarkitekt og Kjartan Guðmundsson fjárfestir en hún hefur komið að hönnun og vali á innréttingum og fleiru í verkefnum fyrirtækisins.

Fyrirtækinu hefur vaxið fiskur um hrygg á stuttum tíma. Þeir Magnús, Sigurgeir og Viktoría eru á kafi í rekstrinum en faðir hennar fylgist með úr fjarska. Fastir starfsmenn auk þeirra eru á annan tuginn og þegar veltan eykst þarf fjármálastjóra sem verið var að ráða. Þau þrjú eru ung eða á milli þrítugs og fertugs. Eldmóðurinn er mikill, áhuginn líka og tengist því að gera bæinn sem þau eru alin upp í flottari. Víkurfréttamenn hittu þá Magnús og Sigurgeir við húsaflutning á Hafnargötu og notuðu tækifærið og ræddu við þá um framkvæmdirnar þar og starfsemi fyrirtækisins.

Útlitsteikning JeES  arkitekta af byggingum sem munu rísa við Hafnargötu á næstu mánuðum.

VF Krossmói
VF Krossmói
Andlitslyfting í miðbæ Keflavíkur

Nýjasta verkefnið fer vissulega í þann flokk þar sem flíkkað verður upp á gömlu, góðu Hafnargötuna í Keflavík. Tvö aldargömul íbúðarhús voru í síðustu viku flutt frá Hafnargötu í Keflavík og á geymslusvæði í Helguvík. Framkvæmdir eru að hefjast á lóðum húsanna og við Klapparstíg þar sem munu rísa 24 íbúðir, auk rýmis fyrir verslun og veitingasölu. Framkvæmdatíminn er áætlaður um eitt og hálft ár og því má vænta að framkvæmdinni verði lokið fyrir Ljósanótt að ári.

„Húsin eru flutt út í Helguvík þar sem þau verða tekin í sundur og því bjargað sem hægt er að bjarga úr þeim. Undirbúningurinn fyrir flutninginn er búinn að taka þrjá mánuði og við gripum tækifærið núna þegar við gátum fengið öll tæki og tól til verksins að klára þetta. Þetta heppnaðist vel og við erum bara ánægðir með daginn. Við erum ánægðir með íbúana hérna og verslunareigendur að þeir hafi sýnt okkur þolinmæði á meðan á þessu stóð,“ segir Sigurgeir.

Hafnargata 22 og 24 áður en framkvæmdir hófust við lóðirnar.

Steyptur kassi með 50 íbúðum — Punktur!

Aðspurður hvernig verkið hafi verið undirbúið og hvort þeir hafi átt von á því að húsin myndu hrynja, sagði hann svo ekki vera. Það hafi hins vegar þurft að huga að ýmsu og til dæmis hafi þurft að snúa ljósastaurum og skiltum við Hafnargötuna á flutningaleiðinni. Þá var vinna að koma stálbitum undir húsin og aftengja allar lagnir. Þá þurfti að fá ýmiskonar leyfi og heimildir til að koma húsunum á flutningabílum út í Helguvík.

Það er talsverður kostnaður við svona flutninga og stóru tækin kosta sitt, tímagjaldið er hátt. „Það er ekkert gaman að bíða í korter ef ekkert er að gerast. Það kostar 100.000 krónur,“ segir Sigurgeir.

Þetta svæði á eftir að breytast mikið á næsta eina og hálfa árinu.

Magnús segir okkur frá því hvernig verkefnið á þessum lóðum við Hafnargötu og Klapparstíg hófst. Allt byrjaði þetta með því að árið 2016 óskaði Reykjanesbær eftir tilboði í Hafnargötu 22. Sigurgeir hafði lagt línuna með það hvað mætti bjóða í eignina og hvert væri hámarksboð. Hann var hins vegar erlendis þegar kom að tilboðinu og það var því Magnúsar að skila inn tilboði. Hann skilaði inn tilboði 20 mínútum áður en tilboðsfresti lauk og ákvað að tvöfalda tilboðsfjárhæðina. Eitt annað tilboð barst og það var upp á nákvæmlega sömu krónutölu. Það fór því þannig að varpa þurfti hlutkesti og þeir félagar fengu húsið.

Hafnargata 24 flutt á geymslusvæði í Helguvík.

„Ári síðar var Hafnargata 24 auglýst til sölu í gegnum dánarbú. Við ákváðum að gera tilboð í það líka en vorum á þeim tíma ekki með á hreinu hvað við ætluðum að gera. Þegar við höfðum eignast húsið fórum við að hugsa aðeins út fyrir rammann og hvort við gætum ekki gert eitthvað skemmtilegt. Þá fengum við Jón Stefán hjá JeES arkitektum með okkur í lið og fyrsti fundurinn var mjög áhugaverður. Við fórum til hans og sögðumst vera með um 1.000 fermetra lóð og vildum fá steyptan kassa með 50 íbúðum. Punktur!,“ segir Magnús um upphafið af því sem myndi koma við Hafnargötuna.

Svona eru fyrstu drög að bryggjuhverfinu í Grófinni, þar sem hús Dráttarbrautar Keflavíkur stendur í dag.

Allt í þessum stíl sem minnir á gamla bæinn

„Við vorum með háleit markmið. Hann hlustar á okkur og boðar síðan á fund nokkrum vikum seinna og biður okkur um að vera undirbúna. Svo mætum við og hann skellir teikningunum á borðið og segir að svona verði þetta. Þetta var alls ekki það sem við báðum um en þegar við fórum að skoða teikningarnar þá var þetta allt í þessum gamla stíl sem minnir á gamla bæinn okkar. Það er verið að taka upprunalegt útlit húsanna sem voru hérna en lyfta þeim upp. Og nýbyggingarnar sem verða byggðar hérna verða í þessum kvistastíl, sem er bara mjög skemmtilegt,“ segir Magnús.

En hvað er næst?

„Það er bara að klára að moka og fylla upp í. Svo sjáum við fyrir okkur eftir svona tvær vikur að við verðum farnir að slá upp og steypa,“ segir Sigurgeir. Og þegar spurt er um framkvæmdahraða segir Magnús að stefnt sé á að ljúka framkvæmdum haustið 2026. Íbúðirnar í húsunum verða frá 40 og upp í 80 fermetra og meðaltalið er í kringum 60 fermetra, sem sé þægileg stærð og miðbæjarstemmning í því.

Gert er ráð fyrir verslun og þjónustu á jarðhæð með Hafnargötunni og aðeins inn á Klapparstíginn. Þá er gert ráð fyrir skjólsælu porti við byggingarnar. „Okkar draumir er að það muni lifa einhverskonar kaffihús hérna með stemmningu í skjólsælu porti þannig að við getum fengið okkur einn góðan drykk í blíðunni,“ segir Magnús.

Séð yfir smábátahöfnina í Gróf þar sem á næstu árum munu rísa um 200 íbúðir í hverfi með skandinavísku yfirbragði.

Skandinavískur stíll í Grófinni

Næsti viðkomustaður þeirra félaga er í Grófinni við Dráttarbraut Keflavíkur, sögufrægan stað í Keflavík. Þessa lóð og svæði eignuðust þeir eftir hugmyndasamkeppni hjá Reykjanesbæ fyrir fáeinum árum. Í framhaldinu var farið í að vinna skipulag sem var samþykkt á haustmánuðum 2024. Í því er gert ráð fyrir flottu hverfi með 180-200 íbúðum, auk verslunar og þjónustu. Sigurgeir segir reitinn vera tvískiptan og það sé möguleiki á að byrja að byggja hús áður en gamla dráttarbrautarbyggingin verður rifin. „Mögulega rífum við hana fyrst og björtustu vonir eru í byrjun næsta árs,“ segir Sigurgeir.

Þetta verður í raun hverfi, þetta er það stórt?

„Já, þetta skipulag er allt að 200 íbúðir og u.þ.b. 2000 fermetrar í verslun og þjónustu. Svo er það okkar mat hvernig við munum dreifa því um svæðið,“ segir Magnús og bætir við að verkefnið í Grófinni taki yfir fimm ára tímabil. Mögulega gætu 500-600 manns búið í hverfinu en það er einnig draumur þeirra félaga að þarna geti þrifist þjónusta eins og hótelgisting, veitingastaðir og mögulega skrifstofur. „Við viljum sjá líf hérna, enda er þetta bara bullandi rómantík,“ segir Magnús og bendir á smábátahöfnina og umhverfi hennar.

Hverfið í Grófinni er teiknað í skandinavískum stíl. Stíllinn er danskur með mænisþökum. Þetta er ekki háreist, kannski fjórar hæðir, plús mínus, að sögn Magnúsar.

Grófin er í hönnunarferli um þessar mundir og þeir félagar segja verkefnið flókið. Það þurfi að breyta gatnakerfinu á svæðinu. Aðkoma að bryggjunni breytist þannig að ekki verður hægt að aka að henni frá Berginu, aðeins frá Ægisgötu. Einhver ár verða í það að fyrstu íbúar geti flutt á svæðið þar sem að í dag liggur ekki ljóst fyrir á hvaða hluta hverfisins verður byrjað og í hvað miklu byggingamagni.

Magnús og Sigurgeir í grunninum við Hafnargötu í Keflavík.

Þetta er stór framkvæmd.

„Þetta er risapakki. Í heildina er þetta um 18.000 fermetrar,“ segir Magnús. Og aðspurður segir hann að verkefnið sé fjármagnað með brosandi bankastjóra og þá sé Sigurgeir með djúpa vasa — og hlær.

Pósthússtræti 9 í byggingu.
68 íbúðir í Pósthússtræti

Tvö fjölbýlishús við Pósthússtræti í Reykjanesbæ eru verkefni sem þeir félagar eru að fást við um þessar mundir. Framkvæmdum við annað húsið, Pósthússtræti 7, er lokið en hitt, Pósthússtræti 9, rís hratt til himins. Hæðirnar eru orðnar sjö, auk kjallara og íbúðirnar eru samtals 68 talsins. Talið berst að því hvernig þetta hófst allt fyrir um fjórum árum síðan.

„Hópurinn okkar sem samanstendur af okkur Magnúsi, Kjartani Guðmundssyni og dóttur hans, Viktoríu Hrund, náði saman um fasteign sem við keyptum að Miðtúni 2 í Keflavík sem við gerðum miklar endurbætur á, kláruðum snyrtilega og fína og seldum svo. Á þeim tíma dettur þessi lóð hér við Pósthússtræti til okkar og þá ákváðum við bara að byggja og framhaldið óráðið. Á framkvæmdatímanum ákáðum við að halda áfram og byggja einnig Pósthússtræti 9. Þegar það er mikið af verkefnum er mikilvægt að hugsa um næstu verkefni og vera tilbúin með eitthvað á hendi svo það komi ekki stopp í framleiðsluna. Þar erum við að skipuleggja þessi tvö verkefni sem við höfum áður verið að skoða, við Hafnargötu og í Grófinni. Við megum ekki stoppa, við verðum að halda áfram,“ segir Sigurgeir.

Í Pósthússtræti 7 eru 35 íbúðir en í Pósthússtræti 9 var skipulagi breytt á tveimur efstu hæðunum og í því húsi eru því 33 íbúðir. Pósthússtræti 7 varð fljótlega frægt fyrir alla þá Grindvíkinga sem þar settust að en Pósthússtræti 9 er ekki formlega komið á sölu. „Það mun gerast á vormánuðum en áhuginn er mikill,“ segir Magnús.

Þið eruð með mikið umleikis. Hvernig er að hafa mannskap í allar þessar framkvæmdir?

„Það er áskorun að vera með svona mikinn mannskap. Við höfum verið ótrúlega heppnir að ráða til okkar starfsfólk og svo undirverktaka sem við erum með í þessum verkefnum. Eins og í þessu verkefni að Pósthússtræti 9 eru 40-50 manns þegar mest er,“ segir Magnús.

Byggingin rýkur upp og framkvæmdahraðinn er mikill. „Þetta gengur mjög vel en janúar og febrúar voru aðeins að stríða okkur í veðrinu en það er bara eins og við má búast í þessum bransa,“ segir Magnús.

Margir boltar á lofti

Þegar Sigurgeir er spurður hvort það sé hollt að vera með svona marga bolta á lofti og þá vísað til framkvæmda við Pósthússtræti og fyrirhugaðar framkvæmdir við Hafnargötu og Gróf segir hann það í góðu lagi. „Þó ég segi sjálfur frá þá erum við ánægð með útlitið á bæði Pósthússtræti 7 og 9 og hlökkum til að sýna næstu verkefni,“ segir Sigurgeir.

Þeir félagar hafa ekki heyrt annað en það sé mikil ánægja með íbúðirnar við Pósthússtræti. Útsýnið út á sjóinn er einstakt þó það blási stundum hressilega.

Þegar Pósthússtræti 9 verður tilbúið hefur fyrirtæki þeirra byggt 68 íbúðir við Pósthússtræti. Svo verða 24 íbúðir við Hafnargötu og 200 í Grófinni. Tæplega þrjúhundruð íbúðir á nokkrum árum. „Það er nóg eftir hjá okkur og langt í land,“ segja þeir Sigurgeir og Magnús.