Langbest - velkomin
Langbest - velkomin

Mannlíf

Midnight Librarian heldur stórtónleika í Hljómahöll
Þorsteinn Helgi Kristjánsson og Diljá Pétursdóttir, söngvarar Midnight Librarian. VF-mynd: JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
fimmtudaginn 18. ágúst 2022 kl. 10:06

Midnight Librarian heldur stórtónleika í Hljómahöll

Hljómsveitin Midnight Librarian heldur sína árlegu tónleika í tónleikasalnum Bergi í Hljómahöll föstudaginn 26. ágúst næstkomandi. Á tónleikunum koma fram nærri tuttugu hljóðfæraleikarar svo það má sannarlega búast við stórtónleikum.

Midnight Librarian hélt tónleikana í Fjörleikhúsinu á síðasta ári en nú verða þeir haldnir í Bergi. „Við teljum að sá salur henti betur þar sem hann er sérstaklega hannaður fyrir tónlistarflutning,“ segja þau en öðru máli gegni um leikhúsið. „Þar er hljómburður þannig að fólk geti greint mælt mál af sviðinu, tónlistin verður því svolítið yfirþyrmandi – að maður tali ekki um þegar nærri þrjátíu söngvarar og hljóðfæraleikarar eru saman á sviðinu.“

Víkurfréttir settust niður með nokkrum meðlimum Midnight Librarian og ræddu við þá um hvernig síðasta ár hafi gengið hjá þeim en auk þess að gefa út sína fyrstu breiðskífu á síðast ári, plötuna From Birth Till Breakfast sem inniheldur ellefu lög, hafa orðið mannabreytingar á sveitinni og þau eru búin að vera dugleg að spila opinberlega.

Meðlimir hljómsveitarinnar eru nú orðnir átta talsins, nýr trommuleikari, Þórarinn Þeyr Rúnarsson, leysti Val Ingólfsson af hólmi en auk þess hefur söngkonan Diljá Pétursdóttir bæst í hópinn og hefur hún ekki síður kraftmikla söngrödd en Þorsteinn Helgi Kristjánsson sem þenur raddböndin með henni. Þau smellpassa hvort við annað eins og mátti sjá og heyra í laginu In my Lane sem var einmitt tekið upp „læf“ í Bergi í byrjun árs. Myndbandið má sjá í spilaranum neðst á síðunni.

Frá tónleikum Midnight Librarian í Fjörleikhúsinu á síðasta ári.


Hvað er framundan hjá ykkur, fyrir utan þessa tónleika í Hljómahöllinni?

„Við erum að fara að gefa út nýtt lag núna í lok þessarar viku, þann 19. ágúst, sem ber heitið 70 mph,“ segja þau. „Í stað þess að gefa út aðra breiðskífu þá ætlum við frekar að gefa út eitt og eitt lag í einu,“ bætir Steini söngvari við. „Það lifir lengur.“

„Framundan eru þessir árlegu tónleikar en við ætlum að hafa það að reglu að halda þá hér í okkar heimabyggð,“ segir Jón Böðvarsson, saxófónleikari sveitarinnar. „Svo verðum við að spila á Ljósanótt, ég held alla dagana,“ bætir hann við. „Svo verðum við líka á Airwaves en það er ekki komið á hreint á hvaða venues við verðum þar – það er allt í vinnslu.“

Tónleikarnir í Bergi, verða þeir á svipuðum nótum og þeir sem þið hélduð í Fjörleikhúsinu á síðasta ári?

Steini verður fyrir svörum og segir að uppbyggingin verði svipuð. „En við munum einnig spila nýtt efni og með okkur verða enn fleiri hljóðfæraleikarar en í fyrra. Það eru sennilega átján eða nítján manns með okkur – við munum flytja nýjar og stærri útsetningar af lögunum, strengjasveit, brass og bakraddir til stuðnings og fleira.“

Hafa orðið einhverjar áherslubreytingar á tónlistinni ykkar með tilkomu nýrra meðlima?

„Við höfum ekki verið að festa okkur í neinu sérstöku formi, við spilum bara það sem við höfum gaman af – ég myndi kannski segja að margt af þessu nýja væri kannski aðeins poppaðra en fyrra efni,“ segir Haukur Arnórsson, sem leikur á hljómborð, og gítarleikarinn Arnar tekur undir það. „Við erum samt enn einhverskonar blanda af poppi, R&B, fönki og djassi.“


Miðasala á tónleikana er hafin á tix.is en Midnight Librarian hélt tvenna tónleika í fyrra og seldist á þá báða auk þess sem lagið Funky Fresh komst á A-lista Rásar 2.