Pistlar

Dragnótaveiðin ennþá mjög góð í Faxaflóa
Gísli Reynisson
Gísli Reynisson skrifar
föstudaginn 20. september 2024 kl. 06:09

Dragnótaveiðin ennþá mjög góð í Faxaflóa

September er hálfnaður og ennþá er mjög rólegt hjá færabátunum, þeir hafa þó aðeins komist á sjóinn núna síðustu vikuna en þó ekki margir bátar því þeir eru aðeins þrír sem hafa landað. Dímon GK hefur farið í tvo róðra og landað 1,7 tonni og af því er ufsi um 1,2 tonn, Séra Árni GK hefur farið í einn róður og kom með 704 kíló og var ufsi af því 664 kíló og Guðrún GK hefur farið í tvo róðra og landað 2,6 tonnum, af því er ufsi 1,6 tonn.

Rækjutímabilinu hjá Pálínu Þórunni GK er lokið því togarinn kom til Sandgerðis fyrir nokkrum dögum síðan. Var togarinn með 33 tonna afla og hafði þar á undan landað á Siglufirði. Heildaraflinn hjá Pálínu Þórunni GK það sem af er september er kominn í 73 tonn og af  því er rækja 12 tonn.

Sóley Sigurjóns GK er áfram á rækjuveiðum og hefur landað 107 tonnum í tveimur róðrum, af því er rækja 29 tonn. Togarinn Sturla GK hefur verið að landa í Grindavík og hefur komið þangað með 149 tonn í þremur löndunum og mest 73 tonn í einni löndun.

Eins og greint var frá í fjölmiðlum fyrir nokkru síðan þá hefur verið ákveðið að skipta fyrirtækinu Þorbirni ehf., sem gerir út Sturlu GK, í þrjú fyrirtæki. Einn hluti mun gera Sturlu GK út, annar Hrafn Sveinbjarnarson GK og sá þriðji Tómas Þorvaldsson GK. Öll þessi þrjú skip eru með svipað magn af kvóta, eða um 5.000 til 6.000 tonna kvóta miðað við þorskígildi.

Þorbjörn ehf. er ekki með neina fiskvinnslu í Grindavík og því er aflinn af Sturlu GK ýmist seldur á fiskmarkaði eða að karfinn er sendur utan í gámum til sölu þar.

Hrafn Sveinbjarnarson GK kom líka til Grindavíkur en með lítinn afla, aðeins 71 tonn. Aðrir togarar eru t.d. Áskell ÞH sem er með 175 tonn í tveimur löndunum, landað í Hafnarfirði, Jóhanna Gísladóttir GK með 171 tonn í þremur löndunum, landað á Djúpavogi og Grindavík, og Vörður ÞH með 167 tonn í tveimur löndunum, landað í Hafnarfirði.

Enn sem komið er þá eru aðeins þrír bátar á netaveiðum, allir eru þeir að landa í Keflavík og allir að veiða fyrir Hólmgrím. Sunna Líf GK komin með 8,1 tonn í þremur róðrum og mest 3,5 tonn, Svala Dís KE 7,5 tonn í fjórum róðrum og Addi Afi GK 7 tonn í fjórum róðrum.

Dragnótaveiðin er ennþá mjög góð í Faxaflóanum og Ásdís ÍS er ennþá hæst af bátunum, komin með 151 tonn í ellefu róðrum, landar í Keflavík, Stapafell SH er með 115 tonn í sjö róðrum og landar í Reykjavík og Aðalbjörg RE 94 tonn í sex róðrum, líka að landa í Reykjavík.

Siggi Bjarna GK 112 tonn í átta róðrum og Benni Sæm GK 77 tonn í sex, báðir að landa í Sandgerði. Maggý VE er líka í Sandgerði en vegna þess að báturinn er lengri en 24 metrar þá má Maggý VE ekki veiða inni í Faxaflóanum. Báturinn hefur verið við veiðar við Hafnarbergið og hefur landað 62 tonn í sex róðrum.

Sigurfari GK er að verða klár í slippnum í Njarðvík en báturinn er búinn að vera þar síðan í júní. Mjög stór kvóti er á Sigurfara, eða um 3.400 tonna kvóti og af því er um 2000 tonn af ýsu. Reyndar eru allir bátarnir frá Nesfiski nema Margrét GK með kvóta sem síðan er færður á milli skipanna og þar á meðal frystitogarinn Baldvin Njálsson GK.

Margrét GK er ennþá á Hólmavík en sá bátur er með stærsta þorskkvóta krókabáta á landinu, um 1.277 tonn. Núna í september hefur báturinn landað 36 tonnum í sjö róðrum á Hólmavík og mest 7,8 tonn í róðri.