Mannlíf

Sprenghlægilegur farsi í Frumleikhúsinu
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
fimmtudaginn 4. febrúar 2021 kl. 11:10

Sprenghlægilegur farsi í Frumleikhúsinu

Hvað gerir taugaskurðlæknir þegar gömul hjásvæfa hans mætir, óumbeðin, rétt áður en hann á að flytja mikilvægasta fyrirlestur ferilsins og tilkynnir honum það að hann eigi fullvaxta son? Af hverju er löggan komin í málið? Af hverju grettir Grettir Sig sig? Hvað ætli Súsanna, konan hans, segi? Hvað er Páll Óskar að gera þarna? Hver er Loftur? Hvað er málið með Mannfreð og Gróu? Hvar er yfirdeildarhjúkrunarfræðingurinn?

Leikfélag Keflavíkur setur upp sprenghlægilega gamanleikinn Beint í æð í leikstjórn Jóels Sæmundssonar í þýðingu Gísla Rúnars Jónssonar. Frumsýning er föstudagskvöldið 5. febrúar í Frumleikhúsinu við Vesturbraut. Miðasala hefst 2. febrúar á tix.is

Vegna aðstæðna og sóttvarnarreglna í samfélaginu eru aðeins 100 miðar í boði á hverja sýningu og þurfa gestir að sitja í númeruðum sætum. Leikfélagið mun sjá til þess að tveir metrar séu á milli allra hópa og því vill leikfélagið hvetja hópa til að panta miða saman svo hægt sé að tryggja að allir fái sæti saman.

Æfingar á farsanum hófust í haust og hafa æfingar gengið vel þrátt fyrir allt. Um tíma var æft í gegnum netið en um leið og slakað var á tíu manna samkomubanni og fólki í sviðslistum gefið tækifæri á æfingum fór verkefnið á fullt að nýju.

Beint í æð er önnur uppfærsla leikstjórans Jóels Sæmundssonar fyrir Leikfélag Keflavíkur. Síðasta verk var Mystery Boy eftir Smára Guðmundsson sem fór alla leið á fjalir Þjóðleikhússins sem áhugaleiksýning ársins 2017–2018.

Öllum gestum, sem og starfsfólki, er skylt að vera með andlitsgrímu. Gestir mæta með eigin grímu ef kostur gefst en ef ekki þá verða grímur útvegaðar á staðnum. Engin veitingasala er á staðnum.

Í spilaranum með fréttinni í rafrænu útgáfu Víkurfrétta má sjá og heyra viðtal við Jóel Sæmundsson, leikstjóra, og Sigurð Smára Hansson, formann LK, og leikara í sýningunni.

Nánari upplýsingar um sýningartíma og miðapantanir má sjá í auglýsingum á vef Víkurfrétta.