Pistlar

Sameiningartákn þjóðarinnar
Föstudagur 12. apríl 2024 kl. 06:03

Sameiningartákn þjóðarinnar

Það kom flestum á óvart um áramótin þegar sitjandi forseti tilkynnti að hann myndi ekki bjóða sig fram til áframhaldandi setu sem forseti lýðveldisins. Fannst nóg komið og vildi snúa sér að öðru, kannski einhverju skemmtilegra.  Það var eins og við manninn mælt að skyndilega fór fjöldi manns að fá áskoranir um að bjóða sig fram til þessa æðsta sameiningartákns þjóðarinnar. Síðast þegar ég taldi voru hugsanlegir frambjóðendur orðnir sjötíuogfimm og þjóðin klofin í jafn marga parta.

Það er umhugsunarefni hvernig á því stendur að slíkur fjöldi fólks skuli stíga fram og  telja sig eiga möguleika á hljóta þetta virðingarmikla starf. En miði er möguleiki eins og happdrættin auglýsa. Möguleikinn á að ná útnefningu  er í raun ótrúlega hár, frambjóðandi þarf ekki ekki nema eitt þúsund og fimm hundruð meðmælendur og gæti þess vegna orðið forseti Íslands með nokkur prósent atkvæða þjóðarinnar á bak við sig. Þannig er þetta vegna þess að við sem þjóð höfum vanrækt að uppfæra það forrit sem ætlað er að byggja hér upp sanngjarnt og réttlátt þjóðfélag. Sjálfa Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.

Það er ekki þannig að ekki hafi verið margoft kallað eftir breytingum á stjórnarskránni en allar markverðar breytingar hafa verið stöðvaðar í meðförum Alþingis. Slíkar breytingar sem verið gætu í  þágu fólksins í landinu virðast ekki henta hagsmunum stjórnmálaflokkanna í landinu. 

Umgjörðin í kringum forsetakosningarnar nú sýna okkur að breytinga er þörf. Að stjórnarskránni verði breytt og uppfærð í átt að lýðræðislegum þörfum, og hætt að styðjast við stjórnarskrá konungsveldisins Danmerkur. Það væri góð breyting að breyta meðmælendafjöldanum og enn betri breyting að hafa hér tvöfalda kosningu til embættis forseta þjóðarinnar, þannig að ljóst væri að forsetinn nyti ávallt stuðnings meirihluta þjóðarinnar. Þannig yrði hann fyrst óumdeilanlega sameiningartákn þjóðarinnar.