Vetrarvertíðin hafin
Þegar þessi pistill kemur fyrir sjónir ykkar lesendur góðir þá er árið 2025 hafið og það þýðir að vetrarvertíðin árið 2025 er líka hafin.
Förum samt sem áður aðeins í lokadagana árið 2024 en það voru nokkrir bátar sem fóru á sjóinn milli hátíða. Reyndar fór enginn netabátur á sjóinn milli hátíða en það eru nú einungis netabátarnir sem eru í Keflavík og Njarðvík, eins og Halldór Afi KE, Addi Afi GK, Sunna Líf GK, Svala Dís KE og Erling KE.
Í Sandgerði fóru Nesfisks dragnótabátarnir á sjóinn en veiðin hjá þeim var frekar treg. Siggi Bjarna GK kom með um 1,5 tonn í land og Benni Sæm GK um 2,4 tonn.
Aftur á móti var nokkuð góð veiði hjá línubátunum og þegar þessi pistill er skrifaður þá er einn bátur á sjó, Margrét GK og reyndar er það þannig að Margrét GK var eini báturinn á öllu landinu sem var á veiðum yfir þessa nótt fram að 31. desember. Allir aðrir bátar voru í landi, nema nokkrir togarar sem eru á landleið núna eftir að hafa skotist út milli hátíða.
Óli á Stað GK fór í eina löndun og kom með um 14 tonn í land og Margrét GK kom með um 10 tonn. Fróðlegt verður að sjá hvað Margrét GK kemur með úr síðustu sjóferðinni árið 2024.
Þórkatla GK fór í sinn fyrsta róður en þessi bátur er búinn að vera í eigu Stakkavíkur ehf. í hátt í tuttugu ár og mest allan þann tíma undir nafninu Rán GK, Þórkatla GK kom með um 2.5 tonn í land.
Það má alveg búast við því að veiðin hjá bátunum verði mjög góð á vertíðinni og reyndar munu 29 metra togararnir hanga á fiskislóðinni beint út af Sandgerði því eins og ég hef skrifað um áður þá beygir þriggja mílna línan þar út og fer beint yfir Faxaflóann. Lítill sem enginn hluti af þeim afla sem þar veiðist kemur á land á Suðurnesjum, nema það sem Pálína Þórunn GK veiðir. Sturla GK var líka þarna oft á veiðum en núna er búið að selja Sturlu GK til Grundarfjarðar og mun Sturla GK fá nafnið Guðmundur SH, mun hann koma í staðinn fyrir 29 metra togarann Hring SH sem hefur verið gerður út frá Grundarfirði síðan árið 2005.
Aðeins varðandi þennan Hring SH. Þegar sá togbátur eða togari kom var hann að koma í staðinn fyrir mun stærri togara sem hét Hringur SH en sá togari var pólsk smíðaður togari og átti sér tvo systurtogara, annar var Klakkur VE og síðar SH, hinn var togari sem var lengi vel þekktur á Suðurnesjunum og sérstaklega í Sandgerði, Ólafur Jónsson GK. Hann var jafnframt eini af þessum þremur togurum sem var lengdur og saga hans endaði þegar að Haraldur Böðvarsson tók yfir Miðnes hf. og lagði allt niður og bátar og Ólafur Jónsson GK hurfu frá Suðurnesjunum.
Annars nýtt ár komið og óska ég ykkur gleðilegs nýs árs.