Til leigu (Skólamatur)
Til leigu (Skólamatur)

Mannlíf

Kennari í hálfa öld og kenndi þremur ættliðum
Laugardagur 8. október 2022 kl. 18:42

Kennari í hálfa öld og kenndi þremur ættliðum

Helga Sigríður Árnadóttir var kennari við skólann í Vogum í hálfa öld. Helga hóf kennslu 1955 og kenndi til 2004 og vantaði örfáa mánuði uppá að árin yrðu fimmtíu.

„Þetta voru góð og viðburðarík ár en ég hóf kennslu árið 1955. Þá var staðan öðruvísi en í dag og ekki eins mörg börn og færri kennarar en mjög gott,“ segir Helga Sigríður í samtali við Víkurfréttir.

Hefðbundinn skóladagur var bara venjulegur en ekki eins og í dag, segir Helga en skólinn var þá í Brunnastaðaskóla í Brunnastaðahverfinu.

Hvað varst þú að kenna?

„Ég kenndi bara almenna kennslu og þá helst yngri börnum en ég endaði ferilinn í heimilisfræðikennslu og hætti svo sem kennari árið 2004.“

Helga Sigríður náði þeim áfanga að kenna þremur ættliðum. Þegar hún er spurð um eitthvað eftirminnilegt á ferlinum, þá segist hún lítið muna af því í dag, nema að það hafi verið gaman að flytja í nýja skólann, Stóru-Vogaskóla, það hafi verið skemmtilegt og mikil bylting í skólastarfinu. „Svo var alltaf skólabíll sem keyrði á milli.“

Hvernig var að byrja að kenna í Brunnastaðahverfi á sínum tíma við þær aðstæður sem voru þá?

„Maður þekkti ekkert annað, svo maður lét sig hafa það.“

Hvað réði því að þú varðst kennari?

„Það vantaði kennara og ég var nýútskrifuð frá Kvennaskólanum og hljóp inn í þetta starf og svo þróaðist þetta svona og það teygðist aðeins á starfsferlinum, það má segja það,“ segir Helga Sigríður Árnadóttir, kennari í Vogum í hálfa öld.

Helga Sigríður segir að það séu margir eftirminnilegir nemendur og hún reyni að fylgjast með því hvert fólkið sem hún kenndi væri að stefna í lífinu og sagðist fylgjast vel með því sem væri að gerast í Vogunum. „Það er gaman að fylgjast með lífinu hér og gaman að hitta allt þetta fólk hér í þessari afmælisveislu skólans.“