Lokaorð
Er hægt að verða svo samdauna umhverfi sínu að sögulegir atburðir bara renni framhjá í dagsins önn og þyki hversdagslegir? Eftir þrjú eldgos á Fagradalsfjalli á árunum 2020–2023 gaus á Sundhnúksgígaröðinni rétt fyrir utan Grindavík þann 18. desember 2023. Grindavíkurbær hafði um mánuði áður verið rýmdur. Eldgosið varði í þrjá daga.
Á árinu sem nú er að líða hefur gosið alls sex sinnum á Sundhnjúksgígaröðinni. Eldgosin hafa varað í 142 daga, eða rétt tæpa fimm mánuði. Eldgosin sjö hafa á þessu rétt rúma einu ári flutt 217 milljónir rúmmetra af efni til jarðar og þakið um 48,4 ferkílómetra landsvæðis.
Þetta svona um það bil jafngildir því að ríflega 4 metra þykkt lag af efni hafi verið smurt yfir allan Reykjanesbæ og Keflavíkurflugvöll meðtalinn. Enginn núlifandi Íslendingur hefur upplifað fleiri eldgos á einu ári og engar sögulegar heimildir benda til þess að oftar hafi gosið á einu ári á Íslandi en akkúrat þessu ári sem er að líða.
Þessi eldgosahrina er svo mögnuð að mín skoðun er sú að hún hafi fellt heila ríkisstjórn. Á einu kjörtímabili sem að öllu jöfnu spannar 4 ár, þá þurfti sú ríkisstjórn sem kvaddi um síðustu mánaðamót að eiga við á einu kjörtímabili, einn heimsfaraldur og brottflutning á einu fjögur þúsund manna bæjarfélagi. Þetta er kannski ekki merkilegra en svo að það er hægt að koma þessu fyrir í einni setningu. Það hljómar kannski ekki mikið mál fyrir okkur sem ekki þurftu að taka þátt í að rífa upp heilt bæjarfélag og dreifa þeim um landið. Nýr skóli, ný vinna, nýtt húsnæði. Bæjarfélag sem var eitt það best stæða á landinu, blómstrandi útgerðarbær. Það tókst að setja upp félag til að kaupa upp eignir og koma flestum í skjól á innan við einu ári. Það var vel gert.
Þar sem langtímaminni okkar er í besta falli lélegt og skammtímaminnið oft viðlíka og hjá gullfiskum þá eru væntanlega allir íbúar Suðurnesja búnir að gleyma 8. febrúar síðastliðnum. Það gos stóð svo stutt. Þetta hitavatnsleysi stóð nú bara í viku. Og rafmagnsskömmtun, við höfum bara gott af því. Hver ætti svo sem að muna eftir húsunum sem brunnu í beinni útsendingu þann 14. janúar. Það þótti svo ekkert sérlega merkilegt að 300 bíla stæði við Bláa lónið færi undir hraun um síðustu mánaðamót. Iss, bara eitt bílastæði, hvað er það milli vina. Þeir gerðu bara nýtt á tíu dögum.
Fyrir akkúrat einu ári síðan var verið að telja dagana þangað til Grindvíkingar fengju að snúa aftur heim. Vonandi bíður þeirra sama hlutskipti og Vestmannaeyinga fyrir 50 árum. Að þeir sem kjósa svo geti snúið aftur heim. Að bærinn muni blómstra á ný.
Þess væri óskandi að móðir náttúra héldi sig til hlés á nýju ári. Engar valkyrjur standast henni snúning. Þær eru komnar til að sjá og sigra, Sigurjón digra.
Gleðilegt nýtt ár.