Pistlar

Camp Vail á Þorbirni
Jón Steinar Sæmundsson
Jón Steinar Sæmundsson skrifar
sunnudaginn 4. júlí 2021 kl. 07:24

Camp Vail á Þorbirni

Það vita það kannski ekki allir að uppi á Þorbirni, fjalli okkar Grindvíkinga, var á tímum seinni heimsstyrjaldarinnar starfrækt ratsjárstöð á vegum bandaríska flughersins. Framkvæmdir við stöðina hófust með vegalagningu upp á Þorbjörn í byrjun október 1941 og hófst starfsemin 18. apríl 1942.

Stöðin var staðsett í gígnum eða hvilftinni uppi á miðju fjallinu. Vegna legu sinnar sýndi ratsjárstöðin á Þorbirni allra stöðva best flugvélar í lágflugi á Faxaflóasvæðinu. Truflanir voru þó tíðar og stöðin nýttist ekki nema 60% vegna þess hve oft varð að fella loftnetið sökum veðurofsa.

Ratsjárstöðin var nefnd Camp Vail eftir liðsmanni ratsjársveitarinnar Reymond T. Vail, sem var fyrsti óbreytti bandaríski hermaðurinn sem lést hér á landi.

Ekki er mikið eftir af þeim byggingum sem þarna stóðu. Þó má sjá þarna eldstæði uppistandandi ennþá og leifar af grunnum og tóftir.