Netabátunum fjölgar
Þá er maður staddur á Egilsstöðum þegar þessi pistill er skrifaður og kannski ekki mikið hægt að tengja Egilsstaði við sjávarútveginn á Suðurnesjum. Ekki nema varðandi Egilsstaðaflugvöll, því núna eru Einhamarsbátarnir allir þrír á veiðum við Austurlandið og áhafnir bátanna fljúga af og til og frá Egilsstöðum.
Annars hafa Einhamarsbátarnir róið frekar lítið núna í september. Heildaraflinn hjá þeim kominn í 275 tonn og er Auður Vésteins SU hæst með 136 tonn í sautján róðrum. Hann er líka sá bátur af þeim sem oftast hefur róið. Gísli Súrsson GK er með 77 tonn í níu og Vésteinn GK með 62 tonn í sex róðrum.
Fjölnir GK (með danska ö-inu) er líka á Austfjörðum og er kominn með 129 tonn í þrettán róðrum og mest 19,7 tonn í einni löndun.
Stakkavíkurbátarnir eru svo til allir á Skagaströnd og hafa landað þar 400 tonnum, þeir hafa róið nokkuð stíft og hæstur af þeim er Óli á Stað GK sem er kominn með 162 tonn í nítján róðrum. Hópsnes GK með 101 tonn í átján róðrum, Geirfugl GK 75 tonn í þrettán og Gulltoppur GK 61 tonn í ellefu róðrum.
Þeim fjölgar netabátunum. Núna er Hólmgrímur kominn með fimm báta sem eru að veiða fyrir hann. Þetta eru Addi Afi GK, Sunna Líf GK, Svala Dís KE, Hraunsvík GK og Neisti HU en Neisti HU er búinn að landa 19 tonnum í þrettán róðrum. Allir bátarnir landa í Keflavík.
Þessi bátur, Neisti HU, er nokkuð merkilegur því hann er einn af mörgum stálbátum sem voru smíðaðir í Bátalóni í Hafnarfirði. Báturinn mælist um sautján tonn og er tólf metra langur. Þó nokkuð margir bátar eins og Neisti HU voru smíðaðir og nokkrir af þeim voru í útgerð á Suðurnesjunum, t.d. Bjarni KE og Askur GK.
Neisti HU hefur aftur á móti haldið sínu nafni og HU merkingunni núna í hátt í 30 ár, sem er vægast sagt mjög óvenjulegt. Heimahöfn bátsins hefur öll þessi 30 ár verið Hvammstangi. Þar var báturinn meðal annars á rækjuveiðum í Húnaflóanum.
Reyndar er það nú þannig að af þessum fimm bátum sem eru að veiða fyrir Hólmgrím þá eru þrír plastbátar og tveir stálbátar, því Hraunsvík GK er líka stálbátur eins og Neisti HU. Stundaði báturinn líka rækjuveiðar en Hraunsvík GK gerði það þegar báturinn hét Gunnvör ÍS og reyndar stundaði báturinn líka humarveiðar undir þessu nafni og landaði þá í Vestmannaeyjum.