Pistlar

Heilbrigð skynsemi
Föstudagur 10. janúar 2025 kl. 06:42

Heilbrigð skynsemi

Nýtt ár gengið í garð. 2025. Nýtt upphaf að mörgu leyti. 365 óskrifaðar blaðsíður. Svo sem engin sérstök áramótaheit þetta árið, önnur en heilbrigð skynsemi.

Sofna fyrr, vakna fyrr. Hreyfing þrisvar í viku. Sama á við um útiveru. Endurnýta og spara. Feng shui-a heimilið, út með alla óþarfa hluti. Minnka skyndibita og skjátíma. Og sykur og gos. Oftar í sund. Læra eitthvað nýtt og uppbyggilegt. Kannski uppgötva nýja hæfileika. Lesa meira. Lifa í núinu, jafnvel hugleiða. Huga að umhverfinu, minnka mengun. Eyða minna. Stíga út fyrir þægindarammann. Ferðast og kanna nýjar slóðir. Kynnast nýju fólki. Ég meina… bara kommon sense.

Betra skipulag og aukin vatnsdrykkja. Vikumatseðlar og framandi uppskriftir, ekki bara hakk og spaghettí. Koma heimilisþrifum í rútínu. Mæta í ræktina, ekki nóg að borga bara mánaðargjöldin. Ganga stiga í stað þess að taka lyftuna. Samvera og gæðastundir í fyrirrúmi. Heimsækja ömmu og afa. Regluleg deit með maka. Jákvæðni og gleði. Þakklæti. Hreinskilni. Hrós. Muna að setja mörk. Elta draumana.

Slökun.

Með því að fylgja þessa einfalda plani verða áramótaheit að öllu óþörf. Gleðilegt nýtt ár!