Gleðilegt sumar
Gleðilegt sumar

Viðskipti

Næstum allir með töskur hjá Icelandair
Fimmtudagur 29. nóvember 2012 kl. 14:30

Næstum allir með töskur hjá Icelandair

- en helmingur hjá WOW

Það getur kostað allt að 3600 krónur að innrita eina tösku í flug frá Íslandi. Sum félög rukka aukalega fyrir farangur en önnur ekki. Hlutfall farþega sem ferðast aðeins með handfarangur er gjörólíkt hjá Icelandair og WOW air. Frá þessu er greint á vefnum Túristi.is

Níu af hverjum tíu farþegum Icelandair ferðast með meira en handfarangur en aðeins helmingur þeirra sem fljúga með WOW air skilar af sér tösku við innritun samkvæmt upplýsingum frá félögunum. Hlutfallið hjá WOW air breyttist lítið eftir að fyrirtækið tók upp farangursgjald sem nemur 2900 krónum fyrir hvern fluglegg.


Jólagjöf með eða án farangurs

Sex af þeim ellefu félögum sem halda uppi millilandaflugi héðan næsta sumar rukka fyrir farangur eins og greint var frá hér á síðunni um daginn (sjá hér ). Sú staðreynd gerir verðsamanburð á fargjöldum snúnari en áður og flækir líka málin fyrir þá sem ætla að gefa jólagjafabréf félaganna í næsta mánuði. Því ef helmingur farþega WOW air ferðast með meira en handfarangur má búast við því að álíka hátt hlutfall þeirra sem fær gjafabréf félagsins á aðfangadagskvöld þurfi að bæta 5800 krónum við þegar ferðin er bókuð. Ódýrasta jólagjafabréf WOW air kostar 22.900 krónur en 31.900 krónur hjá Icelandair.
Enn fleiri gjöld

Það er ekki aðeins töskugjald sem bætist við hjá meginþorra flugfélaganna hér á landi. Sum þeirra taka þóknun fyrir greiðslur með kreditkortum og innheimta bókunargjald. Eins þurfa farþegar sem vilja tryggja sér ákveðin sæti að borga 650 til 2990 krónur fyrir þá þjónustu hjá sjö af félögunum ellefu. Ef það færist í aukana að fólk taki frá sæti mun það valda því að fjölskyldur og hópar, sem vilja sitja saman í vélinni, komast ekki hjá því að gera það einnig og borga fyrir það.

VF Krossmói
VF Krossmói