Vinur minn tannlæknirinn
Svipað og með stjórnmálaflokka hef ég ekki verið sérlega fastheldinn á tannlækna í gegnum lífið. Meira litið á þá eins og bílaviðgerðarmenn sem takast á við allskonar bilanir sem upp koma, með þeim tækjum og tólum sem þeir hafa yfir að ráða. Man enn eftir fyrsta tannlækninum mínum í Kópavogi sem virtist bara eiga naglbít og eitthvað af töngum og borum. Var alltaf skíthræddur við hann. Hann var ekki vinur minn og ekki reiknaði ég með að slíkur yrði nokkru sinni vinur minn. En það gerðist.
Sá var svona hugljúfi allra. Hann vandaði deyfingar sínar vel, svo vel að á meðan hann hamaðist í munninum á mér gátum við að mér fannst oft geta átt gott samtal. Fyrir utan tannlæknastofuna áttum við einnig oft gott spjall, um allt milli himins og jarðar. Þegar kom að stjórnmálum verð ég að viðurkenna að oftast var það ég sem talaði, hann hlustaði. Það var ljóst að fyrir einar kosningar vorum við ekki sammála um kvótann og sjávarútvegsmál, þó hann segði ekki mikið.
Fimm dögum fyrir kosningar kallaði hann mig til sín. Þetta var einn einn af þessum fallegu vordögum, sólin skein og fuglarnir sungu. Ég mætti og settist í stólinn, hélt að þetta tæki fljótt af, og gæti farið aftur og notið blíðunnar. Tannlæknirinn með sinni stóísku ró gaf „klínkunni“ fyrirmæli um hvað hann vantaði. Ég beið rólegur en sá þó undrunarsvip á „klinkunni“, ákvað samt að segja ekkert á meðan hann var að deyfa mig, með sprautuna á fullri ferð. Það væri hættulegt.
Um leið og hann byrjaði aðgerðina, byrjaði hann líka að tala. Róin sem venjulega fylgdi honum var horfin. Bunan stóð út úr honum. Hann byrjaði á að útskýra fyrir mér allskonar í kringum kvóta og útgerð, um leið og hann útskýrði fyrir mér að hugmyndir þeirra sem vildu breytingar þar, gengju ekki upp. Ég hugsaði að annað hvort væri hann að misskilja boðskapinn, eða hann vildi bara ekki þessar breytingar. Ég varð að svara, þrátt fyrir yfirburðastöðu hans þá stundina.
Ég beið rólegur eftir að hann hætti að bora og slípa, ætlaði að vera tilbúinn þegar að tækifærið gæfist. Skyndilega hætti hann að slípa, og varð rólegur. Byrjaði að tína út úr mér bómulinn og bað mig að skola. Nú var komið að mér. Fann strax að eitthvað var ekki eins og það átti að vera. Orðin voru þar, en kjálkinn hreyfðist ekki. Hann horfði á mig og sagði. „Heldurðu virkilega að ég fari að tala við þig um pólitík án þess að deyfa þig alveg.“