Pistlar

Kódasystur
Föstudagur 20. september 2024 kl. 06:07

Kódasystur

Ég las þær stórfréttir á vef Víkur­frétta í vikunni að þær Kódasystur, Kristín og Hildur, væru að undirbúa sölu á versluninni Kóda sem þær hafa rekið með glæsibrag í áratugi. Þetta eru sannalega stórfréttir. Kóda er einfaldlega samofin Hafnargötunni, lítil stórverslun sem hefur sýnt það og sannað að viðskiptamódel sem byggt er á góðri og persónu­legri þjónustu, fjölbreyttu vöruúrvali og sanngjörnu verði svínvirkar. Þrátt fyrir harða samkeppni við höfuðborgarsvæðið og vefverslanir í gegnum tíðina hafa viðskiptavinir Kóda haldið tryggð við verslunina og þær systur.

Já, þær systur. Ég hef þekkt þær nánast allt mitt líf, var barnapía hjá þeim báðum á unglingsárunum – sem er auðvitað sturlað þar sem börnin þeirra eru litlu yngri en ég! Svo hef ég auðvitað verslað við þær í gegnum árin, skvísufötin á Kvennaskólaárunum komu vel flest úr þeirra smiðju og ég man líka eftir nokkrum verslunarferðum til Keflavíkur með skólasysturnar úr höfuðborginni. Alltaf var tekið á móti manni með bros á vör, góðu spjalli og mikilli þjónustulund. Aldrei neitt mál.

Ég vona svo innilega að það finnist góður kaupandi að versluninni og að hún haldi áfram um ókomin ár. Ég er líka sammála þeim systrum að ekki væri verra að sá eða sú væri af svæðinu og þekkti taktinn og söguna.

Og við hin berum líka ábyrgð – þau sem búa á svæðinu og einnig við hin sem erum flutt en höfum sterkar rætur og órjúfanleg tengsl við Suðurnesin. Við verðum að passa upp á að styðja við verslanir og fyrirtæki á svæðinu og hjálpa þeim að blómstra.

Við Kristínu og Hildi segi ég bara „stórt takk“ – megi ykkur farnast sem allra best!