Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Gunnar eldhress og dansandi í aldarafmæli
Dætur Gunnars eru liðtækar í línudansinum með karli föður sínum. Hér taka þær sporin með honum. Gunnar er duglegur að dansa og að þessu sinni sá Pálmi Gunnarsson um undirleikinn í lifandi flutningi. Tónlist Pálma hljómar oft úr íbúð Gunnars á Nesvöllum, enda tónlistarmaðurinn í miklu uppáhaldi. VF/pket
Föstudagur 12. maí 2023 kl. 06:20

Gunnar eldhress og dansandi í aldarafmæli

Gunnar Jónsson varð 100 ára 7. maí. Hann er þar með sjötti núlifandi Suðurnesjamaðurinn sem er 100 ára eða eldri. Gunnar bauð til afmælisveislu á Nesvöllum síðasta sunnudag, þar sem hann fagnaði með dætrum sínum og öðrum afkomendum og ættingjum. Það var sannarlega gleði í afmælisveislunni og þar var stiginn dans en Gunnar er mikill áhugamaður um dans. Hann dansaði við dætur sínar hverja og eina, auk þess að taka línudans með þeim. Og það var dansað við lifandi tónlist en tónlistarmaðurinn Pálmi Gunnarsson, sem er í miklu uppáhaldi hjá afmælisbarninu, kom og lék nokkur af sínum þekktustu lögum og auðvitað dansaði Gunnar við tónlistina.

Tónlistarmaðurinn Pálmi Gunnarsson kom í afmælið og flutti úrval sinna bestu laga sem Gunnar svo dansaði við.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Gunnar er fæddur í Austurey í Laugardal í Árnessýslu, fimmti í röðinni af tíu systkinum, en flutti til Keflavíkur eins árs gamall. Gunnar er titlaður skipstjóri í símaskránni en hann byrjaði til sjós þegar hann var fimmtán ára gamall. Í viðtali við Víkurfréttir fyrir rúmu ári síðan sagði hann frá sögum af sjónum og m.a. þegar breskir hermenn skutu á bát hans austur á fjörðum.

Gunnar hefur verið virkur í heilsueflingu Janusar í Reykjanesbæ og verið þátttakandi í því verkefni frá upphafi og er enn að.

„Ég hef verið að mæta tvisvar í viku eins og þetta var en það hefur alveg dottið út eitt og eitt skipti og þá sérstaklega þegar það er leiðinda veður eins og verið hefur undanfarið.“

Þessi 100 ára gamli unglingur er ennþá að keyra. Hann er með gild ökuréttindi og er nýlega kominn úr sjónprófi sem staðfesti 80% sjón.

Heilsuefling Janusar hefur gert okkar manni gott. Hann er í flottu formi, gerir æfingar alla daga og er duglegur að hreyfa sig. Gunnar segir að það hafi svo sem ekki verið markmið að verða 100 ára. Þegar dætur hans ræddu þá staðreynd við hann að morgni afmælisdagsins að hann væri orðinn 100 ára, sagði hann: „Ég get svo svarið það“. Dæturnar eru með háleit markmið fyrir föður sinn og setja núna stefnuna á 110 ára afmælishátíð.

Eins og segir hér að framan er Gunnar sá sjötti í hópi núlifandi Suðurnesjamanna sem eru 100 ára eða eldri. Elst Suðurnesjafólks er María Arnlaugsdóttir f. 19.06.1921. Þá koma Georg Ormsson fæddur 11.08.1922, Sigurður Ingimundarson fæddur 05.09.1922, Guðný Nanna Stefánsdóttir fædd 16.10.1922 og Axel Þór Friðriksson fæddur 05.12.1922. Gunnar Jónsson er svo fæddur 07.05.1923.

Meðfylgjandi er safn mynda sem Páll Ketilsson tók í afmælisveislunni.

Aldarafmæli Gunnars Jónssonar 7. maí 2023