Pistlar

Ólympíustund á milli stríða
Mánudagur 26. ágúst 2024 kl. 14:59

Ólympíustund á milli stríða

Það hefur ekki farið framhjá neinum að sumarið 2024 er Ólympíusumarið mikla í París. Eins og ég gerði að umtalsefni hér á þessum vettvangi fyrr í sumar hefur Parísarborg verið undirlögð af leikunum og daglegt líf íbúa og gesta verið nokkuð frábrugðið því sem venjulegt er. Nú er tveggja vikna Ólympíustund á milli stríða til 28. ágúst þegar Ólympíuleikar fatlaðra hefjast með pompi og prakt.

Við fjölskyldan fengum leikana beint í æð og ég verð að segja að það var talsverð upplifun að vera hér á meðan á þeim stóð. Hverfið okkar og borgin öll iðaði af lífi, alls staðar var búið að setja upp tímabundna leikvanga og tilheyrandi skreytingar. Við fórum reyndar ekki eins mikið á íþróttaviðburðina sjálfa eins og við hefðum viljað og fylgdumst því mest megnis með keppninni sjálfri í sjónvarpi. Eiginmaðurinn varði þó heilum degi á hinum víðfræga National golfvelli að fylgjast með spennandi keppni þar, yngri sonurinn horfði á         Paragvæ mæta Ísrael í markaveislu á Parc du Princes og svo fylgdumst við með hjólreiðakeppni á götum Parísar, svo eitthvað sé nefnt.

SSS
SSS

Markmið Frakka að innlima leikana inn í Parísarborg og gera hana að einum stórum Ólympíuleikvangi tókst fullkomnlega. Ég hef aldrei horft á flottari Ólympíuleika – allt frá mergjaðri opnunarhátíð á Signu til lokahátíðarinnar á Stade de France - og hreint stórkostlegt hvernig kennileiti borgarinnar, frá Eiffel turninum, Louvre, Champs-Élysées, Les Invalides til Sigurbogans og Signu gáfu þeim þetta extra myndræna „úmf“ sem erfitt verður að toppa hvar sem er í heiminum. Íþróttaafrekin voru ekki heldur af verri endanum og aðdáunarvert að sjá þessa stórkostlegu íþróttamenn slá hvert metið á fætur öðru. Önnur kannski minni afrek, líkt og hin eftirminnilega frammistaða áströlsku breakdans konunnar og stangarstökk franska karlmannsins sem sjálf karlmennskan varð að falli, verða einnig lengi í minnum höfð!

Og nú fer að styttast í Ólympíuleika fatlaðra - spennan er mikil og verður gaman að fylgjast með þeim. Ekki síst fyrir okkur Suðurnesjamenn sem eigum okkar eigin frábæra fulltrúa, Má Gunnarsson sundmann úr ÍRB. Við Helgi Matthías, sem æfði einmitt sund með ÍRB í mörg ár, ætlum sannarlega að mæta og hvetja okkar mann... það er að segja ef okkur tekst að ná okkur í miða á uppseldan leikvang! Við treystum á hið fornkveðna að þetta reddist!

Hvað segið þið hjá ÍRB – einhverjir aukamiðar hjá ykkur til sölu?

Með ólympíukveðju frá París,

Ragnheiður Elín Árnadóttir.