Pistlar

Kosningasprettur
Föstudagur 18. október 2024 kl. 07:45

Kosningasprettur

Þegar þetta er skrifað liggur ekki fyrir hvenær kjördagur verður, en ef fer fram sem horfir verður kosið til Alþingis fyrir lok nóvember.

Það er sannkallaður kosningasprettur og allir flokkar og væntanlegir frambjóðendur á yfirsnúningi við undirbúning og skipulagningu næstu sex vikna. Hafandi farið í gegnum nokkrar kosningabaráttur sjálf í gegnum tíðina þekki ég að þarna er að ýmsu að hyggja og að það er metnaðarfullt að ætla svo stuttan tíma. En á móti kemur að eins og ekki hefur farið framhjá neinum þá er kosningabaráttan í raun löngu byrjuð, a.m.k. hjá sumum, þannig að það er kannski bara gott fyrir okkur kjósendur að það verði hraðspólað að þessu sinni og málið klárað fyrir jól.

Það er nefnilega ekki alltaf best að hafa mikinn tíma til að klára eitthvað verkefni og oft vinnur maður einfaldlega langbest undir pressu. (Ef þið lofið að segja sonum mínum ekki frá, þá var það nú oft þannig þegar ég var í skóla að ég vann bara undir pressu!). Nú nefnilega skiptir mestu máli að einbeita sér að mikilvægum málum, flokkarnir þurfa að velja á lista, skerpa línur og leggja fyrir kjósendur skýra stefnu. Ég veit að það er gott fólk í öllum flokkum og leyfi mér að fullyrða að flest þeirra sem gefa kost á sér til stjórnmálaþátttöku gera það vegna þess að þau vilja láta gott af sér leiða, vilja breyta heiminum til hins betra.

Góðu fréttirnar eru að núna er enginn tími fyrir einhverja vitleysu, tíminn er svo knappur að einungis mikilvægustu málin komast að. Eða hvað? Slæmu fréttirnar eru að þetta þarf ekki að vera svona einfalt og eins og við þekkjum úr sögunni verða ótrúlegustu, oft ómerkilegustu, málin að stóru kosningamálunum. Stjórnmál geta verið klækjaleikur og stjórnmálamenn spila til að vinna.

Nú tek ég það skýrt fram að ég er hætt allri þátttöku í stjórnmálum og geri mig þar að auki alls ekki út fyrir að vera sérstakur stjórnmálaskýrandi. Ég hef bæði rifist í stjórn og stjórnarandstöðu. Nú er ég hins vegar bara kjósandi og horfi á stjórnmálin með þeim augum. Það sem mig langar að sjá í þessari kosningabaráttu eru málefnalegar umræður um ólíkar áherslur og lausnir á þeim málum sem brenna á kjósendum. Ég vil sjá minni æsing og meiri virðingu fyrir mótframbjóðandum þegar tekist er á. Það má hitna í kolunum – skárra væri það nú – en uppnefni og skítkast eru afþökkuð. Ég vil sjá skýra sýn og metnað.

Ísland er frábært land og kannski þvert á það sem maður gæti haldið þegar horft er á fréttir, þá stendur það framarlega á velflestum sviðum þar sem lönd eru borin saman. Það er alltaf hægt að gera betur, til dæmis þarf að huga að framtíðinni og menntun barnanna okkar og finna leiðir til að koma okkur þar í fremstu röð á meðal þjóða. Og svo mætti lengi telja.

Kannski bara að góður kosningasprettur komi okkur farsællega í mark – mikið vona ég það.