Framsóknarflokkurinn
Framsóknarflokkurinn

Aðsent

  • Eflum heilsugæsluna og HSS
  • Eflum heilsugæsluna og HSS
Mánudagur 26. maí 2014 kl. 12:19

Eflum heilsugæsluna og HSS

– Guðný Birna Guðmundsdóttir skrifar

Óljósar hugmyndir sjálfstæðismanna í Reykjanesbæ sem viðraðar hafa verið í aðdraganda kosninga, varðandi  yfirtöku heilsugæslu HSS kalla fram spurningar sem þarfnast nánari útskýringa við.
Í fyrsta lagi þá skiptir tímasetningin öllu! Af hverju kemur þetta illa ígrundaða útspil núna? Ég velti því fyrir mér hvar áhuginn fyrir HSS var þegar skurðstofurnar okkar voru lokaðar? Var þá sýndur áhugi að hjálpa HSS? Hvar hefur sjálfstæðisflokkurinn verið þegar starfssemi HSS hefur ítrekað verið skorin niður ár eftir ár með uppsögnum og tilheyrandi þjónustuskerðingu? Hvað gerðu sjálfstæðismenn þegar hjúkrunarheimilið okkar var sett undir stjórn Hrafnistu? Hvar voru sjálfstæðismenn þá?

Einkavæðingu fylgir ójafnari aðgangur almennings
Einkavæðing er þegar opinbert fyrirtæki eða stofnun eins og heilsugæsla er færð yfir á einkaaðila eins og hugmyndir hafa verið uppi um. Hlutverk og fjármagn hins opinbera er takmarkað en stofnanir líkt og heilsugæsla eru að mestu í einkaeign. Aðgangur almennings að slíkri einkaþjónustu er almennt ójafnari, viljum við það?

Íslendingar vilja félagslegt heilbrigðiskerfi
Félagslegt heilbrigðiskerfi er ráðandi fyrirkomulag á Íslandi og Norðurlöndunum. Hið opinbera fjármagnar þjónustuna, skipuleggur og greiðir fyrir hana en þjónustan á að tryggja öllum þegnum jafnan aðgang að henni. Árið 2007 var gerð landskönnun á vegum Landlæknisembættisins, Lýðheilsustöðvar og Háskóla Íslands en þátttakendur voru m.a. spurðir um viðhorf til heilbrigðisþjónustunnar. Niðurstöður bentu til mikillar samstöðu um að heilbrigðisþjónusta landsmanna eigi að vera fjármögnuð af ríkissjóði þar sem 81% vildu að ríkið ræki sjúkrahúsin og 76% vildu að ríkið ræki heilsugæslustöðvarnar.  

Landlæknisembættið gerði úttekt á starfssemi heilsugæslu HSS árið 2010. Það var niðurstaða úttektarinnar að heilsugæsla HSS hefði alla möguleika og vilja til að veita íbúum góða og öfluga grunnþjónustu, jafnvel þó að stofnunin hafi undanfarin ár þurft að glíma við skert fjárframlög. Ég vona einlægt að íbúar Reykjanesbæjar falli ekki í þá gildru að halda að einkavæðing eða „yfirtaka“ sjálfstæðismanna á heilsugæslustöðinni okkar sé bjargráð fyrir hana og okkur öll.
Til þess að bæta þjónustuna þarf fyrst og fremst að fjölga starfsfólki og efla endurmenntun starfsfólksins sem er fyrir og auka þannig starfsánægju þeirra og tryggja að fólk endist í vinnu.

Gerum HSS kleift að sinna hlutverki sínu með sóma
Heilbrigðisstofnun Suðurnesja er stofnunin okkar. Við þurfum ekki punt á heilsugæslu HSS. Okkur skortir ekki grjót og minnismerki í heilsugæsluna. HSS skortir aukið fjármagn og stuðning til að eflast og dafna, eitthvað sem sjálfstæðismenn hafa ekki mikið pælt í fyrr en nú, rétt fyrir sveitastjórnarkosningar.

Farsælasta leiðin fyrir bæjarstjórn Reykjanesbæjar til eflingar heilbrigðisþjónustu á Suðurnesjum er að skapa samstöðu til framtíðar. Það gerum við með því að taka höndum saman með nágrönnum okkar og mynda sem fyrst starfshóp samansettan af fulltrúum allra sveitarfélaganna á Suðurnesjum. Saman getum við unnið með  stjórnendum HSS og Velferðarráðuneytinu til að hækka fjárveitingu til HSS svo stofnuninni verði gert kleift að sinna sínum lögbundnu verkefnum með sóma.

Það að koma saman er byrjun, það að haldast saman er árangur, það að vinna saman er velgengni (Henry Ford).

Guðný Birna Guðmundsdóttir
hjúkrunarfræðingur og meistaranemi
#2 á S-lista Samfylkingarinnar og óháðra

Viðreisn
Viðreisn