Pistlar

Kill them with kindness!
Föstudagur 27. september 2024 kl. 06:02

Kill them with kindness!

Á hvaða leið erum við? Undanfarnir mánuðir og jafnvel ár hafa sýnt okkur að við erum ekki á þeirri leið sem við helst vildum vera. Átakanlegir atburðir hafa orðið til þess að við erum nú neydd til að horfa inn á við og gera upp við okkur hver við viljum vera og hvernig við viljum vera sem þjóð.

Við erum farin að gera óhollar kröfur til okkar sjálfra og þeirra sem í kringum okkur eru. Vandamálin einskorðast ekki við unga fólkið, heldur samfélagið allt. Efnishyggjan og tæknin hefur tekið yfir líf okkar, um leið og tíminn til að sinna hvort öðru hefur minnkað. Við tölum varla saman, eða hittumst nema í gegnum tölvupóstsamskipti , Tik Tok eða á Facetime.

Nýkjörinn forseti, Halla Tómasdóttir, hefur vakið máls á stöðunni. Hún vill fara nýjar leiðir, knúsa hvert annað um leið og við förum að hlusta betur á hvert annað og sýna  meiri skilning. Hún vill beita nýju vopni í baráttunni, því máttugasta af þeim öllum. Kærleiknum.

Það krefst æfingar að beita slíku vopni. Við þurfum að láta af allskonar dómhörku í garð náungans. Átta okkur á að hans upplifun af lífinu kann að vera allt önnur er okkar. Læra að virða  það. Komum fram við aðra eins og við viljum að komið sé fram við okkur.

Lífið þarf ekki alltaf að vera flókið. Við getum með sameiginlegri lífssýn breytt samfélagi okkar til betri vegar. Verið góð hvert við annað og sýnt hvort öðru virðingu í öllum gjörðum okkar. Við getum líka breytt þeim sem ekki vilja gangast undir sameiginlega sáttmála okkar. Kill them with kindness.