Til leigu (Skólamatur)
Til leigu (Skólamatur)

Mannlíf

Raven design í stöðugri sókn
Þriðjudagur 17. desember 2013 kl. 09:29

Raven design í stöðugri sókn

Jólin eru komin á vinnustofu Huldu Sveins og Hrafn Jónssonar enda stutt til jóla. Þar eru langir vinnudagar og margt að gera en handverkin verða öll til á vinnustofunni þeirra í frumkvöðlasetrinu í Eldey.

Pæling á bak við hvern óróa

Þau hafa hannað og framleitt jólaóróa úr við og plexígleri síðan 2004 og það kemur nýr jólaórói á hverju ári. Í ár er hann þjóðlegur og kallast „Ísland ögrum skorið“. „Það er alltaf mikil pæling eða saga á bak við hvern jólaóróa. Árið 2009 vorum við t.a.m. með Vonarstjörnu til að horfa fram á við og Ást og engla þar á eftir til að minna okkur á ástvinin allt í kring. Kærleikur var pælingin 2011 og í fyrra var það Jólasnjór, einstakur eins og við öll,“ segir Hulda. Í ár fannst þeim kjörið að hafa Ísland í nýjasta jólaóróanum enda ekki bara fallegt land heldur einstakt í lögun.

Jólatrén fást m.a. hjá WOW air

Þá eru jólasveinarnir þeirra úr við og koma núna til byggða einn af öðrum, Grýla ógnandi, Leppalúði töffarinn og Jólakötturinn sérlega illkvittinn svo að fólk verður að passa sig vel. Það nýjasta í plexígleri hjá þeim eru falleg borð-jólatré sem hægt er að fá í tveimur stærðum, bæði glær eða úr hömruðu plexígleri sem stirnir skemmtilega á í loga frá kertaljósi. „Það er gaman að segja frá því að þessi jólatré fast núna m.a. hjá WOW air ásamt öðrum vörum sem við erum að búa til hér á vinnustofunni okkar,“bætir Hulda við.

Byrjaði allt árið 1999

Þau hjónin byrjuðum með handverki árið 1999 en fyrirtækið Raven Design var formlega stofnað 2009. Þau sækja innblástur sinn aðallega til lögunar Íslands en einnig búa þau til glasabakka, ostabakka og kertastjaka í þremur útfærslum. Svo og servíettuhringi í lögun landsins úr hömruðu plexígler. Að auki gera þau skart svo sem hrafnahálsmen og Íslanshálsmen úr plexígleri og einnig armbönd og fleira úr leðri.

Þau Hulda og Krummi senda bestu þakkir til allra sem hafa stutt þau á handverksferðalagi sínu. „Raven Design er í stöðugri sókn og kúnnar okkar eiga sérstakar þakkir fyrir allar stuðninginn,“ segir Hulda að lokum.