Til leigu (Skólamatur)
Til leigu (Skólamatur)

Mannlíf

Leitar eftir fjárstuðningi til að verja heimsmeistaratitilinn
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
mánudaginn 20. janúar 2025 kl. 10:48

Leitar eftir fjárstuðningi til að verja heimsmeistaratitilinn

Víkurfréttir hafa rifjað upp mál Elínborgar Björnsdóttur að undanförnu en hún slasaðist illa í hræðilegu bílslysi fyrir fimm árum og hefur þarfnast stöðugrar umönnunar síðan. Ella er bundin við hjólastól og þarf að hafa starfsfólk með sér allan sólarhringinn – en Ella er ekki þekkt fyrir að gefast upp og á síðasta ári varð hún heimsmeistari kvenna í pílukasti fatlaðra og stefnir á að verja titilinn í ár.

„Ég fór í hitteðfyrra í fyrsta skipti í mót á Torremolinos á Malaga. Það var Evrópumeistaramót og ég lenti í öðru sæti þar og líka á síðasta ári,“ segir Ella sem ávann sér rétt til að keppa á heimsmeistaramótinu sem var haldið í ágúst í Skotlandi. „Annan ágúst varð ég heimsmeistari fatlaðra kvenna í pílukasti. Það er flottur titill að bera. Svo er ég að fara aftur til Torremolinos í apríl á þessu ári að taka þátt í Evrópumeistaramótinu.“

Það er fjárfrekt að keppa á erlendri grund, sérstaklega þegar fólk er í aðstöðu eins og Ella en auk þess að þurfa að kosta ferð og uppihald fyrir sjálfa sig verður hún að fjármagna kostnað við þrjá starfsmenn sem hún þarf að hafa með í slíka ferð. Elínborg segir að kostnaður við eina svona ferð sé 2,7 milljónir króna og með hjálp fyrirtækja og einstaklinga hafi hún getað farið í svona ferðir. Núna vantar töluvert upp á þá upphæð sem þarf og Ella leitar því á náðir almennings um styrkja ferðina.

„Já, af því að ég þarf að taka aðstoðarfólk með mér. Fyrir tvær vikur tek ég þrjár [starfskonur] með mér. Það þýðir flug og hótel fyrir fjóra og uppihald. Þannig að þetta kostar tvær komma sjö milljónir – og á örorkulaunum er mjög erfitt að ná þessu fram.

Núna vantar mig alveg eina komma níu milljónir upp á að komast í þessa ferð. Það er svo mikilvægt fyrir mig að geta slakað á í sólinni. Ég er með svo mikla taugaverki eftir slysið og hitinn hjálpar svo til við verkina. Þannig að þetta er mjög mikilvægt fyrir mig.“


Þeir sem sjá sér fært að styrkja góðan málstað geta lagt sitt að mörkum og greitt beint inn á styrktarreikning Ellu. Reiknisnúmerið er 0142-26-015247 og kennitala 110473-4949.