Pistlar

Nýtt fiskveiðiár er hafið
Gísli Reynisson
Gísli Reynisson skrifar
föstudaginn 13. september 2024 kl. 06:06

Nýtt fiskveiðiár er hafið

September kominn af stað – og þar með nýtt fiskveiðiár. Þá opnast lika veiðar dragnótabáta inn í Faxaflóanum, eða bugtarveiðar eins og þær eru kallaðar. Fram til 2020 þá mátti ekki vera visst mikið af þorski í aflanum en árið 2020 var þessi regla felld niður og núna eru enginn takmörk á þorski í aflanum.

Og veiðarnar hafa byrjað mjög vel. Sjö bátar eru komnir á veiðar í Flóanum og hæstur af þeim er Ásdís ÍS frá Bolungarvík sem er kominn með 93 tonn í sex róðrum og af því er þorskur 57 tonn. Þessi bátur er ekki óvanur því að stunda veiðar í Faxaflóanum því báturinn hét áður Örn KE þar sem Karl Óskarsson var skipstjóri. Ásdís ÍS landar í Keflavík

Næstur á eftir honum er nýr bátur sem heitir Stapafell SH sem hefur landað 78 tonn í fjórum róðrum og mest 28 tonn. Langmest er af þorski í þessum afla, eða 75 tonn. Stapafell SH landar í Reykjavík. Stapafell SH er í eigu Péturs sem gerir úr Bárð SH en báturinn sjálfur var keyptur í vor frá Grímsey og þar hét hann Þorleifur og þar á undan Hringur GK frá Hafnarfirði.

Siggi Bjarna GK er með 52 tonn þremur róðrum, mest 21 tonn í róðri, og Benni Sæm GK er með 48 tonn í fjórum róðrum. Báðir landa í Sandgerði.

Síðan er Aðalbjörg RE með 49 tonn í þremur róðrum og öfugt við hina báta}na þá er uppistaðan hjá Aðalbjörg RE skarkoli, eða 28 tonn. Síðan hafa Matthías SH og Esjar SH líka komið í flóann.

Netabátarnir byrja frekar rólega og einu bátarnir sem eru að róa eru að veiða fyrir Hólmgrím. Sunna Líf GK er með 3,4 tonn í einum róðri, Addi Afi GK 1,4 tonn í einum og Svala Dís KE 2 tonn í einum, allir að landa í Keflavík. Hraunsvík GK var með 1,2 tonn í tveimur róðrum, landað í Grindavík.

Sighvatur GK er kominn á veiðar en hann bilaði um miðjan ágúst og var hent upp í slippinn í Njarðvík og fór niður um mánaðarmótin. Sighvatur GK kom til Grundarfjarðar með 91 tonn í einni löndun.

Aðrir línubátar eru allir úti á landi nema Dúddi Gísla GK sem er í Sandgerði. Fjölnir GK (áður Sævík GK, báturinn með danski ö-inu) er með 35 tonn í tveimur róðrum og mest 19,7 tonn í einni löndun, Óli á Stað GK með 30 tonn í fimm löndunum, Geirfugl GK 25 tonn í fjórum og Hópsnes GK 21 tonn í fjórum löndunum. Allir á Skagaströnd. Dúddi Gísla GK er með 17 tonn í þremur löndunum og mest 7,3 tonn.

Ekki er nú hægt að segja að veiðar hjá færabátunum sé eitthvað til að hrópa húrra yfir því enginn færabátur á Suðurnesjum hefur komist á sjóinn það sem af er september – svo það þýðir þá lítið að spá meira í því.

Nesfiskstogararnir eru ennþá á rækjuveiðum fyrir norðan og kom Sóley Sigurjóns GK með 52 tonn í einni löndun og var rækja af því ekki nema 15,5 tonn. Pálína Þórunn GK kom með 40 tonn í einni löndun og reyndar enginn rækja í þeim afla.

Nesfiskur á töluvert mikið af rækju því fyrirtækið fékk alls um 660 tonnum af rækju úthlutað á þessi tvö skip og er stærstur hlutinn af þeim afla á Sóley Sigurjóns GK. Allur rækjuaflinn af togurunum er unnin á Hvammstanga í Meleyri en Nesfiskur á það fyrirtæki.