Það er engin leið að hætta
Við förum í bíó, við förum á kostum og förum á puttanum rúnt, er sungið í einu ástsælasta popplagi níunda áratugarins. „Amma, hvað er þetta bíó sem sungið er um?“ sé ég fyrir mér að barnabörnin spyrji mig í framtíðinni. Ætli ég segi þeim ekki að það hafi bara verið til í gamla daga.
Eftir að fréttir bárust af því að eina bíóhúsið í bænum hyrfi nú á braut, eins og svo margt annað, fannst mér ekki seinna vænna að skella mér á sýningu og kveðja salinn. Ekki það, ég hef verið tíður gestur í þessu sama kvikmyndahúsi alla mína ævi. Á margar skemmtilegar minningar þaðan. Hef bæði hlegið þar og grátið. Mætti galvösk í bekkjarbíó, afmælisbíó, fjölskyldubíó, vinkonubíó, fyrsta-deits bíó, yfirfull og tóm bíó.
Eftirminnilegust var örugglega Star Wars frumsýningin ´99. Húsið var svo troðfullt að við frænka mín urðum að sitja í stiganum. Og vorum ekki þær einu. En mesta sportið var þegar gamla Bergás salnum var breytt í sal 2. Sérstaklega þegar farið var á hryllingsmynd á unglingsárunum og eftir sýninguna þurfti að ganga út á bakvið í myrkrið og drungann. Í seinni tíð fór ég svo að fara með börnunum mínum sem iðulega voru búin með sælgætið þegar auglýsingunum lauk og sykurinn kominn í blússandi gír þegar rétt nokkrar mínútur voru liðnar af myndinni. Samt alltaf jafn spennandi fyrir litla gorma að fara í bíó.
En aftur að kveðjusýningunni. Við mamma skelltum okkur saman. Salurinn fullur til hálfs og víða mátti sjá fleiri mæðgnahópa. Eldri kynslóðin tekur bíóferðum augljóslega eilítið hátíðlegar en við hinar, uppábúnar með varalit og klút, svo ekki sé minnst á ilmvatnslyktina sem fyllti rýmið. Aldamótakynslóðin meira með letisnúðinn í hárinu og niður-dressaðar í jogging galla og íþróttaskó.
Hvað ætli ég hafi setið í mörgum sætum í þessu sama húsi á öllum þessum árum? Nei, ég mátti ekki gleyma mér í dramatískum hugsunum. Nógu dramatísk var myndin nú fyrir. Hún hélt athygli minni allt fram að hléi en þá tók ég eftir því að heldri maður sat fyrir aftan okkur og sá hafði mætt einn síns liðs. Samviskubitið yfir óstöðvandi tækni og vísindum helltist yfir mig og ég bölvaði streymisveitunum í laumi. Hvað með elstu kynslóðina sem skellir sér í bíó til þess eins að gera sér dagamun?
Þegar sýningunni lauk á þessu fína föstudagskvöldi ákváðum við mamma að taka einn rúnt á Hafnargötunni. Klukkan tíu að kvöldi voru ekki nema þrír bílar á ferð. Það eina sem mætti okkur voru litglaðir ljósastaurar og fallega bergið okkar upplýst. Enginn á rúntinum lengur. „Amma, var rúntur bara til í gamla daga?“