Pistlar

Ég var búin að segja þér þetta!
Föstudagur 5. janúar 2024 kl. 06:04

Ég var búin að segja þér þetta!

Áramótin liðin og rétt að rifja upp hvað það var sem stóð upp úr á liðnu ári. Þetta var held ég ekkert sérstakt ár ef maður lítur á stóru myndina. Eilíft rifrildi á stjórnarheimilinu, stýrivaxtahækkanir, og eldgos. Nei. Þetta var ekkert sérstakt ár líti maður til þeirra frétta sem birtust í fjölmiðlum en auðvitað er alltaf eitthvað  sem gerist í lífi hvers manns á hverju ári. Þannig var það líka hjá mér.

„Ég var búin að segja þér þetta,“ er setning sem ég hef heyrt oftar og oftar undanfarin ár. Venjulega hefur það verið konan sem hefur sagt þessa setningu. Þá hefur eitthvað verið að gerast sem ég hef átt að vita af, en einhvern veginn ekki komist til skila. Þegar þessi staða hefur komið upp hef ég venjulega gripið til  þeirra raka að hún hafi sennilega bara gleymt að segja mér þetta. Það hefur aldrei virkað, heldur hefur mér verið bent á að taka betur eftir, eða jafnvel láta mæla í mér heyrnina.

Mér fannst nú kannski aðeins of mikið í lagt þó hún hefði gleymt að segja mér eitthvað, að það þýddi að ég ætti að láta mæla í mér heyrnina en eins og alltaf, gerði ég eins og mér var sagt. Pantaði mér tíma í íslenska heilbrigðiskerfinu og bíð enn bara rólegur. Áfram hélt konan að gleyma að segja allskonar mikilsverða hluti.

Nýlega átti ég svo leið inn í verslunarmiðstöð erlendis. Þar var svona verslun sem bæði auglýsti sjónmælingar og heyrnarmælingar. Fannst tilvalið að athuga hvort ég gæti eitthvað hjálpað íslensku heilbrigðisþjónustunni og fækkað eitthvað á biðlistanum eftir þjónustu. Pantaði mér tíma hjá heyrnalækninum og sagt að koma fimm dögum seinna.

Þegar ég mæti er ég tekinn í allherjar prufu, teknar myndir inn í eyrun á mér sem ég gat fylgst með á skjá. Þetta leit allt vel út, en svo kom að heyrnarprófinu sjálfu. Hann sendi allkonar hljóð inn í eyrað á mér sem ég fannst ganga vel að heyra. Var sannfærður um að ég hefði staðið mig vel og heyrninn væri nánanst hundrað prósent og gæti fært frúnni þær góðu fréttir. Það væri ekkert að heyrninni hjá mér, heldur væri það minnið hjá henni. Þannig var það ekki.

Læknirinn kallaði fram mynd af niðurstöðu rannsóknarinnar. Niðurstaðan var sú að það voru allskonar hljóð sem ég heyrði ekki og hafði sennilega ekki heyrt lengi. Verð að að viðurkenna að ég varð heldur framlágur þarna inni í stutta stund. Læknirinn lagði til að ég myndi prófa að nota heyrnartæki. Ég féllst á það og hann setti upp heyrnartæki og svo app í símann. Nú gæti ég stjórnað því sem ég heyrði, þyrfti ekki framar að óttast að einhver talaði í bakið á mér.

Meðan á öllu þessu stóð hafði konan sest niður á veitingastað í verslunarmiðstöðinni. Pantað sér hvítvínsglas sigurviss um að nú væri stund sannleikans runnin upp. Ég kom út frá heyrnarlækninum, tók eftir að hávaðinn var heldur meiri og það sem ég hafði haldið að væru hljóðværir fuglar voru nú byrjaðir að syngja hástöfum. Gekk heldur undrandi til hennar á meðan ég var að uppgötva öll þessi nýju hljóð. Hún spurði: „Hvernig gekk?“ Ég svaraði: „Læknirinn sagði að ég væri nánast heyrnarlaus, hann vill  að ég fari að nota heyrnartæki.“  „Ég var búin að segja þér þetta,“  sagði hún, vonandi í síðasta sinn. Árið 2023 var árið sem ég fékk heyrnina aftur. Það á eftir að koma í ljós hvort það er gott eða slæmt.