Max 1
Max 1

Pistlar

Sjómenn og útgerðaraðilar frá Suðurnesjum getið verið mjög sáttir
Gísli Reynisson
Gísli Reynisson skrifar
föstudaginn 11. október 2024 kl. 06:05

Sjómenn og útgerðaraðilar frá Suðurnesjum getið verið mjög sáttir

Septembermánuður liðinn og mér sýnist að sjómenn og útgerðaraðilar frá Suðurnesjum getið verið mjög sáttir við þennan mánuð sem var fyrsti mánuðurinn á fiskveiðiárinu.

Afli bátanna var mjög góður og tveir stóru línubátarnir sem eftir eru héðan veiddu vægast sagt ansi vel. Sighvatur GK var með 662 tonn í fimm löndunum og mest 162 tonn í löndun og Páll Jónsson GK var ekki langt þar á eftir með 624 tonn í sex löndunum og mest 149 tonn.

Bílakjarninn
Bílakjarninn

Töluvert flakk var á bátunum því þeir lönduðu á Skagaströnd, Neskaupstað, Djúpavogi og Grundarfirði – og nokkuð merkilegt er að allur aflinn var vigtaður á fiskmarkaði. Líklega þá ekki unnin í húsnæði Vísis í Grindavík.

Hólmgrímur á ekki neinn bát í útgerð en hann var engu að síður með fimm minni netabáta á veiðum fyrir sig í september. Adda Afa GK, Svölu Dís KE, Sunnu Líf GK, Neista HU og Hraunsvík. Samtals veiddu þessir fimm bátar 174 tonn í september og var öllum aflanum landað í Keflavík. Hæstur var Addi Afi GK með 48 tonn í 21 róðrum og mest 4,4 tonn í löndun. Svala Dís KE var með 45 tonn í átján róðrum og mest 3,7 tonn í löndun, Sunna Líf GK 38 tonn í sextán róðrum og mest 4,9 tonn í löndun, Neisti HU 24 tonn í sextán róðrum og Hraunsvík GK 19 tonn í sjö róðrum.

Margrét GK sem var á Hólmavík allan september hætti veiðum þar undir lok mánaðarins og kom suður til Sandgerðis, Margrét GK hefur byrjað róðra þaðan núna í október. Hulda GK er þar líka á veiðum. Dúddi Gísla GK sem var í Sandgerði er kominn til Grindavíkur.

Ef við lítum á nokkra línubáta þá var Óli á Stað GK með 171 tonn í tuttugu róðrum og mest 12,5 tonn í róðri, Fjölnir GK með 136 tonn í fjórtán róðrum (hann er fyrir austan), Margrét GK með 124 tonn í átján róðrum, Hópsnes GK 118 tonn í nítján róðrum, Geirfugl GK 88 tonn í fjórtán róðrum og Gísli Súrsson GK 84 tonn í níu róðrum.

Reyndar þá réru Einhamarsbátarnir mjög lítið í september, sem kemur nokkuð á óvart. Til dæmis fór Vésteinn GK einungis í sex róðra og Gísli Súrsson GK aðeins í níu róðra.

Dragnótabátarnir veiddu líka vel og var Siggi Bjarna GK hæstur af bátunum frá Suðurnesjum með 237 tonn í sautján róðrum og mest 25 tonn í löndun. Báturinn var fimmti hæsti dragnótabáturinn á landinu. Benni Sæm GK 175 tonn í sextán róðrum og Maggý VE 116 tonn í tólf róðrum. Allir lönduðu í Sandgerði.

Sigurfari GK hefur ekki hafið veiðar en hann var í slipp og er reyndar kominn á flot svo það styttist í að báturinn hefji veiðar. Hann mun reyndar ekki veiða inn í Faxaflóanum því hann er of langur.