Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Fyrstu ár barnanna og góður kaffibolli
Föstudagur 21. janúar 2022 kl. 07:30

Fyrstu ár barnanna og góður kaffibolli

Ég hef nú búið í Reykjanesbæ í um einn áratug og er ekki á leiðinni neitt annað. Það er gott að búa í Reykjanesbæ en gæti auðvitað verið betra. Reykjanesbær er ört stækkandi samfélag og þjónustan þarf að halda í við stækkunina. Nú styttist í bæjarstjórnarkosningar og þá fer maður að velta fyrir sér hvað skipti mann mestu máli og hvað betur mætti fara.

Ég eignaðist mitt fyrsta barn í febrúar 2018. Þegar barn kemur við sögu, fer maður að spá í hluti sem maður spáði ekki jafn mikið í áður. Auðvitað vill maður allt það besta fyrir börnin sín og hugsanir koma eins og hvar vil ég ala barnið mitt upp, í hvaða leikskóla og skóla fer barnið?

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Það vita það kannski ekki allir en flestir leikskólar hér í bænum taka ekki börn inn nema þau hafi náð tveggja ára aldri, með einstaka undartekningum. Það segir okkur það að börn fædd snemma á árinu eru kannski heima fyrstu tvö og hálfa árið ef þau fá ekki pláss hjá dagforeldri. Það er nefnilega alls ekki sjálfgefið að fá pláss hjá dagforeldrum í dag og þú þarft helst að hringja og setja þig á margra blaðsíðna biðlista um leið og það er pissað á prikið.

Þessu þarf að breyta.

Eftir að barn kemur í heiminn er ekki óalgengt að spítalaheimsóknir séu margar fyrstu mánuðina og árin. Ég þekki það vel sjálf með tvö lítil kríli með ofnæmi, exem, síendurteknar eyrnabólgur. Hvað ætli ég hafi þurft að keyra oft til Reykjavíkur í klukkutíma með grátandi barn í aftursætinu til að geta talað við barnalækni, háls-, nef og eyrnalækni eða ofnæmislækni?

Þessu þarf að breyta.

Ég vil að hér í Reykjanesbæ eigi að vera hægt að tryggja öllum börnum dagvistun að loknu fæðingarorlofi og að hér sé að sjálfsögðu barnalæknir á vakt, alla daga.

Svo vil ég í lokin líka nefna það að það væri auðvitað frábært að fá hollari skyndibitastaði og gott kaffihús í bæinn, að ekki sé minnst á eins og eina glæsilega mathöll eins og til dæmis hefur verið reist á Selfossi – en tölum um það næst.

Gígja Sigríður Guðjónsdóttir,
uppeldisfræðingur, flugfreyja og matarbloggari.