Pistlar

Nýr togari að koma til landsins
Hulda Björnsdóttir GK-11. Ljósmynd: Eva Björk
Gísli Reynisson
Gísli Reynisson skrifar
föstudaginn 18. október 2024 kl. 07:15

Nýr togari að koma til landsins

Október orðinn hálfnaður og veðurfarslega séð er hann búinn að vera mjög góður. Bátar hafa komist nokkuð duglega á sjóinn og þar á meðal nokkrir handfærabátar frá Sandgerði. Sumir þeirra hafa farið út fyrir Eldey og verið þar að eltast við ufsann. 

Tveir bátar hafa verið hvað atkvæðamestir í því, það eru Dóra Sæm HF sem hefur landað um 8,4 tonnum í fjórum róðrum og mest 4 tonnum í róðri, af þessum afla er ufsi rúmlega 6 tonn. Hinn báturinn er Séra Árni GK sem er kominn með 6,5 tonn í þremur róðrum og mest 3,8 tonn í róðri, af þessum afla þá er ufsi um 4,8 tonn. Aðrir færabátar eru með undir einu tonni í afla, nema Guðrún GK sem er komin með 2 tonn í fjórum róðrum.

Netabátarnir sem allir eru á veiðum frá Keflavík, og eins og hefur komið fram þá eru þeir að veiða fyrir Hólmgrím, hafa veitt mjög vel það sem af er október. Addi Afi GK er kominn með 22,2 tonn í tíu róðrum og mest 4,7 tonn í róðri, Sunna Líf GK 20 tonn í tíu róðrum og mest 3,2 tonn, Svala Dís KE 8,8 tonn í fimm róðrum og Neisti HU með 10 tonn í tíu róðrum.

Dragnótabátarnir eru flestir ennþá á veiðum inn í Faxaflóa, Siggi Bjarna GK er kominn með 107 tonn í átta róðrum og mest 20,4 tonn í róðri, Benni Sæm GK með 75 tonn í átta róðrum og mest 20,5 tonn í róðri, Maggý VE með 46 tonn í sjö róðrum en báturinn hefur verið að landa í Sandgerði og Þorlákshöfn.

Sigurfari GK er svo kominn á veiðar eftir nokkuð langt stopp, báturinn fór í slipp í byrjun júní og var því frá veiðum í um fjóra mánuði. Hann og Maggý VE eru ekki á veiðum inn í Faxaflóa því vegna lengdar bátanna hafa þeir ekki leyfi til að veiða þar en leyfi þar miðast við 24 metra langa báta. Sigurfari GK er búinn að landa tvisvar sinnum um 12 tonnum.

Annars er nýr togari að koma til landsins og er það togari sem er í eigu Þorbjarnar hf. í Grindavík.  Sá togari heitir Hulda Björnsdóttir GK 11. GK 11 er nokkuð þekkt því fyrir um 50 árum síðan var fyrirtækið Þorbjörn hf. sem var þá ekki eins og það er í dag, það gerði út nokkra báta og þar á meðal þrjá báta sem allir hétu sama nafninu; Hrafn Sveinbjarnarson. Það voru Hrafn Sveinbjarnarson GK, Hrafn Sveinbjarnarson II GK og Hrafn Sveinbjarnarson III GK, sá bátur var GK 11 og hafði skipaskrárnúmerið 103. Sá bátur átti sér mjög langa sögu í Grindavík og var gerður út þaðan í hátt í 25 ár. Árið 1988 strandaði báturinn við Hópsnes við Grindavík og þegar ekið er út á Hópsnes og ekinn hringurinn þar, má sjá hluta af stálskrokki báts, það eru leifarnar af Hrafni Sveinbjarnarsyni III GK 11. Það er nokkuð merkilegt með þetta flak þarna á Hópsnesi að blái liturinn sem var á bátnum heldur sér ennþá.

Þorbjörn keypti annan bát árið 1988 eftir strandið og var það loðnubáturinn Magnús NK frá Neskaupstað. Sá bátur fékk nafnið Hrafn Sveinbjarnarson III GK 11 en hann var ekki með því  nafni lengi því að í september árið 1988 fékk báturinn nafnið Valaberg GK 399.

Allavega, þá er GK 11 aftur komið í gang en nafnið á togaranum kemur frá Huldu Björnsdóttur sem var gift Tómasi Þorvaldssyni en hann var einn af stofnendum Þorbjarnar í Grindavík árið 1953. Hulda lést árið 2008. Þess má geta að fyrirtækið gerir út frystitogara sem heitir Tómas Þorvaldsson, hann er GK 10.