Viðskipti

Stærsta opnun Ísbúðar Huppu frá upphafi
Thelma Hrund Hermannsdóttir
Thelma Hrund Hermannsdóttir skrifar
sunnudaginn 18. september 2022 kl. 10:00

Stærsta opnun Ísbúðar Huppu frá upphafi

Ísbúðin Huppa opnaði í Reykjanesbæ 2. september síðastliðinn og var opnunin sú stærsta frá upphafi. Ísþyrstir íbúar Reykjanesbæjar hafa flykkst að búðinni til að fá að bragða á ísnum og er nánast undantekningarlaust röð út að dyrum. 

Ísbúð Huppu opnaði fyrst á Selfossi árið 2013 en ísbúðin hefur notið mikilla vinsælda og má nú finna Huppu víða um landið en búðin í Reykjanesbæ er sú áttunda í röðinni. „Huppu líður mjög vel í Reykjanesbæ og er komin til að vera,“ segir Telma Finnsdóttir, markaðsstjóri Ísbúðar Huppu. 

„Það hefur verið mikil eftirspurn eftir Huppu frá íbúum Reykjanesbæjar síðustu ár og við höfum fundið það í gegnum tíðina. Það var einhvern tíman gerður undirskriftalisti þar sem var verið að hvetja til þess að Huppa myndi koma til Reykjanesbæjar,“ segir Telma og bætir við: „Það er ótrúlega gaman að vera loksins komin og við finnum að það er mikill meðbyr.“ Vegna mikillar eftirspurnar hafði Ísbúð Huppu verið með augun opin fyrir húsnæði á góðum stað í bænum í svolítinn tíma. „Við höfum lengi verið spennt fyrir Reykjanesbæ og þegar okkur bauðst húsnæði við Hafnargötu 90 þá var ekki annað hægt en að slá til,“ segir Telma. 

Stærsta opnun frá upphafi

Ísinn virðist þó ekki vera það eina sem er eftirsóknarvert hjá Huppu en alls mættu 80 í atvinnuviðtal á opnum viðtalsdegi sem var þriðjudaginn 26. júlí. „Allir sem hafa verið að vinna með okkur í opnuninni, hvort sem það eru smiðir eða rafvirkjar eða aðrir, þetta er allt svo skemmtilegt fólk og allir svo jákvæðir og spenntir. Það hefur gert undirbúninginn ótrúlega skemmtilegan,“ segir Telma. Ísbúðin opnaði 2. september og hefur starfsfólk haft í nógu að snúast en mörg hundruð lítrar af ís seldust yfir helgina. „Við opnuðum á föstudeginum á Ljósanótt og það var brjálað að gera en þetta gekk ótrúlega vel. Þetta er stærsta opnun hjá okkur frá upphafi. Ég er ekki með tölur yfir það hvað við seldum mikið af ís en þetta eru alla vega mörg hundruð lítrar.“

Telma segir að það hafi þurft að bæta við starfsfólki alla daga frá opnun: „Ég held það hafi klárlega verið vöntun á einhverju svona á svæðinu. Svo er búið að vera bongóblíða dag eftir dag og því er búið að vera brjálað að gera alveg síðan við opnuðum. Nýja starfsfólkið er búið að vera mjög duglegt. Við erum búin að þurfa að hringja út meira starfsfólk næstum alla dagana.“ Ísbúð Huppu þakkar fyrir góð viðbrögð og móttökur bæjarbúa. Ef íbúar halda áfram að vera duglegir að fá sér ís, og ef marka má orð Telmu, er Huppa „komin til að vera“.