Pistlar

Nýtt fiskveiðiár framundan
Gísli Reynisson
Gísli Reynisson skrifar
föstudaginn 30. ágúst 2024 kl. 06:02

Nýtt fiskveiðiár framundan

Áramót framundan. Nei, ekki nýtt ár sem við fögnum með því að sprengja í burtu gamla árið – hérna er ég að tala um nýtt fiskveiðiár sem er framundan.

Þegar leið á ágústmánuðinn fjölgaði aðeins bátunum sem fóru að róa frá Suðurnesjum og til að mynda þá kom dragnótabáturinn Maggý VE til Sandgerðis og hefur landað þar 19 tonnum í tveimur róðrum. Þar er Siggi Bjarna GK sem hefur landað 60 tonnum í níu róðrum núna í ágúst.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Og loksins er fyrsti línubáturinn sem landar á Suðurnesjum kominn á veiðar og er það Dúddi Gísla GK sem er búinn að fara í tvær sjóferðir – og reyndar er ég ekki með töluna um seinni róðurinn hjá bátnum en fyrri róðurinn var 5,6 tonn í einni löndun og var báturinn við veiðar út af Sandgerði.

Tveir Vísisbátar komu til Sandgerðis með afla. Sighvatur GK kom með 76,4 tonn og var báturinn líka við veiðar út af Sandgerði og Páll Jónsson GK kom þremur dögum á undan Sighvati til Sandgerðis með 122 tonna afla. Er þetta í fyrsta skipti sem Páll Jónsson GK og Sighvatur GK landa í Sandgerði. Reyndar hefur báturinn sem heitir Sighvatur GK landað áður í Sandgerði því að frá 1993 til 2001 hét þessi sami bátur Arney KE 50 og landaði þá oft í Sandgerði, bæði netaafla, loðnu og síld. Þar á undan hét þessi bátur reyndar Skarðsvík SH og kom þá af og til Sandgerðis með loðnu. Sighvatur GK fór síðan í annan túr og endaði í Njarðvík og þaðan í slipp því að skiptiskrúfan bilaði í bátnum.

Í Keflavík eru þrír netabátar komnir af stað og allt eru það bátar sem eru að veiða fyrir Hólmgrím. Þetta eru Addi Afi GK sem er kominn með 10,4 tonn í átta róðrum, Sunna Líf GK sem er með 20 tonn í níu róðrum og Svala Dís KE sem er með 4,3 tonn í tveimur róðrum.

Línubátarnir frá Suðurnesjum sem eru á Austur- og Norðurlandinu hafa átt ágætis mánuð. Til að mynda er Margrét GK með 89 tonn í átján róðrum frá Hólmavík, Óli á Stað GK 81 tonn í tólf róðrum, Hópsnes GK 42 tonn í tíu róðrum, Gulltoppur GK 31 tonn í níu og Geirfugl GK 31 tonn í sjö. Allir þessir bátar að landa á Skagaströnd og eru allir í eigu Stakkavíkur, reyndar er einn bátur til viðbótar sem Stakkavík á en sá bátur hefur ekki landað neinum afla síðan í apríl á þessu ári, sá bátur heitir Katrín GK og hefur legið í Sandgerði. Reyndar þá hefur Katrín GK aðeins landað 4,8 tonnum í einni löndun allt þetta ár, 2024.

Báturinn sem áður hét Sævík GK er kominn á veiðar og er kominn með nýtt nafn. Heitir báturinn núna Fjölnir GK. Reyndar heitir báturinn Fjølnir GK, eða eins og þetta er kallað danskt Ö. Ég mun reyndar nota íslenska ö-ið þegar ég skrifa um þennan bát í komandi pistlum. Núna er Fjölnir GK kominn með 55,5 tonn í sex róðrum og landar á Neskaupstað.

Með þessari nafnabreytingu þá var hinum krókabátnum sem Vísir ehf. gerði út, Daðey GK, lagt og allur kvótinn sem var á Daðey GK er núna kominn yfir á Fjölni GK (þessum með danska ö-inu).