Samkaup
Samkaup

Viðskipti

Codland tilnefnt til menntaverðlauna atvinnulífsins
Þriðjudagur 4. mars 2014 kl. 07:54

Codland tilnefnt til menntaverðlauna atvinnulífsins

- Viðtal við Erlu Pétursdóttur framkvæmdastjóra

Fyrirtækið Codland í Grindavík var tilnefnt til Menntaverðlauna atvinnulífsins 2014, sem Menntasproti ársins. Menntaverðlaun atvinnulífsins voru veitt í fyrsta sinn í gær til fyrirtækja sem hafa staðið sig vel á sviði fræðslu- og menntamála en Samskip og Nordic Visitor hlutu verðlaunin að þessu sinni.

Fyrirtækið Codland var stofnað árið 2012 en það sérhæfir sig í hámarksnýtingu á hráefnum þorsks. Á bak við Codland standa ýmis ólík fyrirtæki en öll eiga þau það sameiginlegt að leggja áherslu á fullnýtingu og verðmætaaukningu á áður illa nýttum hráefnum.

Vinnuskóli Codland hefur vakið mikla lukku en skólinn hefur það að markmiði að efla áhuga á sjávarútveginum og sýna nemendum þau víðfeðmu áhrif sem hann hefur á okkar samfélag. Nemendur fá fræðslu um sjávarútveginn, fara í vettvangsferðir og vinna verkefni sem tengjast nýsköpun sjávariðnaðarins.

Í myndbandinu hér að neðan má sjá viðtal við Erlu Pétursdóttur, framkvæmdastjóra Codland, þar sem hún ræðir um markmið fyrirtækisins. Hún sér fyrir sér að út frá nýsköpun í sjávarútvegi skapist fjölbreytt og spennandi störf á landsbyggðinni. Erla vonast til að innan skamms verði komin af stað vöruþróun frá fyrirtækinu, jafnvel á snyrtivörumarkaði eða í fæðubótaefnum sem njóta mikilla vinsælda.